Ég átti langa helgi í París í síðustu viku, sem er ástæða fjarveru minnar hér á blogginu. Þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust áttað sig á því, en þar uppfærði ég bæði með myndum og á Insta stories. Við vorum síðast í París í lok október en núna var vor í lofti og annar bragur á borginni. Tíminn flaug frá okkur og ég hefði gjarnan viljað framlengja um nokkrar nætur. Það var þó svo að vinnan kallaði og börnin biðu, þannig að það var bara að koma sér aftur heim. Ég tók bara myndir á símann í þessari ferð og myndgæðin eru eflaust eftir því. Það verður þó að fá að duga.
Við nýttum tímann vel og fórum meðal annars í vínsmökkum hjá O´Chateu sem ég má til með að mæla með. Vínin voru dásamleg og meðlætið ekki síðra en vínið var parað með frönskum ostum og skinkum ásamt baquette. Ég var í himnaríki!
Við fórum í hjólaferð og náðum þannig bæði að sjá áhugverða staði og fá smá fróðleik í leiðinni. Það er gaman að hjóla um París og við vorum sérlega heppin með leiðsögumann. Við vorum fjögur saman og ferðin tók 1,5 klst. Við komumst yfir furðu mikið á svo skömmum tíma.
Það er varla hægt að fara til Parísar án þess að borða góðan mat. Við borðuðum foi gras á hverjum degi, drukkum rósarvín og nutum þess að vera til. Ég skrifaði um L´Avenue eftir síðustu Parísarferð og get ekki annað en imprað á því hversu góður staðurinn er. Núna sátum við úti í blíðskaparveðri, drukkum kalt rósarvín og borðuðum snigla, tælenskar vorrúllur, humar og önd. Það væri synd að láta þennan stað framhjá sér fara.
Síðan má ég til með að benda á Le Meurice Alain Ducasse en þar fékk ég einn besta mat sem ég hef á ævinni borðað. Staðurinn skartar tveim Michellin stjörnum og ekki að ástæðulausu. Við fengum foi gras í forrétt, nautalund í aðalrétt og ís með súkkulaði í eftirrétt. Umhverfið er svo fallegt og maturinn dásamlega góður. Ef maður ætlar að gera vel við sig, þá er þetta staðurinn. Ég vara þó við að hann er ansi dýr.
Það má vel eyða deginum í Galleries Lafayette og þó planið sé ekki að versla er klárlega vert að líta við. Byggingin er stórkostlega falleg og á efstu hæð eru svalir með útsýni yfir París.
Fyrir fleiri ábendingar um París er hægt að skoða fyrri færslu sem er hér. París er dásamleg borg og verður eflaust ekki heimsótt nógu oft. Mig langar strax aftur!
Sæl, ég sá að þú hefur verið í Berlin og mælir með Kampavínsbrönsi á Adlon sem ég ætla að prufa 🙂 getur þú mælt með veitingastöðum fyrir mig í Berlin?
Já, ég er með nokkra staði sem ég hef prófað og get mælt með 🙂
Ég mæli hiklaust með kampavínsbrönsinum á Adlon hotel og myndi alls ekki sleppa honum. Passaðu bara að bóka borð því það þarf að gera það með góðum fyrirvara. Þú gerir það hér:
http://www.kempinski.com/en/berlin/hotel-adlon/dining/culinary-highlights/sunday-brunch/
Mér þykir Chipps vera mjög góður morgunverðar/bröns staður. Þú getur skoðað hann hér: http://chipps.eu/index.php?lang=en
Þar er hægt að sitja úti ef veðrið er gott. Ég er hrifin af rétti númer 9, Green horn. Er á JägerdtraBe 35, 10117 Berlin – mitte
Aðrir veitingastaðir sem ég get mælt með er Entrecoté (er við Alexanderplatz). Þar eru æðislegar steikur. Monsier vuong er minna fancy en svakalega góður. Það er yfirleitt röð þar fyrir utan en hún gengur hratt. Þú getur skoðað hann hér: http://www.monsieurvuong.de/
Ég hef líka heyrt að Transit sé mjög góður og skemmtilegur staður en hef sjálf ekki borðað þar.
Ef veðrið verður gott þá er æðislegt að fara í drykk á rooftop barinn á Hotel de Rome. Hann er á Bejremstrasse 37 sem er í austurhlutanum, rétt hjá verslunargötunni og Mall of Berlin ( http://www.mallofberlin.de/ ). Frábært að byrja daginn í mollinu (allar helstu búðirnar eru þar) og enda hann í drykk á þakinu 🙂