Það hefur verið í ýmsu að snúast upp á síðkastið því fyrir utan bloggið hef ég verið að gefa uppskriftir í MAN magasín og um helgina vann ég sem matarstílisti, bæði við myndatöku fyrir auglýsingu og við upptöku á sjónvarpsauglýsingu. Ótrúlega skemmtileg verkefni sem hafa komið til mín þökk sé blogginu. Þakklæti mitt liggur hjá ykkur sem lítið hingað inn því hvað væri bloggið án ykkar!
Í fyrsta tölublaði MAN magasín gaf ég uppskrift af heimagerðu snickers sem ég held að verði seint toppað. Í hinum fullkomna heimi væri þetta snickers alltaf til hér heima og enginn myndi borða það frá mér. Ég hef grínlaust útbúið það og falið bak við kartöflupokann í neðstu skúffunni í ísskápnum hér heima því ég tími ekki að gefa með mér af því. Það er ólýsanleg tilfinning að vita af snickersinu liggjandi þar og geta fengið mér bita af góðgætinu þegar enginn sér til.
Snickers
- 150 g mjólkursúkkulaði eða rjómasúkkulaði
- 150 g suðusúkkulaði
- 200 g sykurpúðar (marshmellows)
- 100 g smjör
- 2 msk hnetusmjör
- 100 g salthnetur
- 400 g rjómakaramellur eða kúlur
- 2 msk mjólk
Bræðið súkkulaðið (bæði mjólkur- og suðusúkkulaði) saman yfir vatnsbaði. Klæðið form í stærðinni 21 x 15 sm með bökunarpappír. Setjið um helming af súkkulaðiblöndunni í botninn á forminu og setjið formið að því loknu í frysti.
Bræðið sykurpúða með smjöri og hnetusmjöri í potti. Þegar blandan hefur bráðnað saman er salthnetum hrært saman við. Takið súkkulaðið úr frystinum og hellið sykurpúðablöndunni yfir. Setjið formið aftur í frysti.
Bræðið karamellurnar (eða kúlurnar) með mjólkinni í litlum potti. Blandan á bara að verða fljótandi. Takið formið aftur úr frystinum og hellið karamellunni yfir sykurpúðablönduna. Setjið formið aftur í frysti.
Ef súkkulaðið er byrjað að storkna þá er það brætt aftur. Hellið súkkulaðinu yfir karamelluna þegar hún hefur tekið að harðna. Látið snickersið standa í ískáp í að minnsa kosti klukkustund. Skerið kanntana af og skerið það síðan niður í passlega stórar snickersstangir eða snickersbita.










