Þykk og góð mexíkósk kjúklingasúpa

Mexíkósk kjúklingasúpaVið tókum okkur smá frí frá hversdagsleikanum þegar keyrðum norður á Akureyri síðasta miðvikudag og dvöldum norðan heiða það sem eftir var af vikunni. Við komum heim aðfaranótt mánudags, eftir 9 klukkustunda akstur sem endaði í bílalest yfir Laxárdalsheiði og Heydal í óveðri. Það ævintýri náði þó ekki að skyggja á yndislega ferð og þó að allir hafi verið orðnir vel þreyttir þegar við komumst heim klukkan hálf fjögur um nóttina vorum við endurnærð. Fyrir norðan náðum við að skíða bæði á Dalvík og í Hlíðarfjalli, fara þrisvar sinnum út að borða, í sund, á kaffihús, spila… já, gera allt það sem tilheyrir svona fríum og gerir lífið svo skemmtilegt.

Mexíkósk kjúklingasúpa

Eins yndislegt og það er að fara í frí þá mun ég þó seint vanmeta hversdagsleikann. Hann hefur sko sinn sjarma. Mér þykir ósköp notalegt að dunda mér í eldhúsinu þegar veðrið lætur svona illa og finnst þá sérlega viðeigandi að bjóða upp á heita, matarmikila súpu.  Þessi súpa er matarmikil, þykk og dásamleg. Ég ber hana fram með rifnum osti, sýrðum rjóma, fersku kóriander, avókadó, lime og nachos. Síðan setur hver og einn það í sína súpu sem hann hefur smekk fyrir (ég tek þetta alla leið, húrra öllu ofan í og kreysti lime yfir). Súpergott!

Mexíkósk kjúklingasúpa

Mexíkósk kjúklingasúpa (uppskrift fyrir 5)

  • 500 g kjúklingalundir (ég nota frá Rose Poultry og set jafnvel allan pokann, 700 g)
  • 1 skarlottulaukur
  • 1 rauð paprika
  • 1 líter vatn
  • 1 dós Hunt´s Diced Roasted Garlic (sjá mynd neðst)
  • 2 kjúklingateningar
  • ½ – 1 tsk chili
  • ½ – 1 tsk cumin
  • 1½ tsk paprikukrydd
  • 4 msk tómatpúrra
  • 1 dós philadelphia rjómaostur með sweet chili
  • 1 dl rjómi

Hakkið skarlottulauk og papriku og steikið við vægan hita þar til mjúkt. Takið af pönnunni og leggið til hliðar. Skerið kjúklingalundirnar í bita og steikið í nokkrar mínútur (þarf ekki að fullelda á þessu stigi). Setjið skarlottulauk, papriku, kjúklingalundir, vatn, tómata, kjúklingateninga, chili, cumin, paprikukrydd og tómatpúrru í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita í 15 mínútur. Bætið rjómaostinum og rjómanum út í og sjóðið áfram í 5 mínútur.

Mexíkósk kjúklingasúpa

Kjúklingasúpan hennar mömmu

Marókósk kjúklingasúpa

Í gær fórum við í 4 tíma hjólatúr sem endaði í mat hjá mömmu. Veðrið var yndislegt og við komum víða við á leið okkar. Stoppuðum meðal annars í ísbúð, á leikvöllum og í Elliðarárdalnum. Mamma tók síðan á móti okkur með æðislegri súpu og ekki síðri eftirrétt. Við ætluðum ekki að getað hætt að borða og ég var ekki lengi að sníkja uppskriftinar til að geta sett hingað inn. Þessa verðið þið að prófa!

Marókósk kjúklingasúpaMarókósk kjúklingasúpaMarókósk kjúklingasúpaMarókósk kjúklingasúpa

Marókósk kjúklingasúpa

Kjúklingasúpan hennar mömmu (fyrir 8)

  • 4 kjúklingabringur, skornar í bita og steiktar
  • 3 paprikur, helst ein í hverjum lit (gul/appelsínugul, rauð og græn)
  • 1 laukur, saxaður
  • 1 púrrulaukur, skorinn í sneiðar
  • 3 pressuð hvítlauksrif
  • 1 msk moroccan krydd frá Nomu (mamma notaði Tikka India Spice frá Santa Maria)
  • 1 líter vatn
  • 4 kjúklingateningar
  • 5 dl matreiðslurjómi
  • 1 askja rjómaostur (400 g)
  • 1 flaska Heinz chilli sósa
  • 2-4 msk sweet chilli sósa

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið. Leggið til hliðar.

Skerið grænmetið niður og steikið með kryddinu í rúmgóðum potti. Bætið öllu öðru hráefni í pottinn fyrir utan kjúklinginn og látið sjóða við vægan hita í 30 mínútur. Smakkið til. Bætið kjúklingnum í pottinn og látið sjóða í nokkrar mínútur til viðbótar.

Berið súpuna fram með góðu brauði.

