Nú er löng helgi framundan og eflaust einhverjir farnir að huga að matseðli helgarinnar. Um daginn eldaði ég nautachillirétt sem okkur þótti æðislegur og ég má því til með að stinga upp á honum sem helgarmatnum. Rétturinn þarf sinn tíma á pönnunni og því upplagt að nýta frídag í eldamennskuna. Þetta er kjörinn réttur fyrir saumaklúbbinn eða matarboð því hann verður bara betri eftir að hafa staðið í ísskáp í nokkra daga. Mér þykir oft þægilegt að geta unnið á undan mér þegar ég á von á gestum.
Ég bar réttinn fram með tortillum, guacamole (ég kaupi tilbúið ferskt guacamole í Hagkaup), sýrðum rjóma, pækluðum rauðlauk og nachos. Ekki skemmir fyrir að bjóða upp á kaldan Corona bjór með. Súpergott!
Hægeldað nautachilli
- 1,2 kg nautakjöt
- 1 tsk salt
- 150 g beikon
- 2-3 msk ólívuolía
- 1 laukur, fínhakkaður
- 2 chili, fínhökkuð
- 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
- 400 g hakkaðir tómatar í dós (1 dós)
- 1 msk limesafi
- 4 dl vatn
- 1 msk maizenamjöl + vatn
- salt og pipar
Kryddblanda
- 1 msk chilikrydd
- 2 tsk cumin
- 1 tsk oreganó
- 0,5 dl vatn
Skerið mestu fituna af nautakjötinu og skerið kjötið síðan í 3 cm þykka bita. Saltið með 1 tsk af salti og blandið saman í skál. Leggið til hliðar.
Blandið kryddum í kryddblöndunni saman og leggið til hliðar.
Steikið beikonið á djúpri pönnu á miðlungsháum hita þar til það verður stökkt. Takið beikonið af pönnunni og leggið til hliðar. Setjið beikonsteikingarfituna í skál og geymið.
Steikið kjötið í skömmtum í blöndu af beikonsteikingarfitu og ólívuolíu. Steikið þar á eftir fínhakkaðan laukinn. Bætið hökkuðu chili og hvítlauk á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur til viðbótar. Bætið þá kryddblöndunni á pönnuna og steikið áfram í nokkrar mínútur.
Bætið nautakjöti, hökkuðum tómötum, limesafa og vatni á pönnuna. Setjið lok yfir og látið chiliréttinn sjóða við vægan hita í 2 klukkustundir. Bætið beikoni saman við undir lokin og látið sjóða með síðustu 5 mínúturnar. Blandið maizenamjöli og smá vatni saman í skál og hrærið saman við chiliréttinn. Látið sjóða aðeins áfram, rétturinn mun þykkna við þetta. Smakkið til með salti og pipar. Berið strax fram eða látið réttinn standa í ísskáp í 2-3 daga – hann verður bara betri við það!
Hvaða stikki úr nautinu finnst þér best að nota í þennan rétt