Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Í dag var fyrsti vinnudagurinn minn eftir sumarfrí og lífið því dottið aftur í sína eðlilegu rútínu. Eins og mér þykir æðislegt að vera í fríi þá finnst mér alltaf jafn gaman þegar allt hefst að nýju eftir sumarið. Hversdagsrútínan er notaleg!

Mér þykir svona heimilismatur alveg hreint dásamlega góður og sérstaklega núna þegar það eru nýjar kartöflur í búðunum. Við létum okkur nægja að bera hann bara fram með nýjum kartöflum og sultu en bæði hrásalat og ferskt salat fer auðvitað stórvel með.

Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu (uppskrift fyrir 4)

 • 600 g nautahakk
 • 1/2 dl brauðrasp
 • 1/2 dl rjómi
 • 1 dl mjólk
 • 1 egg
 • 1 laukur
 • 2 tsk salt
 • svartur pipar
 • 1 tsk sykur

Blandið rjóma, mjólk og brauðraspi saman í skál og látið standa í 5 mínútur. Setjið hakkaðan lauk, egg, salt, sykur og pipar saman við og notið töfrastaf til að blanda öllu saman. Setjið að lokum nautahakkið saman við og blandið öllu vel saman. Mótið buff og steikið upp úr vel af smjöri.

Karamelluseraður laukur

 • 3 gulir laukar
 • salt
 • sykur
 • pipar
 • smjör

Skerið laukinn þunnt niður. Bræðið smjör á pönnu og setjið laukinn á. Steikið við miðlungshita (passið að hafa hitann ekki of háann), laukurinn á að mýkjast og fá smá lit. Hrærið annað slagið í lauknum. Setjið salt, sykur og pipar eftir smek undir lokin og látið laukinn karamelluserast.

Rjómasósa

 • steikingakraftur frá hakkabuffinu
 • 2 dl rjómi
 • 2 dl sýrður rjómi
 • 1-2 grænmetisteningar
 • salt og pipar
 • sojasósa
 • maizena til að þykkja.

Blandið öllu saman í pott og látið sjóða saman. Smakkið til! Endið á að þykkja með maizena eftir smekk.

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Timjankrydduð hakkbuff með rjómasoðnu savoy káli

Timjankrydduð hakkbuff með rjómasoðnu savoy káli

Ég held að maí hljóti að vera annasamasti mánuður ársins. Þá er allt að gerast! Lokapróf, lokasýningar í tómstundum, tónleikar í tónlistarskólanum, skólaslit og útskriftir með viðeigandi veisluhöldum. Ég hef gaman af þessu öllu, nema kannski próflestrinum hjá krökkunum, en allt þetta húllumhæ hefur valdið því að ég hef lítið náð að dunda mér í eldhúsinu. Undanfarnar vikur hefur kvöldmaturinn oftar en ekki snúist um að gera eitthvað fljótlegt en gott. Nú er hins vegar júní runninn upp, krakkarnir að komast í sumarfrí og lífið að falla í rólegri gír.

Timjankrydduð hakkbuff með rjómasoðnu savoy káli

Í dag fórum við á skólaslit í tónlistarskólanum hjá Gunnari en í síðustu viku spilaði hann á tónleikum þar. Það gekk mjög vel hjá honum en í lok lagsins kom fölsk nóta og þessi mynd náðist akkúrat á því augnabliki. Mér þykir hún dásamleg og svipurinn óborganlegur. Sjálf heyrði ég ekki að nótan væri fölsk heldur fannst hann skila laginu fullkomlega frá sér. Að sama skapi hefði hann getað spilað allt lagið falskt og mér hefði samt þótt það æðislegt…

Timjankrydduð hakkbuff með rjómasoðnu savoy káli

Þó að ég viti fátt skemmtilegra en að dunda mér í eldhúsinu þá verð ég alltaf jafn glöð yfir ljúffengum réttum sem eru einfaldir og tekur stutta stund að reiða fram. Í amstri dagsins reynst oft mikill fjársjóður í slíkum uppskriftum. Þessi hakkbuff voru á boðstólnum eitt maíkvöldið hjá okkur og voru svo æðislega góð að ég er enn að hugsa um þau. Sósan var svo ljúffeng og meira að segja Malín sem þykist ekki borða beikon borðaði allt með bestu lyst. Ég bar réttinn fram með kartöflum og rifsberjahlaupi en hrísgrjón eða jafnvel bara einfalt salat dugar vel með.

