Sörur

Sörur

Mér þykja sörurnar vera ómissandi á aðventunni, rétt eins og saffransnúðarnir, og það kæmi ekki til greina að láta aðventuna líða án þeirra. Það jafnast ekkert á við að setjast niður með krökkunum eftir vinnu með heitan saffransnúð og á kvöldin með Ögga og sörurboxinu. Þetta er desemberdekur sem er mér kært og ég mun halda í.

Það tók mig þó nokkurn tíma að finna góða uppskrift að sörum og þegar mér fannst ég vera komin með réttu uppskriftina þá skrifaði ég hana inn í eina af uppskriftarbókum mínum og kallaði þær Svövur. Það var gert í gríni en nafnið hefur haldist við þær hér á bæ, mér til mikils heiðurs. Ég á þó ekkert í uppskriftinni heldur einfaldlega valdi hana úr hópi uppskrifta sem ég hafði sankað að mér.

Sörur

Ég veit að þetta eru ekki fljótbökuðustu smákökurnar en tíminn sem fer í þær er hverrar mínútu virði og vel það. Ég hef lagt það í vana minn að baka botnana deginum áður en ég set kremið og hjúpinn á. Fljótlegast er að setja kremið í sprautupoka og sprauta því beint á botnana og fallegastar verða þær með því að nota teskeið til að dreifa úr kreminu þannig að það sé þykkast í miðjunni og þynnist út að köntunum. Ég vil hafa sörurnar þannig að kremið í miðjunni sé ekki þynnra en botninn. Síðan nota ég Nóa-Síríus súkkulaði til að hjúpa þær með því mér þykir það svo gott. Það má þó vel nota hvaða súkkulaði sem er, t.d. bragðbætt súkkulaði eins og appelsínusúkkulaði.

Sörur

  • 200 g möndlur
  • 180 g flórsykur
  • 3 eggjahvítur
  • salt á hnífsoddi

Hitið ofninn í 180°. Malið möndlurnar fínt í matvinnsluvél og blandið flórsykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar með saltinu þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að hvíturnar renni úr. Blandið möndlunum og flórsykrinum varlega saman við með sleikju. Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeiðar og setjið á bökunarpappír. Bakið í ca 12 mínútur.

Sörur

Krem

  • 5-6 msk sýróp (velgt)
  • 6 eggjarauður
  • 300 g smjör
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk kaffiduft (instant kaffi sem ég myl fínt í mortéli)

Velgjið sýrópið. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær eru orðnar kremgular og þykkar. Hellið sýrópinu þá í mjórri bunu saman við og þeytið á meðan. Síðan er mjúku smjöri bætt í og þeytt á meðan. Bætið kakó og kaffi út í og hrærið vel saman. Látið kremið kólna í ísskáp í 1-2 klst. áður en það er sett á kökurnar.

Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því á sörubotnana. Notið skeið til að slétta úr kreminu þannig að það þynnist við kanntana. Kælið kökurnar vel, helst í frysti, áður en þær eru hjúpaðar.

Sörur

Hjúpur

  • 400 g suðusúkkulaði

Sörur

Skerið súkkulaðið í bita og bræðið yfir vatnsbaði. Látið kólna aðeins áður en kremhlutanum á sörunum er dýft ofan í.

Karamellutoppar

Karamellutoppar

Mér þykir desember án nokkurs vafa vera besti mánuður ársins og fæ alltaf fiðring í magann þegar hann loksins rennur upp. Núna get ég byrjað að skreyta heimilið, klárað jólakortin, hlustað á jólatónlistina og byrjað jólabaksturinn. Ég tók reyndar forskot á smákökubaksturinn þegar ég gerði jólaþáttinn fyrir jólablað Morgunblaðsins en þær kökur eru allar löngu búnar. Það breytir engu því ég er með fullt af spennandi uppskriftum og hugmyndum sem ég hlakka til að prófa mig áfram með. Það er þó ekki alveg kökulaust á heimilinu því ég kom með eitt og annað góðgæti heim af Jóla-Galdra námskeiðinu.

Karamellutoppar

Fimmtudagskvöldið var góð upphitun fyrir jólin og kvöldið var jafn dásamlegt og ég átti von á. Ég mæli svo heilshugar með námskeiðunum hjá Salt Eldhúsi því þau eru svo mikið meira en bara matreiðslunámskeið. Stemmningin sem er á þeim gefur notalega kvöldstund í fallegu umhverfi sem er lærdómsrík en umfram allt skemmtileg. Ég fór á námskeiðið í frábærum félagsskap og birti hér myndir af hópnum í algjöru leyfisleysi. Þið skuluð því skoða myndirnar vel áður en ég fæ símhringingu um að taka þær út.

Karamellutoppar

Við gerðum sitt lítið af hverju á námskeiðinu og ég kom heim með sörur, smákökur, konfekt, rauðkál, paté, chutney og sítrónusmjör. Þar að auki kom ég með allar uppskriftirnar af því sem við gerðum og höfuðið stútfullt af hugmyndum.

KaramellutopparÉg lofaði yndislegustu 10 ára stelpu í heimi að láta uppskriftina að karamellutoppunum á bloggið og það síðasta sem ég vil gera er að svíkja hana. Hún er besta vinkona strákanna og saman tókst þeim að klára heila uppskrift af karamellutoppunum á einum degi. Þau gáfu þeim bestu mögulegu einkunn og núna er beðið eftir að ég baki fleiri.  Ég varð mjög glöð því þessir toppar voru tilraunastarfsemi hjá mér. Hér kemur uppskriftin fyrir Andreu og aðra sem langar að prófa.

Karamellutoppar

  • 3 eggjahvítur
  • 200 g ljós púðursykur
  • 150 g karamellu kurl (frá Nóa Síríusi)
  • 150 g rjómasúkkulaði með hrískúlum

Stífþeytið eggjahvíturnar og púðursykurinn. Skerið súkkulaðið í smáa bita og hrærið saman við eggjablönduna ásamt karamellukurlinu.

Myndið litla toppa með teskeiðum og bakið við 150°í ca 15 mínútur.