Börnin mín gætu lifað á Nutella og Malín veit fátt betra en ostakökur. Þegar ég datt niður á uppskrift af Nutellaostaköku á Pinterest var ég því ákveðin í að gera vel við okkur og bjóða upp á kökuna við fyrsta tækifæri.
Ég finn alltaf tilefni fyrir eftirrétt. Það dugar að allir séu heima eða gott sjónvarpsefni til að njóta eftirréttarins yfir. Mér þykir það lífga upp á daginn og færa honum örlítinn hversdagslúxus.
Þessi ostakaka er æðisleg og krakkarnir voru fljót að hreinsa skálina þegar ég var búin að hræra í fyllinguna. Tilbúna kakan vakti ekki minni lukku og hreinlega hvarf úr skálunum. Núna er beðið eftir að ég bjóði aftur upp á hana, sem ég mun svo sannarlega gera fljótlega!
Það tekur stutta stund að útbúa þessa dásemd og hráefnalistinn er einfaldur. Þið finnið Cool Whip í frystinum í Hagkaup og best er að láta það þiðna í ísskáp. Það tekur um 4 klst.
Nutellaostakaka með Oreobotni (fyrir 4-6)
Botn:
- 12 Oreo kexkökur
- 3 msk smjör, brætt
Fylling:
- 225 g Philadelphia rjómaostur
- 2/3 bolli Nutella
- 1 tsk vanilludropar
- 1 askja (225 g) Cool Whip (fæst í Hagkaup), sem hefur þiðnað í ísskáp í amk 4 klst.
Botn: Myljið Oreo kexkökurnar (t.d. í matvinnsluvél), bræðið smjörið og hrærið saman. Skiptið blöndunni jafnt á milli þeirra skála eða glasa sem á að bera kökurnar fram í, þrýstið blöndunni í botninn og leggið til hliðar.
Fylling: Setjið rjómaost og Nutella í skál og hrærið saman með handþeytara eða í hrærivél þar til blandan er mjúk og einlit. Hrærið vanilludropum saman við. Notið sleikju til að blanda Cool Whip saman við blönduna, vinnið allt varlega saman þar til blandan er orðin einlit og engar rendur í henni. Setjið fyllinguna yfir Oreobotninn (ég setti fyllinguna í sprautupoka og sprautaði henni í skálarnar). Setjið plastfilmu yfir og geymið í ísskáp þar til borið fram.
Dóttir mín er búin að panta þessa ostaköku fyrir afmælið sitt og bíðum við spenntar að smakka hana. Ég vildi forvitnast hvort mér er ekki óhætt að gera hana deginum áður og geyma í frystinum? Eða er best að gera hana samdægurs?
verdur fyllingin thykk og thett thegar thetta er tilbuid