Timjankrydduð hakkbuff með rjómasoðnu savoy káli

 • 500-600 g blandað hakk eða nautahakk
 • 200 g beikonkurl
 • 1 savoykálhaus
 • 3 dl rjómi (½ dl fer í buffin og 2½ dl í sósuna)
 • 1 egg
 • 1 epli (ég notaði gult)
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 tsk þurrkað timjan
 • 1 msk dijon sinnep
 • salt og pipar

Hitið ofn í 225°. Blandið nautahakki, eggi, rjóma, dijonsinnepi, salti, pipar, pressuðu hvítlauksrifi og timjan saman. Smyrjið eldfast mót með smjöri. Mótið buff úr hakkblöndunni og raðið þeim í eldfasta mótið. Setjið í ofn í 15-20 mínútur. Takið úr ofninum og skerið í eitt buffið til að tryggja að þau séu fullelduð.

Steikið beikon í rúmgóðum potti. Skerið savoykálið (um 8 kálblöð, ekki nota grófustu blöðin) í strimla og bætið í pottinn með beikoninu. Steikið áfram í smá stund og stráið síðan smá hveiti yfir áður en 2,5 dl af rjóma er hellt yfir. Ef blandan verður of þykk þá er hún þynnt með smá vatni. Skerið eplið í teninga og bætið í. Saltið og piprið eftir smekk (athugið að fara varlega í saltið út af beikoninu). Látið sjóða í nokkrar mínútur eða þar til kálið er orðið mjúkt.

Hakkabuff með fetaosti

Hakkbuff með fetaosti

Í gærkvöldi bauð mamma okkur í lambalæri sem hún bar fram með kartöflugratíni og salati. Í eftirrétt hafði hún bakað danska eplaköku sem var, að sjálfsögðu, borin fram með rjóma (því mamma elskar rjóma…. og allt danskt). Ég gæti vel vanist því að vera boðin í svona veislu á hverjum mánudegi og þótti þetta þvílíkur hversdagslúxus. Ég nýtti tækifærið og fékk uppskrift að súkkulaðimúsinni hennar mömmu sem krakkarnir elska og eru alltaf að biðja hana um að gera. Ég ætla að setja hana hingað inn við tækifæri.

Núna ætla ég hins vegar að gefa uppskrift að ljúffengu hakkabuffi. Þessi hakkabuff mega gjarnan vera oftar á disknum mínum því mér þykja þau svo bragðgóð og ljúffeng. Það er eitthvað notalegt við þau og krakkarnir borða buffin alltaf af bestu lyst. Með soðnum kartöflum og sultu verða þau að dýrindismáltíð sem er einfalt að útbúa og allir kunna að meta.

Hakkbuff með fetaosti

Hakkabuff með fetaosti

 • 700 g nautahakk eða blanda af nauta- og svínahakki
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 egg
 • 2 tsk þurrkað oregano
 • 150-200 g mulinn fetaostur
 • salt og pipar
 • smjör til að steikja upp úr

Sósa

 • 2 msk smjör
 • 1/2 dl vatn
 • 3 dl rjómi
 • 2-3 msk kalvfond (eða grænmetisteningur)
 • maizena
 • salt og pipar
 • smá rifsberjahlaup (má sleppa)

Hakkbuff með fetaosti

Blandið hráefninu í buffin vel saman (mér þykir gott að setja allt í hrærivélina) og mótið stór buff úr þeim. Steikið buffin á pönnu upp úr vel af smjöri. Á meðan er ofninn hitaður í 125°. Þegar buffin eru tilbúin eru þau sett í eldfast mót og inn í ofn til að halda þeim heitum.

