Dásamlegar brauðbollur með sólblómafræjum

Við byrjuðum þennan sunnudag á löngum morgunverði með nýbökuðum brauðbollum. Ég held að dagar sem byrja svona vel geti ekki orðið annað en góðir. Brauðbollurnar eru frábærar á morgunverðarborðið og ekki skemmir fyrir að þær eru útbúnar kvöldið áður þannig að það þarf bara að stinga þeim í ofninn í 10-12 mínútur um morguninn.

Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að það tekur enga stund að útbúa þessar brauðbollur. Í gærkvöldi gerði ég deigið, bjó til bollurnar og raðaði þeim á bökunarplötuna sem fékk svo að dúsa í ískápnum í nótt. Þegar ég vaknaði kveikti ég á ofninum og stakk síðan bökunarplötunni inn. Á meðan brauðið var að bakast lagði ég á borð. Þegar ég síðan vakti fjölskylduna þá spurði Öggi mig hvort ég hefði farið út í bakarí. Ég hafði verið svo snögg að gera deigið í gærkvöldi að hann hafði ekki tekið eftir því.

Brauðbollurnar eru æðislega góðar. Ekki láta ykkur bregða þegar þið takið þær út úr ískápnum morguninn eftir og þær eru kaldar og harðar því eftir baksturinn verða þær lungnamjúkar og dásamlegar. Ég mæli með því að þið prófið, þetta eru góð verðlaun fyrir mjög litla fyrirhöfn.

Brauðbollur

  • 1-2 dl sólblómafræ
  • 1 bréf þurrger
  • 2 dl mjólk
  • 1 dl ab-mjólk (eða súrmjólk)
  • 3 msk smjör við stofuhita
  • 1 tsk salt
  • 5-6 dl hveiti
  • 2 dl heilhveiti

Hrærið gerið út í kalda mjólkina. Bætið ab-mjólk, smjöri, salti, hveiti og sólblómafræjum saman við og blandið vel saman. Ég leyfi hnoðaranum á Kitchenaid hrærivélinni að sjá um þetta. Skiptið deginu í 10 hluta, hnoðið hvern hluta í kúlu og leggið á bökunarplötu klædda með bökunarpappír. Leggið plastfilmu yfir og leyfið að hefast inn í ískáp yfir nótt (ca 10 klst).

Penslið bollurnar með upphrærðu eggi og stráið sólblómafræjum yfir. Bakið í ca 10-12 mínútur við 200°.

Að lokum langar mig að benda á nýjan djús sem við prófuðum í morgun, Sunquick tropefrugt, sem okkur þótt mjög góður. Öggi segir að nú muni fólk halda að ég sé að auglýsa djúsinn en ég get lofað því að ég keypti hann sjálf og fæ ekkert fyrir að benda á hann. Eins og venjulega þá setti ég vel af klaka út í djúskönnuna, djúsinn verður svo svalandi og mikið betri við það.

10 athugasemdir á “Dásamlegar brauðbollur með sólblómafræjum

  1. Ég fylgist með hér daglega og hef mjög gaman af 🙂 Skellti í svona bollur áðan og get ekki beðið eftir því að vakna í fyrramálið til að baka þær 🙂

  2. Þessar bollur eru sannarlega dásamlegar. Skellti í þetta einfalda deig í gærkvöldi og bakaði í morgun, fjölskyldunni til mikillar ànægju

  3. Geri þessar bollur mjög oft og þær eru æði. Set oftast kotasælu í þær líka.
    Takk fyrir frábært blogg!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s