Við höfum ekki átt gott brauð í nokkra daga og við Öggi vorum farin að sakna þess að fá okkur væna brauðsneið á morgnana. Ég ákvað því að baka brauð í gærkvöldi og þvílíkur munur það er að byrja daginn svona vel.
Það er svo myndarlegt að segjast baka brauð í hverri viku en satt að segja þá er það bæði fljótlegra en að fara út í búð og svo margfalt betra. Brauðið er gerlaust og þarf því ekki að hefast, það er bara öllu blandað vel saman og sett í form áður en það fer inn í heitan ofninn.
Þó að þetta brauð sé í algjöru uppáhaldi hjá okkur, ásamt speltbrauðinu, þá þótti okkur rúgmjölsblandan í þessu grófa brauði skemmtileg tilbreyting. Næst ætla ég að prófa að bæta rúsínum í það, ég gæti trúað að það væri gott.
Gróft brauð með rúgmjöli og tröllahöfrum
- 5 dl rúgmjöl
- 5 dl hveiti
- 1 dl tröllahafrar
- 1 dl hörfræ
- 1 tsk salt
- 1 msk matarsódi
- 1 dl týtuberjasulta (ég nota lyngonsylt sem fæst í Ikea)
- 2 msk síróp
- 5 dl jógúrt (eða ab-mjólk eða súrmjólk)
- graskersfræ til að strá yfir brauðið
Hitið ofninn í 175°. Blandið öllum þurrefnunum saman. Hrærið týtuberjasultu, sýrópi og jógúrti saman við þurrefnin og blandið vel. Setjið deigið í smurt brauðform. Stráið graskersfræjum yfir og bakið í neðri hlutanum á ofninum í ca 1 klukkustund.
Rosalega girnilegt.. En ég held ég þurfi að spyrja hann Örlyg hvað tröllahafrar heita á dönsku, áður en ég kasta mér út í þetta.
Öggi segir að þú fáir þá í Gundtoft 🙂 Ég myndi bara nota grófa hafra eða venjulegt haframjöl.
Þetta brauð er alveg frábært, ég mældi í það og fór með í sumarbústað, setti í það rúsínur. Alveg dásamlegt að borða nýtt bauð í brunch á laugardag. Takk fyrir frábæra síðu.
Æðislega gaman að heyra Hrafnhildur – takk fyrir að segja mér frá ♥ Ég ætla líka að prófa að bæta rúsínum í næst þegar ég baka brauðið.
Sniðugt hjá þér að taka tilbúna blöndu með í sumarbústaðinn.
Kveðja,
Svava.
Dásemdar brauð, setti smátt saxaðar döðlur í það, alger nammi brauð, takk fyrir uppskrift
Hljómar vel með saxaðar döðlur í brauðið – ætla að prófa það næst : )
Kveðja, Svava.
Þetta brauð er algjört æði 🙂
How many grams of flour is 5dl???? I am a little confused 🙂
The bread tasted really good 🙂 but it didnt rise so much like you showing here in the picture,so what was i missing? Thks