After Eight súkkulaðimús

Ég hef varla verið heima undanfarnar vikur og hef því lítið náð að dunda mér í eldhúsinu. Það styttist þó í að það fari að róast hjá mér og þegar það gerist verður vonandi meira líf hér á blogginu því ég með langan lista af uppskriftum sem mig langar að prófa.

Þangað til nýt ég góðs af uppskriftum sem eiga eftir að fara hingað inn, eins og þessi súkkulaðimús. Þeir sem lesa hér reglulega vita eflaust að súkkulaðimús er sá eftirréttur sem ég geri hvað oftast því börnin mín vita fátt betra. Um daginn breytti ég út af vananum og bætti After Eight í súkkulaðimúsina. Útkoman var æðisleg!

After Eight súkkulaðimús ( uppskrift fyrir 6)

  • 100 g suðusúkkulaði
  • 15 plötur After Eight
  • 3 eggjarauður
  • 5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).

Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.

Setjið súkkulaðimúsina í skálar og látið standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma.

 

Súkkulaðimús

Súkkulaðimús

Fyrir helgi lét ég verða af því að kaupa mér nýjar eftirréttaskálar. Fyrir valinu urðu Ultima Thule skálarnar frá iittala, ein stór og átta litlar. Mér þykja þær æðislegar! Passlega stórar og fallegar á borði.

Súkkulaðimús

Þar sem spánýjar skálar voru komnar í hús þótti mér tilvalið að bjóða upp á eftirrétt í gærkvöldi. Einfaldasta, fljótlegasta og besta eftirréttinn að mati krakkanna, súkkulaðimús. Með ferskum berjum og jafnvel smá léttþeyttum rjóma er erfitt að standast hana. Mums!

Súkkulaðimús

Súkkulaðimús (fyrir 4)

  • 100 g súkkulaði (gjarnan 50 g rjómasúkkulaði og 50 g suðusúkkulaði)
  • 2 eggjarauður
  • 2,5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).

Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.

Setjið súkkulaðimúsina í 4 skálar og látið standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma.

Tobleronemús

Tobleronemús

Ég hef eytt síðustu dögum í að kynna mér menntaskólana með Malínu. Mér þykir svo ótrúlegt að það sé komið að þessu og langar allra mest til að stöðva tímann. Hún ákvað að heimsækja skólana sem koma til greina áður en hún tekur lokaákvörðun og ég reyni hvað ég get að sitja á skoðunum mínum og hafa sem minnst áhrif á hana. Það er jú hún sem ætlar að eyða næstu árum á skólabekk, ekki ég. Ég nýt þess þó að taka þátt í þessu með henni, að skoða skólana og heyra hvað henni finnst. Hún hefur alltaf haft sterkar skoðanir og verið skynsöm, ég hef því engar áhyggjur yfir að hún velji annað en rétt.

Tobleronemús

Mér datt í hug að setja inn uppskrift af æðislegri súkkulaðimús sem gæti verið sniðugt að bjóða upp á um helgina. Ég gaf uppskriftina í nýjasta tölublaði MAN magasín. Ég veit ekki hvort ég hafi sagt frá því áður en ég hef gefið uppskriftir í MAN frá upphafi og ef þið hafið ekki skoðað blaðið hvet ég ykkur til þess því það er æðislegt. Ég verð alltaf jafn glöð þegar ég kem heim og nýtt tölublað bíður mín.

Tobleronemús

Tobleronamús

  • 100 g Toblerone
  • 100 g dökkt Toblerone eða suðusúkkulaði
  • 4 eggjarauður
  • 5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Látið það kólna örlítið og hrærið síðan eggjarauðum saman við þar til blandan er slétt. Léttþeytið rjómann og hrærið honum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum. Setjið í skálar og látið standa í ísskáp þar til Tobleronemúsin hefur stífnað.

Súkkulaðimúsin hennar mömmu

Súkkulaðimúsin hennar mömmu

Ég hef oft talað um hvað mér þykir mamma vera klár í eldhúsinu og að það liggi alltaf spennandi matreiðslublöð og -bækur á borðinu hjá henni. Það er óhætt að segja að hún sé dugleg að prófa nýjungar en þessa súkkulaðimús hefur hún þó þurft að gera svo oft að hún er fyrir löngu farin að gera hana blindandi og þykir ekki mikið mál að útbúa þegar hún á von á krökkunum til sín.

Krakkarnir elska þessa súkkulaðimús og óska eftir henni við hvert tækifæri sem gefst. Um daginn tók ég mynd af súkkulaðimúsinni þegar við vorum í mat hjá mömmu og skrifaði uppskriftina hjá mér.  Mér þykir því kjörið að birta hana fyrir þá sem vilja prófa. Ég held að uppskriftin sé upprunalega dönsk þó hún gæti hafa tekið einhverjum breytingum hjá mömmu.

Súkkulaðimúsin hennar mömmu

  • 250 g dökkt súkkulaði
  • 3 egg
  • 60 g sykur
  • 4-5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið aðeins. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Þeytið rjómann.

Hrærið súkkulaðinu saman við eggjablönduna og blandið svo þeytta rjómanum varlega saman við með sleif. Kælið í ískáp í 3 klst áður en borið fram.

Einföld súkkulaðimús með karamelluhúðuðum hnetumulningi

Súkkulaðimús með hnetumulningi

Ég veit að það hefur verið mikið um sætindi hér á síðunni upp á síðkastið en ég hreinlega ræð ekki við mig. Desember er sá mánuður sem ég vil hafa skápana fulla af freistingum og þær eiga huga minn allan.

Þessi súkkulaðimús er í algjöru uppáhaldi hjá okkur og krakkarnir vita fátt betra. Þegar ég býð upp á hana þá eru skálarnar sleiktar og ekkert skilið eftir. Það er mjög einfalt að útbúa hana en þó þýðir lítið að ætla að henda í hana í einhverju fáti þar sem súkkulaðiblandan þarf að kólna vel áður en hægt er að þeyta hana upp.

Súkkulaðimús með hnetumulningi

Því verður ekki neitað að þessi súkkulaðimús er vel sæt og því þykir mér hnetukurlið fara vel með henni. Það væri líka sniðugt að nota hana sem fyllingu í tertu og þá jafnvel með jarðaberjum eða hindberjum.

Einföld súkkulaðimús með karamelluhúðuðum hnetumulningi

  • 1 poki Dumle-karamellur
  • 3 dl rjómi

Karamelluhúðaðar hnetur

  • 4 msk sykur
  • 2 msk smjör
  • 2 dl blandaðar hnetur (t.d. heslihnetur, pekanhnetur og möndlur)

súkkulaðimús með hnetumulningi

Skerið Dumle-karamellurnar í bita og leggið í skál. Hitið rjómann í potti að suðu og hellið yfir karamellurnar. Hrærið í blöndunni þar til karamellurnar hafa bráðnað og blandan er orðin slétt. Geymið í ískáp yfir nóttu.

Setjið sykur, smjör og hnetur á miðlungsheita pönnu. Hrærið annað slagið varlega í blöndunni. Þegar sykurinn er bráðnaður og byrjaður að brúnast er blöndunni hellt á bökunarpappír og látin kólna. Þegar hnetublandan hefur kólnað er hún grófhökkuð með hníf.

Takið karamellurjómann úr ískápnum og hrærið í hrærivél þar til óskaðri áferð er náð. Setjið í skálar og stráið hnetumulingnum yfir.