Rjómalöguð kjúklingasúpa

Við höfum legið yfir veðurfréttum síðustu daga og vonað að það fari að létta til. Planið var að keyra norður á Akureyri á morgun því Gunnar átti að fara með Gerpluhópnum að keppa í fimleikum. Við hin vorum búin að ákveða að eyða helginni á Akureyri og fylgjast með honum keppa. Það var þó tekin ákvörðun í dag um að fresta mótinu sökum veðurs, Gunnari til mikilla vonbrigða.

Ég hef eflaust sagt það áður að ég er yfirleitt með súpu í matinn einu sinni í viku. Við erum öll hrifin af súpum og mér þykir svo gaman að elda þær, að smakka þær til og dekra við þær.  Síðan er eitthvað svo notalegt við það að sitja inni í hlýjunni með súpu þegar það er svona kalt úti. Í gær eldaði ég rjómalagaða kjúklingasúpu sem var dásemdin ein og alveg fullkomin í þessu kalda veðri.

Rjómalöguð kjúklingasúpa

  • 500 gr kjúklingabringur
  • smjör
  • 2 skarlottulaukar
  • 2 gulrætur
  • nokkrar matskeiðar chilisósa
  • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
  • 8 dl vatn
  • 2 kjúklingateningar (eða 1 kjúklinga- og 1 grænmetisteningur)
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1 peli rjómi (2 ½ dl)
  • 100 gr rjómaostur
  • 2-3 lúkur af pasta
  • smá cayenne pipar
  • pipar og salt
  • púrrulaukur
  • rifinn ostur (mér þykir gott að rífa óðalsost)

Skerið kjúklinginn í bita, saxið laukinn og skerið gulræturinar í sneiðar. Steikið kjúklinginn upp úr smjöri. Þegar kjúklingurinn er að verða tilbúinn er lauknum og gulrótunum bætt út í og steikt saman þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Bætið niðursoðnum tómötum, chilisósu, vatni, rjóma og teningum út í og látið suðuna koma upp. Bætið rjómaostinum í pottinn í smáum skömmtum og látið blandast vel. Bætið pastanu í pottinn og látið sjóða þar til það er tilbúið. Smakkið til með salti, pipar og cayennepipar.

Skerið púrrulaukinn í þunnar sneiðar. Berið súpuna fram með púrrulauk, rifnum osti og góðu brauði.

Himnesk kjúklingasúpa með ferskjum

 

Í gær fékk ég í hendurnar nýjasta Gestgjafann þar sem meðal annars er þáttur eftir litlu mig. Mér þótti mikill heiður að vera beðin um að gera þrjár síður fyrir blaðið og hafði æðislega gaman af. Það var mjög spennandi að fá Gestgjafann í hendurnar í gær og ég ætlaði varla að þora að opna hann. Í blaðinu gef ég fljótlegar uppskriftir fyrir saumaklúbbinn sem eru allar mjög góðar og ég get lofað því að ykkur á eftir að þykja súkkulaðikakan með kókosnum æðislega góð. Drífið ykkur nú og kaupið blaðið, það er stútfullt af girnilegum uppskriftum.

Ég var að fara í gegnum myndirnar í tölvunni og rakst þá á þessar myndir af kjúklingasúpu sem ég gerði fyrir nokkrum vikum og átti alltaf eftir að setja inn. Ég skil ekki hvernig það gat gerst því ég elska þessa súpu.

Uppskriftin kemur frá Beggu frænku minni og þegar hún bauð mér í súpuna í fyrsta sinn þá kolféll ég fyrir henni og varð ekki róleg fyrr en hún var búin að gefa mér uppskriftina. Súpan er ekki síðri daginn eftir og því sniðugt að bjóða upp á hana í afmælum eða saumaklúbbum og geta þá undirbúið hana deginum áður.

Kjúklingasúpa með ferskjum

  • 1 stór laukur (smátt saxaður)
  • smjör
  • 3-4 tsk karrýmauk (ég nota  Pataka´s mild curry paste, coriander & cumin)
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 ½  dós niðursoðnir tómatar
  • 5 dl kjúklingasoð (vatn og 2 kjúklingateningar)
  • 1 lítil dós tómatpuré
  • 1/2 líter rjómi
  • 1 stór dós niðursoðnar ferskjur
  • 3 kjúklingabringur.

Bræðið smjör og karrýmauk í potti og bætið lauknum í. Látið laukinn mýkjast við vægan hita. Bætið tómötum, tómatpuré, kjúklingasoði, hvítlauk og rjóma saman við og látið sjóða við vægan hita í ca 10 mínútur.

Skerið ferskjurnar smátt niður og bætið út í ásamt safanum. Látið sjóða áfram í aðrar 10 mínútur.

Skerið kjúklingabringurnar smátt og steikið á pönnu upp úr smjöri. Saltið með maldonsalti. Bætið kjúklingabitunum út í súpuna og látið hana sjóða í 5 mínútur til viðbótar.