Eins og áður hefur komið fram hér á blogginu hafa börnin séð um kvöldmatinn einu sinni í viku í október og í gær var komið að Jakobi. Að hann valdi að elda núðlusúpu kom engum að óvörum. Það nær engri átt hvað drengurinn getur borðað af núðlusúpum. Helst vill hann fá þær í morgunmat en þar drögum við mörkin.
Það var líf og fjör þegar Jakob tók yfir eldhúsið, rétt eins og við var að búast. Hér er hann búinn að sjóða núðlurnar og byrjaður að raða í skálarnar.
Í pottinum sauð súpan sem var smökkuð til þar til hún þótti „pörfekt“.
Jakob var búinn að útbúa nafnspjöld sem hann setti á eldhúsborðið. Hann borðar ekki kóriander en er þeim mun hrifnari af baunaspírum. Diskurinn hans fékk því tvöfaldan skammt af spírunum og engan kóriander.
Uppskriftin kemur úr sænsku matreiðslubókinni Kärlek, oliver och timjan og var með fyrstu uppskriftunum sem birtust hér á blogginu. Góð vísa er þó sjaldan of oft kveðin og því birti ég hana skammlaust aftur núna.
Núðlusúpa með kjúklingi
- 200 gr eggjanúðlur
- 4 skarlottulaukar
- 100 gr ferskar baunaspírur eða 50 gr ferskt spínat
- 1/2 lime í þunnum sneiðum
- 2 kjúklingabringur
- 1 msk jarðhnetuolía eða önnur olía
- 5 cm bútur af fersku engiferi
- 2 hvítlauksrif
- 1/2 – 1 ferskt rautt chili
- ca 2 msk rautt curry paste
- 4 dl kókosmjólk
- 4 dl vatn
- 1 kjúklingateningur
- 1-2 msk fiskisósa
- ferskt kóriander eða basilika
Takið hýðið af laukunum og skerið hann í þunnar sneiðar. Skolið baunaspírurnar eða spínatið vel. Skolið lime-ið og skerið í mjög þunnar sneiðar. Skrælið engiferið og skerið í örþunnar sneiðar. Takið hýðið af hvítlauknum og skerið í þunnar sneiðar. Fræhreinsið chili og skerið í þunna strimla. Skerið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar. Leggið þetta til hliðar á meðan súpan er undirbúin.
Leggið núðlurnar í pott með sjóðandi vatni og sjóðið þar til þær eru tilbúnar (ca 5 mínútur). Látið renna af núðlunum í sigti og skiptið þeim í 3 skálar. Setjið laukinn, baunaspírurnar eða spínatið og limesneiðarnar ofan á.
Steikið hvítlaukinn í olíu, bætið engiferi og curry paste í pottinn. Það er mikilvægt að láta curry paste-ið hitna það mikið að það sjóði því þá fyrst kemur bragðið fram og það fer að ilma dásamlega í eldhúsinu.
Bætið núna kókosmjólkinni saman við í smáum skömmtum. Hrærið vel á milli þannig að curry paste-ið nái að blandast vel með kókosmjólkinni í hvert skipti. Bætið síðan vatninu út í og kjúklingakraftinum. Látið suðuna koma upp og bragðbætið með fiskisósunni. Leggið kjúklingabitana í og látið sjóða í 5-7 mínútur eða þar til kjúlingabitarnir eru soðnir í gegn. Smakkið súpuna til og bætið ef til vill meiri fiskisósu út í og jafnvel smá sykri.
Bætið súpunni í skálarnar (ofan á núðlurnar, baunaspírurnar og limesneiðarnar) og látið hana standa í 2 mínútur til að brögðin nái að blandast. Skreytið með fersku kóriander eða basiliku og leggið rauðu chilistrimlana yfir.
Ein athugasemd á “Núðlusúpa í boði Jakobs.”