Hér heima hefur jólatónlistin hljómað, allt er hvítt úti og við vorum að enda við að borða svo góðan mat. Jólamánuðurinn er að ganga ljúflega í garð, með hvítri jörð og notalegheitum. Mér þykir svo notalegt að láta jólalögin hljóma í desember og má til með að benda ykkur á yndislega jólaplötu, She & Him Christmas Song. Plötuna má finna í heild sinni á Spotify. Önnur jólaplata sem ég hlusta mikið á heitir Winterland Sú plata hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan hún kom út árið 2010 og má sömuleiðis finna á Spotify.
En að máli málanna, ég veit ekki hversu oft ég hef eldað þennan pastarétt því það er svo fljótlegt að gera hann og við fáum ekki leið á honum. Þetta er sannkallaður veislumatur sem maður reiðir fram á korteri. Ég ber pastað oftast fram með snittubrauði og pestói. Í kvöld prófuðum við nýtt pestó, Fiery chilli pestó frá SACLA og vorum stórhrifin af því. Bragðmikið og bragðgott! Ég ætla að nýta það sem eftir er af krukkunni næst þegar við verðum með ostabakka. Ég sem ætlaði að reyna að borða minna af brauðmeti gat ekki hamið mig og vil ekki vita hvað ég fékk mér margar sneiðar af brauðinu með pestói… ég hef engan sjálfsaga þegar kemur að svona góðgæti.
Ítölsk pastasósa
- 1 grillaður kjúklingur (snjallt að kaupa hann tilbúinn)
- 1 krukka sólþurrkaðir tómatar frá SACLA
- 70 g spínat
- 2 hvítlauksrif
- 3 dl rjómi
- salt, pipar og paprikukrydd
- furuhnetur (yfir réttinn, má sleppa)
- parmesan (yfir réttinn, má sleppa)
Skerið kjúklinginn í bita og hakkið bæði sólþurrkuðu tómatana og hvítlauksrifin. Hitið olíu (t.d. olíuna af tómötunum) eða smjör á pönnu og setjið sólþurrkuðu tómatana, hvítlaukinn, kjúklinginn og spínatið á pönnuna. Steikið saman um stund og hellið síðan rjómanum yfir og látið sjóða í 5-10 mínútur. Smakkið til með salti, pipar og paprikukryddi.
Ristið furuhnetur og sjóðið pasta, og berið fram með pastasósunni. Berið strax fram, með parmesan og svörtum pipar í kvörn.
Er í lagi að nota frosið spínat í þessa girnilegu uppskrift?