Ég furða mig oft á því hvað ég á morgunþreytta fjölskyldu því það virðist sama hvað ég sef lengi um helgar, ég er alltaf fyrst á fætur. Og ég elska það.
Það er eitthvað við það að koma fram í þögnina á morgnana, sjá morgunsólina skína inn um eldhúsgluggann, kveikja á útvarpinu og dunda sér við að gera morgunmat á meðan fjölskyldan sefur. Þegar þau koma fram er ég yfirleitt búin að ná að leggja á borð og við getum sest niður saman.
Þegar ég gerði þessar cheddar- og beikonvöfflur þá var ég svo spennt að smakka þær að ég beið ekki eftir að neinn kæmi fram. Ég réði ekki við mig og áður en ég vissi af var ég búin að borða tvær vöfflur með pönnukökusýrópi án þess að átta mig á því að ég hafði gleymt hrærðu eggjunum sem ég ætlaði að hafa með þeim.
Þegar ég var búin gekk ég frá disknum mínum, lagði hreinan á borðið og lét sem þetta hafði aldrei gerst. Hver ætti svo sem að sjá að það vantaði tvær vöfflur á diskinn? Enginn.
Beikon- og cheddarvöfflur (uppskrift frá Shutterbean)
- 2 bollar hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 1 tsk matarsódi
- ½ tsk salt
- nýmalaður pipar
- 1 bolli rifinn cheddar ostur
- ½ bolli steikt beikonkurl
- 2 stór egg
- 1 ½ bolli mjólk
- 2 msk grænmetisolía (vegetable oil)
- hlynsíróp/pönnukökusíróp til að bera fram með vöfflunum
Hitið vöfflujárn. Hrærið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti. Setjið ost og beikon saman við og blandið vel.
Hrærið saman í annari skál eggjum, mjólk og olíu. Setjið þurrefnin saman við og hrærið þar til allt hefur blandast. Passið að ofhræra ekki deigið.
Setjið feiti á heitt vöffujárnið. Setjið um ½ bolla af deigi á vöffujárnið og bakið í 3-5 mínútur eða þar til vafflan er gyllt á litinn og osturinn er bráðnaður. Endurtakið þar til deigið er búið. Berið vöfflurnar fram heitar með hlynsírópi.
Þúsund þakkir. Þetta verður pottþétt prófað! En hvernig beikonkurl er best, hef ekki keypt svoleiðis í 30 ár 😉
Kv. Hanna
Æ, ég er nú því miður ekkert klár í beikoninu. Hef keypt frá Alí og verið sátt við það 🙂
Gerði þessar í morgunmat í morgunn vegna feðradagsins og vakti mikla lukka hjá öllum í fjölskyldunni 😉