Sebrakaka

SebrakakaÞað er orðið langt síðan ég gaf uppskrift af köku sem er hálf furðulegt því ég eeeeeeelska kökur. Að bjóða upp á nýbakað með kvöldkaffinu þykir mér með því notalegasta sem ég veit og að eiga heimabakaða köku á eldhúsborðinu um helgar er alltaf jafn gott.
Sebrakaka

Um daginn bakaði ég köku sem okkur þótti öllum góð. Nú man ég ómöglega hvaðan uppskriftin kom en finn kannski út úr því þegar fram líður og skal þá setja það inn. Þessi fer mjög vel með helgarkaffinu og mun eflaust ekki staldra lengi við.

Sebrakaka

Sebrakaka

 • 4 egg
 • 2  ½ dl sykur
 • 2 ½ dl mjólk
 • 250 g smjör, brætt
 • 1 msk vanillusykur
 • 1 msk lyftiduft
 • smá salt
 • 5 dl hveiti

Fyrir dökka deigið:

 • 3 msk kakó

Fyrir ljósa deigið:

 • 3 msk hveiti

Hitið ofninn í 180° og smyrjið 24 cm hringlaga kökuform.

Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er ljós og létt. Bætið mjólk, smjöri, vanillusykri, lyftidufti, salti og hveiti saman við og hrærið þar til blandan er slétt og kekkjalaus. Setjið 5-6 dl af deiginu í aðra skál og hrærið kakói saman við. Hrærið 3 msk af hveiti saman við ljósa deigið.

Setjið um  ½ dl af ljósa deiginu í miðjuna á bökunarforminu. Setjið síðan um  ½ dl af dökka deiginu í miðjuna á ljósa deiginu í forminu. Við þetta rennur ljósa deigið út, nær köntunum. Haldið áfram að setja dökka og ljósa deigið til skiptis á þennan máta í formið og reynið að enda á ljósa deiginu.

sebrakaka sebrakaka sebrakaka

Bakið kökuna neðarlega í ofninum í 45-55 mínútur.

5 athugasemdir á “Sebrakaka

 1. Frábær síða hjá þér, takk fyrir mig! 🙂 Mig minnir að ég hafi séð þessa köku í matreiðsluþætti hjá henni Lorraine Pascale á einhverri BBC stöðinni 😉

 2. Amma mín bakaði oft svona svipaða og var hún kölluð marmaraterta 🙂

  Annars takk fyrir frábæra síðu… nánast helmingurinn af uppáhalds uppskriftum heimilisins koma upphaflega frá þér!

 3. sæl þegar þú segir hræra ertu þá að tala um K-ið á vélina eða þeyttarann?? egg og sykur verður ekki létt og ljóst við að nota K-ið?

  1. Ég nota nánast alltaf k-ið þegar ég baka (nota þeytarann aðallega í marange og til að þeyta rjóma). Egg og sykur verður létt og ljóst, bara hafa góðan hraða og smá þolinmæði. Annars er hægt að nota þeytarann í þetta til að flýta fyrir en ég sleppi því til að spara uppvaskið!

   Sent from my iPhone

   >

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s