Dásamlegar súkkulaðimöffins með rjómaostakremi

Dásamlegar súkkulaðimöffins með rjómaostakremi

Þá er ný vika tekin við og frábær helgi að baki. Ég lét verða að því að baka möffins með krökkunum og áttum við stórskemmtilega stund saman.

Dásamlegar súkkulaðimöffins með rjómaostakremi

Möffinsin heppnuðust æðislega vel og runnu vel ofan í mannskapinn. Þær voru mjúkar, ríkar af súkkulaðibragði og með góðum vanillukeim. Ég hef alltaf verið svolítið veik fyrir vanillu, hef keypt mér góðar vanillustangir þegar ég hef dottið niður á þær og gert minn eigin vanillusykur. Núna datt ég þó niður á vanillustangir í kvörn sem ég má til með að benda ykkur á. Þær gefa æðislegt vanillubragð og kvörnina er þægilegt að nota.

Dásamlegar súkkulaðimöffins með rjómaostakremi

Það var mikill metnaður lagður í kökuskreytingarnar og mér sýndist ekki minna af skrauti enda í munni bræðrana en á kökunum. Það tilheyrir jú að smakka þegar verið er að baka 🙂

Dásamlegar súkkulaðimöffins með rjómaostakremi

Malín var líka með þó hún hafi ekki verið fest á filmu. Við vorum meðal annars með svo fallegar skrautkúlur frá Dr. Oetker í silfri, gylltu og perluhvítu sem mér þóttu svo jólalegar. Þegar Malín var búin að skreyta möffins með þeim og skrautblómi þótti henni kökurnar vera eins og fallegar skírnarkökur. Ég er alveg sammála henni, þetta væri fallegt að bjóða upp á í skírnarveislu.

Dásamlegar súkkulaðimöffins með rjómaostakremi

Möffinsuppskriftin kemur frá Leilu Lindholm en kremið frá Butter me up, Brooklyn! Þetta er góð blanda sem fer sérlega vel saman og ég hvet ykkur til að prófa.

Dásamlegar súkkulaðimöffins með rjómaostakremi

Möffins:

 • 3 egg
 • 2½ dl sykur
 • 1 tsk vanillusykur (ég tók nokkra hringi með vanillukvörninni)
 • 50 g smjör
 • 1 dl súrmjólk
 • 2 msk kallt kaffi
 • 3½ dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 4 msk kakó
 • smá salt
 • 100 g gott 70% súkkulaði (ég var með suðusúkkulaði)

Hitið ofninn í 175°. Hrærið egg, sykur og vanillusykur þar til blandan verður mjög ljós og létt (tekur nokkrar mínútur með hrærivél). Bræðið smjör og blandið því saman við súrmjólk og kaffi. Hrærið blöndunni saman við eggjaþeytinguna. Blandið hveiti, lyftidufti, kakó og salti saman og hrærið varlega út í deigið. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og hrærið út í deigið.

Setjið möffinsform á ofnplötu og fyllið 2/3 af þeim með deigi. Bakið í miðjum ofni í um 15 mínútur. Látið möffinsin kólna alveg áður en kremið er sett á.

Rjómaostakrem:

 • 1 dós (200 g) Philadelphia rjómaostur, við stofuhita
 • 60 g smjör, við stofuhita
 • 1 tsk vanilludropar
 • Nokkrir hringir með vanillukvörninni (eða fræ úr tæplega ½ vanillustöng)
 • smá salt
 • 3-4 dl flórsykur

Hrærið saman rjómaost, smjör, vanilludropa, vanillufræjum og salti þar til blandan er mjúk og slétt. Hrærið flórsykrinum saman við, 1 dl í einu, og skafið niður með hliðum skálarinnar á milli. Þegar allur flórsykurinn er komin út í þá er hrært aðeins áfram til að kremið verði slétt og gott verði að breiða það á kökurnar.

Dásamlegar súkkulaðimöffins með rjómaostakremi

5 athugasemdir á “Dásamlegar súkkulaðimöffins með rjómaostakremi

 1. hæ æðislega síða hjá þér og yndislegar uppskriftir sem ég nota oft. En ein spurning hvar fékkst þú vanillukvörnina?

 2. Mig langar líka að vita hvar vanillukvörnin fæst :-). Og þessi blóm – eða föndruðuð þið þau kannski sjálf?

 3. Mikið lýtur þetta dásamlega út ! 🙂 Ætla að prófa með krökkunum mínum, það er svo skemmtilegt að gera eitthvað svona saman !

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s