Um síðustu helgi bakaði ég köku til að hafa með kaffinu hér heima. Ég bakaði súkkulaðiköku sem við gæddum okkur á alla helgina. Kakan var dásamlega mjúk, með smá kaffikeim og örlítið blaut í sér. Kremið var hvergi sparað og úr varð súkkulaðibomba sem var erfitt að láta í friði.
Núna um helgina, þegar jólaundirbúningurinn fer af stað, þykir mér ósköp huggulegt að vera með köku á eldhúsbekknum til að geta nælt mér í sneið og sneið á milli þess sem aðventuljósunum er stungið í samband og kerti verða sett í aðventukransinn. Það er bara svo notalegt, rétt eins og desembermánuður á að vera. Með jólatónlist í hátölurum, jólaljós í gluggunum og bökunarlykt í húsinu.
Mjúk súkkulaðikaka með kaffikeim og mjúku súkkulaðikremi
Botnar:
- 2 bollar sykur (450 g)
- 1 ¾ bollar hveiti (200 g)
- ¾ bolli kakó (75 g)
- 1 ½ tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 2 egg
- 1 bolli mjólk
- ½ bolli bragðdauf olía
- 2 tsk vanilludropar
- 1 bolli sjóðandi heitt kaffi
Krem:
- 115 g smjör
- 2/3 bolli kakó (70 g)
- 3 bollar flórsykur (450 g)
- 1/3 bolli mjólk
- 1 tsk vanilludropar
Hitið ofninn í 175° og smyrjið tvö 22 cm bökunarform með lausum botni.
Setjið öll þurrefnin í skál. Bætið mjólk, olíu og vanilludropum saman við og hrærið þar til hráefnin hafa blandast vel. Bætið heitu kaffi saman við og hrærið þar til deigið er orðið slétt. Skiptið deiginu jafnt í formin og bakið í 30-35 mínútur. Látið botnana kólna alveg áður en kremið er sett á.
Krem:
Bræðið smjör í potti og hrærið kakó saman við þar til blandan er slétt. Hellið súkkulaði- og smjörblöndunni yfir í skál og bætið vanilludropum og flórsykri saman við. Hrærið að lokum mjólkinni saman við í smáum skömmtum þar til réttri áferð er náð.
Bíst við að egginn eigi að fara saman við um leið og mjólk,olía og dropar.