Sumarið virðist ekki að dekra við okkur með veðurblíðu í ár og ég verð að viðurkenna að mér þykir ágætt að vera ekki komin í sumarfrí. Þessa dagana snýst lífið aðallega um að vinna, skulta og sækja á æfingar og horfa á The Good Wife á Netflix á kvöldin (ef einhver hefur ekki séð þættina þá mæli ég hiklaust með þeim – svo góðir!). Síðan borðum við gott á hverju kvöldi, eins og þessa tortilluköku sem var stórkostlega góð. Ég bar hana fram með guacamole, sýrðum rjóma, ostasósu, salsa, nachos og salati. Þvílík veisla!
Tortillakaka (uppskrift fyrir 4-6)
- 1 pakkning með 8 tortillum (medium stærð)
- 500 g nautahakk
- 1 poki tacokrydd
- 100 g rjómaostur (mér finnst gott að nota philadelphia rjómaostinn)
- 1 dl rjómi
- 150 g maísbaunir
- 1/2 krukka chunky salsa
- salt og pipar
- um 300 g rifinn ostur
Steikið nautahakkið og kryddið með tacokryddinu. Hrærið rjómaosti, rjóma, salsa og maísbaunum saman við og smakkið til með salti og pipar.
Smyrjið smelluform (hægt að sleppa því og raða tortillakökunum beint á ofnplötu) og setjið tvær tortillakökur í botninn á forminu. Setjið 1/3 af fyllingunni yfir og smá rifinn ost. Setjið tvær tortillur yfir og endurtakið (þannig að það verði 3 lög af fyllingu). Endið með tortillaköku efst og stráið restinni af ostinum yfir. Setjið í 200° heitann ofn í 20-25 mínútur.
Mjög góð 🙂
Gaman að heyra 🙂