Þessi vika hefur verið ein sú rólegasta í langan tíma og ég hef notið þess að fara beint heim eftir vinnu og eyða því sem eftir er af deginum heima í rólegheitum. Mér þykir svo gott að fá svona daga í algjörri afslöppun. Nú tekur við annasöm og skemmitleg vika með tveimur saumaklúbbum, lakkrísveislu á Kolabrautinni og löngu tímabærri klippingu. Það sem ég hlakka til!
Matseðill vikunnar geymir allt frá ljúffengri fiskuppskrift frá mömmu til himneskrar hnetusmjörsköku sem er í miklu uppáhaldi hjá Ögga. Ef þið hafið ekki smakkað kjúklingaréttinn á föstudeginum þá hvet ég ykkur líka til að prófa hann. Hann vekur alltaf lukku.
Mánudagur: Fiskréttur með blaðlauk og sveppum er frábær mánudagsréttur. Uppskriftina fékk ég frá mömmu og rétturinn er ljúffengur eins og allt sem kemur úr eldhúsinu hennar.
Þriðjudagur: Það á eftir að gleðja krakkana að sjá milljón dollara spaghetti á matseðlinum. Þessi uppskrift var sú vinsælasta á blogginu í fyrra og er sérlega fjölskylduvæn.
Miðvikudagur: Mér þykir þessi mexíkóska kjötsúpa dásamleg og passa vel núna í myrkrinu og kuldanum.
Fimmtudagur: Pasta með púrrulauk og beikoni að hætti Jamie Oliver er svo gott að það er tilhlökkunarefni að vita af því á matseðlinum. Ódýr og einfaldur réttur sem kemur virkulega á óvart.
Föstudagur: Kjúklingur með karamelluhúðaðri papriku í mangó chutney sósu svíkur engan.
Með helgarkaffinu: Himnesk hnetusmjörskaka sem mun ekki standa lengi á borðinu.
Flott hjá þér Svava
Rosalega ertu öflug nafna! Vikumatseðlar bara alveg eins og hjá ICA ;O)