Þá er einn besti dagur vikunnar runninn upp og sólin skín. Mig hefur langað til að baka möffins síðan ég fyllti skápinn af ýmiskonar kökuskrauti um daginn. Að eyða góðum tíma í eldhúsinu með krökkunum og leyfa þeim að skreyta kökurnar að vild. Þrátt fyrir góðviðrið er ég að spá í að láta verða af þessum bakstri í dag en fyrst ætla ég að drífa mig með Ögga í smá göngutúr í þessu fallega veðri.
Við erum komin með æði fyrir heitum karamelluperum sem við njótum með vanilluís. Ég bauð upp á þær sem eftirrétt um síðustu helgi og fengum okkur þær aftur í gærkvöldi. Hér kemur uppskriftin ef ykkur langar að prófa.
Karamelluperur (uppskrift frá Matplatsen)
- 4 perur
- ½ vanillustöng
- 2 msk smjör
- 1 dl sykur
- 1 dl rjómi
Afhýðið perurnar og skerið í báta. Kljúfið vanillustöngina og skafið fræin úr.
Bræðið smjör á pönnu og bætið síðan perum, vanillustöng og vanillufræjum á pönnuna. Stráið sykri yfir. Steikið þar til perurnar hafa fengið fallegan lit og lækkið síðan hitann. Setjið lok á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til perurnar eru nánast mjúkar (suðutíminn er misjafn eftir perum, hjá mér hafa um 15 mínútur dugað). Bætið rjóma á pönnuna og látið sjóða áfram í 5-10 mínútur án loks.
Berið perurnar fram heitar með góðum vanilluís.
Þetta verður pottþétt sunnudagsdesertinn hér á bæ
Góðan dag,
Vinsamlega takið mig af póstlistanum.
Kv. áh