McDonalds möffins með Dumle

Mc´Donalds möffins með Dumle
Ég hef í fleiri mánuði ætlað mér að fara yfir myndinar á flakkaranum mínum. Þær eru svo margar og nánast bara af mat, hálf glatað eitthvað. Ég verð að verða duglegri að taka myndir af daglega lífinu og krökkunum. Í gærkvöldi voru strákarnir að læra undir próf svo ég ákvað að nýta tækifærið og hefjast handa við að hreinsa út af diskinum. Það gekk nú ekki betur en svo að ég eyddi ekki einni einustu mynd út því ég rak strax augun í þessar möffins sem mig langaði að baka. Ég hélt að uppskriftin hefði farið á bloggið á sínum tíma en eftir að hafa leitað að færslunni í dágóða stund varð ég að játa mig sigraða. Annað hvort er færslan gjörsamlega týnd og tröllum gefin, eða að hún fór hreinlega aldrei inn.
Mc´Donalds möffins með Dumle
Ég ákvað því að koma færslunni inn því möffinsin voru svakalega góð en þá tók næsta vandamál við. Ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvar ég hefði fengið uppskriftina. Ég fór í gegnum Pinterest, bookmarks í tölvunni hjá mér og byrjaði að fletta í gegnum uppskriftamöppur þegar þetta loksins rifjaðist upp fyrir mér. Þetta kennir mér að setja uppskriftirnar strax inn á bloggið, því annars er hætta á að ég finni þær ekki aftur.
Mc´Donalds möffins með Dumle
Þar sem kvöldið fór að mestu leiti í að leita að uppskriftinni varð ekkert úr bakstrinum hjá mér en uppskriftinni ætla ég að koma örugglega fyrir hér á blogginu svo ég geti gengið að henni vísri næst þegar löngunin grípur mig. Þessi möffins eru nefnilega fullkomin! Á Svíþjóðarárum mínum var ég fastakúnni á McDonalds og ég hefði nú getað sparað mér ansi margar ferðir þangað hefði ég átt þessa uppskrift þá. Vinkonur mínar eru enn að hlægja af því þegar afgreiðslukonan í bílalúgunni á McDonalds staðnum mínum benti mér vingjarnlega á að þeir seldu líka jógúrt. Þetta er að eflaust ekki uppskriftin frá McDonalds en með tveimur tegundum af súkkulaði OG Dumle karamellum (sem er ekki í möffinsinu þar) gefa þær þeim ekkert eftir!
McDonalds möffins með Dumle (uppskriftin gefur 12 stór möffins) – uppskrift úr Veckorevyn
 • 130 g brætt smjör
 • 2 dl sykur
 • 2 egg
 • 2 tsk vanillusykur
 • 5 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • smá salt
 • 1 ½ dl kakó
 • 1 ¾ dl súrmjólk
 • 75 g grófhakkað dökkt súkkulaði
 • 75 g grófhakkað rjómasúkkulaði
 • 20 Dumle karamellur, grófhakkaðar

Hitið ofninn í 200° og raðið 12 möffinsformum á ofnplötu (best er þó að setja þau í möffinskökuform sé það til).

Blandið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda, vanillusykri, kakói og salti í skál.

Hrærið brædda smjörið, súrmjólk, sykur og egg saman í annari skál. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið saman í slétt deig. Hrærið ¾ af hakkaða súkkulaðinu og helmingnum af Dumle karamellunum í deigið. Setjið deigið í möffinsformin og stráið því sem eftir var af súkkulaðinu og Dumle karamellunum yfir. Bakið í miðjum ofni í 15-18 mínútur.

Ein athugasemd á “McDonalds möffins með Dumle

Færðu inn athugasemd við Halla Björk Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s