Basiliku og parmesan tómatsúpa

Basiliku og parmesan tómatsúpa

Fyrir nokkrum árum kom Jakob þeirri hefð á að hafa súpu í matinn eitt kvöld í viku. Hann fékk snemma æði fyrir súpum og það virðist ekki ætla að eldast af honum. Hann sýnir súpugerðinni mikinn áhuga, fylgist vel með því sem fer í pottinn og smakkar þær til. Það er svo gaman að fylgjast með honum, hann er svo einbeittur  við þetta og hefur oftar en ekki rétt fyrir sér varðandi hvað þarf til að gera súpuna góða.

Ég er því alltaf á höttunum eftir nýjum súpuuppskriftum og þessa fann ég á Pinterest. Uppskriftina átti upphaflega að elda í fleiri klukkutíma en það hentaði nú ekki í hversdagsamstrinu. Ég byrjaði því á að breyta eldunaraðferðinni og efast um að það hafi komið niður á bragðinu.

Súpan er elduð á þann máta að hún er þykkt með uppbakaðri smjörbollu í lok eldunartímans. Það er að sjálfsögðu hægt að sleppa því en mér þótti það gefa súpunni bæði góða fyllingu og áferð. Smjörbollan er látin hitna vel í pottinum sem gerir það að verkum að smjörið byrjar að brúnast og fær smá hnetukeim. Æðislega gott og gefur súpunni skemmtilegt bragð.

Súpan er mjúk og góð. Hún ætti að falla vel í kramið hjá tómatsúpuunendum og passar vel í þeim flensufaraldri sem nú gengur yfir landið.

Basiliku og parmesan tómatsúpa

  • 2 dósir hakkaðir tómatar
  • 1 bolli sellerý, skorið fínt niður
  • 1 bolli gulrætur, skornar fínt niður
  • 1 bolli fíhakkaður laukur
  • 1 tsk óregano (1 msk ef notað er ferskt)
  • 1 msk basil (1/4 bolli ef notað er ferskt)
  • 4 bollar vatn
  • 2 kjúklingateningar
  • ½ lárviðarlauf
  • 1 bolli parmesan ostur
  • ½ bolli hveiti
  • ½ bolli smjör
  • ½ líter matreiðslurjómi
  • salt og pipar

Bræðið smá smjör eða setjið ólífuolíu í botninn á stórum potti og mýkjið gulrætur, sellerý og lauk við miðlungsháan hita. Bætið tómötum, vatni, kjúklingateningum, oregano, basiliku og lárviðarlaufi í pottinn og látið sjóða í 30 mínútur.

Bræðið smjör við miðlungsháann hita í öðrum potti og hrærið hveitinu saman við. Hrærið stöðugt í blöndunni í 3-5 mínútur. Hrærið varlega 1 bolla af súpunni saman við. Bætið þar á eftir 3 bollum til viðbótar og hrærið þar til blandan er orðin mjúk. Setjið allt aftur í súpuna og hrærið vel í. Blandið matreiðslurjóma, rifnum parmesan, salti og pipar út í og látið suðuna koma upp. Látið sjóða um stund við vægan hita og smakkið til með oregano, basiliku, salti og pipar. Berið súpuna fram með góðu brauði.

6 athugasemdir á “Basiliku og parmesan tómatsúpa

  1. mmm…þessa langar mig að prófa, ég alveg elska góðar tómatsúpur. Má ég spyrja hvaða niðursoðnu tómata þú notar helst og var hýðið ennþá þeim?

  2. Prófaði þessa í gær..hlakka til að bjóða vinkonum uppá hana í kvöld, skellti í Ny brauðið sem verður borið fram með karamellusmjöri og auðvitað verður ein kaka líka með…skellti í súkkulaðikökuna með söltumkaramellu frosting. Get ekki beðið eftir að smakka. Takk fyrir góða og skemmtilega síðu.

Færðu inn athugasemd