Steikarsoðið af buffunum er notað í sósuna. Þegar öll buffin hafa verið steikt er væn smjörklípa sett á pönnuna. Bætið vatni og rjóma á pönnuna og smakkið til með kalvfond, salti og pipar. Mér þykir stundum gott að setja smá af rifsberjahlaupi í sósuna en því má sleppa. Að lokum er sósan þykkt með maizena . Leggið buffin í sósuna og látið þau sjóða í sósunni um stund við vægan hita.

Berið buffin fram með soðnum kartöflum og sultu.

Ostafyllt buff með rjómasósu

Ég er með móral yfir því að hafa ekki náð að svara skilaboðum og kommentum síðustu daga. Það er búið að vera mikið að gera og ég er þess að auki búin að vera í saumaklúbbum síðustu tvö kvöld. Eins og svo oft vill verða kom ég allt of seint heim úr þeim og ætlaði ekki að trúa því þegar vekjaraklukkan hringdi morgnana eftir. Ég bæti bloggleysið í gær vonandi upp með þessari uppskrift af alveg dásamlegum mat sem við borðuðum í kvöld.

Í gær var ömurlegt veður en Öggi og Gunnar létu það ekki aftra sér við að taka þátt í Atlantsolíuhlaupinu. Mér leist ekkert á blikuna þegar ég kvaddi þá og varð ekki róleg fyrr en ég fékk sms frá Ögga um að þeir væru komnir í mark. Gunnar hafði staðið sig vel, eins og alltaf, og hreppti bronsverðlaun. Við erum að springa úr stolti og Gunnar hefur enn ekki tekið medalíuna af sér.

Á meðan feðgarnir hlupu í roki og rigningu sátum við hin inni í hlýjunni við kertaljós og gæddum við okkur á ljúffengri aspassúpu. Ég ætlaði að setja inn uppskriftina af henni en áður en ég vissi af var ég orðin of sein í saumaklúbbinn og mátti því ekkert vera að því að setjast við tölvuna.

Í kvöld var fyrsta rólega kvöld vikunnar og við nutum þess að vera öll heima. Við kveiktum á kertum og sátum lengi yfir kvöldmatnum og höfðum það notalegt. Kvöldmaturinn var dásemd sem ég gef uppskriftina af með gleði og vona að ykkur þyki hann jafn góð og okkur.

Ostafyllt buff með rjómasósu

 • ca 500 gr nautahakk
 • ca 500 gr svínahakk
 • 1 egg
 • 1 dl rjómi
 • nýmalaður svartur pipar
 • 1 tsk timjan
 • 150 gr góður ostur, t.d. gráðostur eða hvítmygluostur (mér þykir gott að nota Ljúfling)

Sósa

 • 4 dl rjómi
 • 1 dl vatn
 • 1-2 grænmetisteningar
 • ca 1-2 tsk rifsberjasulta
 • hvítur pipar

Blandið vel saman nautahakki, svínahakki, eggi, rjóma, pipar og timjan (ég nota K-ið á hrærivélinni en það má vel gera þetta í höndunum).  Mótið 9 buff og gerið holu í miðjuna á þeim. Skerið ostinn í bita, stingið þeim í holurnar og lokið vel fyrir.

Hitið smjör á pönnu og steikið buffin við miðlungshita. Steikið buffin í tveimur umgöngum í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Það á ekki að fullsteikja buffin. Hafið engar áhyggjur ef einhver ostur læðist úr þeim, það gerir sósuna bara betri. Þegar buffin hafa verið steikt eru þau lögð til hliðar og gerð sósa úr steikarsoðinu. Hellið rjóma, vatni og grænmetisteningi á pönnuna og látið suðuna koma upp. Smakkið til með rifsberjasultu, hvítum pipar og grænmetiskrafti. Setjið buffin aftur á pönnuna og látið þau sjóða við vægan hita í sósunni í nokkrar mínútur eða þar til þau eru tilbúin. Ég hræri smá Maizena út í sósuna í lokin til að þykkja hana.

Við bárum réttinn fram með soðnum kartöflum, salati og rifsberjasultu sem okkur þótti æðislega góð með.