Ég hef varla verið heima undanfarnar vikur og hef því lítið náð að dunda mér í eldhúsinu. Það styttist þó í að það fari að róast hjá mér og þegar það gerist verður vonandi meira líf hér á blogginu því ég með langan lista af uppskriftum sem mig langar að prófa.
Þangað til nýt ég góðs af uppskriftum sem eiga eftir að fara hingað inn, eins og þessi súkkulaðimús. Þeir sem lesa hér reglulega vita eflaust að súkkulaðimús er sá eftirréttur sem ég geri hvað oftast því börnin mín vita fátt betra. Um daginn breytti ég út af vananum og bætti After Eight í súkkulaðimúsina. Útkoman var æðisleg!
After Eight súkkulaðimús ( uppskrift fyrir 6)
- 100 g suðusúkkulaði
- 15 plötur After Eight
- 3 eggjarauður
- 5 dl rjómi
Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).
Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.
Setjið súkkulaðimúsina í skálar og látið standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma.