Þetta er uppáhaldskaka Ögga og sænsku drottningunar, Silvíu. Ég skil það vel því kakan er æðislega góð. Hún er mjög fljótleg í bakstri og hráefnið það einfalt að ég á það alltaf til og hef ég því stundum bakað þessa köku í snatri þegar við höfum fengið gesti óvænt í kaffi.
Í dag byrjaði Öggi loksins í sumarfríi og mér fannst við verða að halda upp á það. Það var því alveg kjörið að baka Silvíuköku og þegar hann kom heim settumst við út á pall og fengum okkur kaffi.
Silvíukaka
- 2 egg
- 2 dl sykur
- 1 dl vatn
- 2 dl hveiti
- 2 tsk lyftiduft
Glassúr
- 75 gr smjör
- 1 dl sykur (eða flórsykur)
- 2 tsk vanillusykur
- 1 eggjarauða
- kókosmjöl
Hitið ofninn í 175°. Hrærið egg og sykur saman þar til létt og ljóst. Bætið vatninu saman við og hrærið snögglega. Bætið hveiti og lyftidufti út í og hrærið þar til deigið verður slétt. Setjið deigið í smurt bökunarform og bakið í ca 30 mínútur.
Á meðan kakan er í ofninum er glassúrinn gerður. Bræðið smjörið í litlum potti við vægan hita og hrærið sykri, vanillusykri og eggjarauðu saman við.
Þegar kakan er tilbúin er glassúrinn breiddur yfir kökuna og kókosmjöli stráð yfir.






