Banana-Dumle súkkulaðimús

Ég hef sagt frá því áður hér á blogginu að ég er búin að vera með algjört æði fyrir banana Dumle karamellunum sem hafa fengist síðan í sumar. Ég vil ekki vita hvað ég hef keypt marga poka af þeim og þeir eru alltaf fljótir að tæmast hér heima.

Ég bakaði kökulengjur úr karamellunum um daginn sem ég borðaði beint af ofnplötunni því þær voru gjörsamlega ómótstæðilegar. Síðan prófaði ég að gera súkkulaðimús úr þeim við ekki minni vinsældir. Þetta er einfaldasta súkkulaðimús sem hægt er að gera (hér er hún með hefðbundum Dumle karamellum) en það er þó best að bræða karamellurnar kvöldið áður svo blandan sé orðin vel köld þegar hún er þeytt upp. Ég setti banana og Daimkurl yfir músina sem kom mjög vel út en ég hugsa að það gæti líka komið vel út að skipta Daimkurlinu út fyrir hakkað súkkulaði. Þetta verðið þið að prófa!

Banana-Dumle súkkulaðimús

 • 1 poki banana-Dumle karamellur
 • 3 dl rjómi
 • Daimkurl og bananar sem skraut (má sleppa)

Skerið Dumle-karamellurnar í bita og leggið í skál. Hitið rjómann í potti að suðu og hellið yfir karamellurnar. Hrærið í blöndunni þar til karamellurnar hafa bráðnað og blandan er orðin slétt. Geymið í ísskáp yfir nóttu.

Takið karamellurjómann úr ísskápnum og hrærið í hrærivél þar til óskaðri áferð er náð. Setjið í skálar og skreytið með bönunum og Daimkurli.

Súkkulaðimúsin hennar mömmu

Súkkulaðimúsin hennar mömmu

Ég hef oft talað um hvað mér þykir mamma vera klár í eldhúsinu og að það liggi alltaf spennandi matreiðslublöð og -bækur á borðinu hjá henni. Það er óhætt að segja að hún sé dugleg að prófa nýjungar en þessa súkkulaðimús hefur hún þó þurft að gera svo oft að hún er fyrir löngu farin að gera hana blindandi og þykir ekki mikið mál að útbúa þegar hún á von á krökkunum til sín.

Krakkarnir elska þessa súkkulaðimús og óska eftir henni við hvert tækifæri sem gefst. Um daginn tók ég mynd af súkkulaðimúsinni þegar við vorum í mat hjá mömmu og skrifaði uppskriftina hjá mér.  Mér þykir því kjörið að birta hana fyrir þá sem vilja prófa. Ég held að uppskriftin sé upprunalega dönsk þó hún gæti hafa tekið einhverjum breytingum hjá mömmu.

Súkkulaðimúsin hennar mömmu

 • 250 g dökkt súkkulaði
 • 3 egg
 • 60 g sykur
 • 4-5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið aðeins. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Þeytið rjómann.

Hrærið súkkulaðinu saman við eggjablönduna og blandið svo þeytta rjómanum varlega saman við með sleif. Kælið í ískáp í 3 klst áður en borið fram.

Einföld súkkulaðimús með karamelluhúðuðum hnetumulningi

Súkkulaðimús með hnetumulningi

Ég veit að það hefur verið mikið um sætindi hér á síðunni upp á síðkastið en ég hreinlega ræð ekki við mig. Desember er sá mánuður sem ég vil hafa skápana fulla af freistingum og þær eiga huga minn allan.

Þessi súkkulaðimús er í algjöru uppáhaldi hjá okkur og krakkarnir vita fátt betra. Þegar ég býð upp á hana þá eru skálarnar sleiktar og ekkert skilið eftir. Það er mjög einfalt að útbúa hana en þó þýðir lítið að ætla að henda í hana í einhverju fáti þar sem súkkulaðiblandan þarf að kólna vel áður en hægt er að þeyta hana upp.

Súkkulaðimús með hnetumulningi

Því verður ekki neitað að þessi súkkulaðimús er vel sæt og því þykir mér hnetukurlið fara vel með henni. Það væri líka sniðugt að nota hana sem fyllingu í tertu og þá jafnvel með jarðaberjum eða hindberjum.

Einföld súkkulaðimús með karamelluhúðuðum hnetumulningi

 • 1 poki Dumle-karamellur
 • 3 dl rjómi

Karamelluhúðaðar hnetur

 • 4 msk sykur
 • 2 msk smjör
 • 2 dl blandaðar hnetur (t.d. heslihnetur, pekanhnetur og möndlur)

súkkulaðimús með hnetumulningi

Skerið Dumle-karamellurnar í bita og leggið í skál. Hitið rjómann í potti að suðu og hellið yfir karamellurnar. Hrærið í blöndunni þar til karamellurnar hafa bráðnað og blandan er orðin slétt. Geymið í ískáp yfir nóttu.

Setjið sykur, smjör og hnetur á miðlungsheita pönnu. Hrærið annað slagið varlega í blöndunni. Þegar sykurinn er bráðnaður og byrjaður að brúnast er blöndunni hellt á bökunarpappír og látin kólna. Þegar hnetublandan hefur kólnað er hún grófhökkuð með hníf.

Takið karamellurjómann úr ískápnum og hrærið í hrærivél þar til óskaðri áferð er náð. Setjið í skálar og stráið hnetumulingnum yfir.