Midsommar

Á föstudaginn héldu Svíar upp á Midsommar. Það er æðislega gaman að vera í Svíþjóð á Midsommar, að dansa í kringum Midsommar-stöngina og að borða góðan mat. Við fáum alltaf Svíþjóðarþrá á þessum árstíma og ákváðum í ár að halda okkar eigin Midsommar hátíð. Reyndar ætluðum við hvorki að syngja né dansa heldur að elda góðan mat og horfa á sænska mynd. Það kom síðan á daginn að það voru Justin Bieber tónleikar í sjónvarpinu sem að unglingurinn mátti alls ekki missa af þannig að þetta fór nú fyrir lítið hjá okkur og það eina sem minnti mögulega á Midsommar var jarðaberjatertan sem ég gerði til að hafa í eftirrétt.

Það kom á dögunum út sænsk tertubók eftir Lindu Lomelino, Lomelinos Tårtor. Ég er alveg staðráðin í að eignast þessa bók enda búin að fylgjast með bloggi sem höfundurinn heldur í góðan tíma. Ég var svo heppin að finna uppskrift að jarðaberjatertu úr bókinni á Netinu og fannst kjörið að baka hana fyrir Midsommar hátíðina okkar. Ég breytti uppskriftinni örlítið, gerði sítrónucurd í staðin fyrir limecurd, og notaði þrjú 20 cm form í staðin fyrir tvö 15 cm. Tertan var æðislega góð og ég er spennt að prófa fleiri uppskriftir úr bókinni.

Botnar

 • 50 gr. smjör
 • 2 stór egg
 • 2,5 dl. sykur
 • 1 tsk. vanillusykur
 • 1 dl. mjólk
 • 3 dl. hveiti
 • 1,5 tsk. lyftiduft

Hitið ofninn í 175 gráður og smyrjið tvö 15 cm bökunarform. Bræðið smjörið og látið það kólna. Hrærið egg, sykur og vanillusykur saman þar til það verður ljóst og loftkennt. Hitið mjólkina og blandið hægt út í degið. Hrærið smjörinu út í og að lokum þurrefnunum. Skiptið deginu jafnt í bökunarformin og bakið í ca 30 mínútur.

Sítrónucurd

 • 1,5 dl. sykur
 • 2 stór egg
 • hýði af 2 stórum sítrónum og ca 3/4 dl. af ferskum sítrónusafa
 • 50 gr. smjör við stofuhita

Setjið sykur, egg, fínrifið sítrónuhýði og sítrónusafann í hitaþolna skál og setjið yfir sjóðandi vatn. Hrærið stöðugt með handþeytara (ekki rafmagns) svo að eggin hlaupi ekki í kekki. Blandan á að ná svipaðri þykkt og hollandaissósa. Þegar blandan hefur náð réttri þykkt er hún tekinn af hitanum og smjörinu hrært saman við. Þegar smjörið er bráðnað er sítrónucurdið sett í lokaða krukku, það geymist í rúma viku í ískáp.

Fylling

 • 6 dl. rjómi
 • 2 msk. sykur
 • 500 gr. jarðaber
 • 1 dl. sítrónucurd

Þeytið rjómann með sykrinum. Hreinsið jarðaberin og skerið í sneiðar.

Kljúfið botnana í tvennt með góðum hníf (þá verða botnarnir fjórir). Setjið fyrsta botninn á kökudisk, breiðið jöfnu lagi af sítrónucurdinu á botninn, síðan rjóma og að lokum skífuðum jarðaberjunum. Leggið næsta botn ofan á og endurtakið þar til einn botn er eftir. Að lokum er síðasti botninn lagður efst með skornu hliðina niður, breiðið þykku lagi af rjóma yfir alla tertuna og skreytið með jarðaberjum.

4 athugasemdir á “Midsommar

 1. Eg gerdi tessa i dag og maetti med i saenskt matarbod. Notadi nu bara keypt lemoncurd ( geri allt eins einfalt og haegt er). Hlod ofan a hana JARDARBERJUM, alvöru saenskum sem tu veist nu Ad bragdast best!— get sagt eitt… Kakan klaradist!

 2. Gerdi tessa AFTUR fyrir Svialeikskolakennarana og vakti lukku( taer halda eg se snillingur i bakstri en eg geri bara kökur fra ter og Dröfn eftir ad bloggin ykkar komu)— teim finnst ALLT svo gott en tessi kaka er einstaklega audveld tegar madur a lemoncurd i krukku og svindlar pinu…. Tad fyndna hins vegar i tetta skiptid var ad tad munadi 3 cm i ad Emma naedi ad setja tunguna i rjomann tar sem eg turfti audvitad ad mynda Brynju med tertuna og lagdi hana a sjonvarpsskenkinn……… Svo vorum vid ad klaeda okkur og fylgdumst ekki nogu vel m Emmunni—- gud hv mer bra!—- henni hefur x1 tekist ad sleikja rjoma af 1/2 köku a örskamnri stundu!!— sem sagt::: maeli med tessari köku og passa ad hundurinn se ekki nalaegt!!/ kv Halla

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s