Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ég lofaði í gær að setja inn uppskrift að þessari dásamlegu böku sem ég bauð upp á í afmælisveislu strákanna í dag. Þetta er ein af þeim uppskriftum sem mér þykir mikill fjársjóður að eiga. Ekki bara er einfalt að útbúa bökuna og hægt að gera hana með góðum fyrirvara heldur er hún líka alveg stórkostlega góð.

Við héldum afmælisveislu strákana í dag og þeir vildu bjóða fjölskyldunni í súpu og kökur í hádeginu. Það kom mér ekki á óvart að þeir vildu hafa  Mexíkóska kjúklingasúpu því hún er í miklu uppáhaldi hjá þeim. Í eftirrétt vildu þeir fá að skreyta venjulega skúffuköku og síðan bakaði ég silvíuköku, möndluköku og síðast en ekki síst þessa frosnu bismarkböku með marshmellowkremi.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ég hef bakað þessa frosnu bismarkböku nokkrum sinnum áður og hún slær alltaf í gegn. Í fyrra vorum við með hana í eftirrétt um áramótin sem vakti mikla lukku. Bakan er sæt en jafnframt fersk og passar því vel eftir mikla máltíð. Þar að auki þykir mér frábært að vera með eftirrétt sem hægt er að útbúa með góðum fyrirvara þegar mikið stendur til í eldhúsinu, eins og svo oft vill vera um áramótin.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ef þið eruð að leita að eftirrétti fyrir áramótin þá er þessi kaka mín tillaga. Það má gera hana strax í dag og geyma í frystinum þar til hún verður borin fram. Uppskriftin kemur úr sænskri matreiðslubók, Vinterns söta.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Botn:

 • 20 súkkulaðikexkökur, t.d. Maryland
 • 2 msk kakó
 • 25 g brætt smjör

Bismarkkrem

 • 5 dl rjómi
 • 1 dós marshmalowkrem (fæst t.d. í Hagkaup, sjá mynd)
 • Nokkrir dropar af piparmintudropum
 • nokkrir dropar af rauðum matarlit
 • 1 dl bismarkbrjóstyskur + nokkrir til skrauts

Súkkulaðisósa:

 • 125 g dökkt súkkulaði
 • 75 g smjör
 • ½ dl sykur
 • ½ dl sýróp
 • ½ dl vatn
 • smá salt

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Setjið kex, kakó og brætt smjör í matvinnsluvél og vinnið saman. Þrýstið blöndunni í smelluform með lausum botni (það getur verið gott að klæða það fyrst með smjörpappír) og setjið í frysti.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Þeytið rjómann og blandið marshmallowkreminu varlega saman við. Passið að hræra marshmallowkreminu ekki of vel saman við rjómann, það á að vera í litlum klessum í rjómanum. Hrærið nokkrum dropum af piparmintudropum saman við (smakkið til, mér þykir passlegt að nota ca 1 tsk.).  Setjið um þriðjung af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.

Myljið bismarkbrjóstsykurinn í mortéli og blandið honum saman við stærri hluta kremsins. Takið kökubotninn úr frystinum og breiðið kreminu með bismarkbrjóstsykrinum yfir hann.  Hrærið nokkrum dropum af rauðum matarlit saman við kremið sem var lagt til hliðar og breiðið það yfir hvíta bismarkkremið. Notið hníf til að mynda óreglulega áferð í kremið.

Frystið kökuna í að minnsta kosti 5 klukkutíma. Takið hana úr frystinum 10-15 mínútum áður en það á að bera hana fram. Skreytið með bismarkbrjóstsykri.

Setjið öll hráefnin í súkkulaðisósuna í pott. Látið suðuna koma upp við vægan hita og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað. Látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur eða þar til sósan er orðin þykk og glansandi.

Berið sósuna fram heita eða kalda með kökunni.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Bismark ís

Bismark ísGleðileg jól kæru lesendur. Ég vona að þið hafið átt góð jól með góðum mat og í góðum félagsskap.

Síðustu dagar fyrir jól voru ekki verið eins og við hefðum kosið þar sem Gunnar veiktist og  hefur legið fárveikur síðan á fimmtudag. Ekki það skemmtilegasta rétt fyrir jól. Í morgun vaknaði hann þó öllu hressari, enda búinn að vera á sýklalyfjum í fjóra daga og fyrir löngu kominn með nóg af ástandinu.

Hefðinni samkvæmt var möndlugrauturinn í hádeginu á aðfangadag. Gunnar var lystarlaus og fékk tvær skeiðar af grautnum á diskinn sinn, bara til að vera með. Heppnin var þó með honum og hann fékk möndluna. Mér fannst hún ekki geta farið á betri stað.

Bismark ís

Á Þorláksmessukvöldi setti Öggi upp nýtt ljós í borðstofunni. Mig hefur lengi langað í þetta ljós eftir danska arkitektinn Simon Karkov og mamma ákvað að gefa okkur það í jólagjöf. Það sem ég hafði hins vegar ekki áttað mig á er að ljósið kemur í 69 bútum sem þarf að pússla saman. Það má því segja að ljósið Norm 69 hafi verið jólapússlið í ár og líkt og önnur jól þá gat ég ekki hætt að pússla fyrr en því var lokið.

Bismark ís

Ég átti afmæli tveimur dögum fyrir jól og fékk svo ótrúlega fallegar gjafir. Meðal annars bættist í Marimekkoskálasafnið mitt frá Ittala, mamma gaf mér rauðu skálina og Svanhvít systir hvítu frostuðu skálina. Mér þykja þessar skálar svo æðislega fallegar og setti strax sörur og kókostoppa í þær. Ég verð að muna að setja inn uppskriftina að kókostoppunum því þeir eru æði!

Bismark ís

Enn fleiri Ittala vörur komu síðan úr jólapökkunum. Malín var svo sæt og var búin að kaupa handa okkur Kivi-stjaka. Ég átti nokkra stjaka fyrir og þessi fellur vel inn í safnið. Þess að auki fengum við tvenna túrkislitaða Kastehelmi stjaka og eina skál, bæði líka frá Ittala.

Bismark ís

Strákarnir voru búnir að útbúa æðislegar gjafir handa öllum. Jakob saumaði svuntu handa mér og sat eftir síðasta daginn í skólanum til að klára hana. Hann ætlaði að bródera Ljúfmeti og lekkerheit á hana en náði því ekki. Gunnar smíðaði skeið handa mér og brenndi í hana mamma á skaftið. Þeir bræddu mömmuhjartað með þessum gjöfum, litu karlarnir mínir. Öggi fékk skurðbretti frá Gunnari og kertastjaka frá Jakobi sem hann hafði skrifað Nolli undir, því honum þótti það nafn passa músinni svo vel.

Bismark ís

Gjöfin sem kom mér þó mest á óvart kom frá Ögga og krökkunum, nýr Iphone. Ég er heimsins versti símanotandi, týni símanum oft á dag og heyri aldrei í honum þegar hann hringir. Fjölskyldan bindur miklar vonir við breytta tíma með þessum glansandi flotta hvíta síma og ég hef þegar lofað að passa vel upp á hann. Full af spennu og tilhlökkun ákváðum við svo að koma honum í gang strax um kvöldið. Það fór þó svo að þegar Öggi ætlaði að setja hann upp fyrir mig þá passaði gamla simkortið ekki í hann. Eftir að hafa leitað ráða á netinu ákváðum við að sníða það til eftir kortinu úr símanum hans Ögga og láta síðan Global-hnífinn skera simkortið mitt til. Þetta fór þó ekki betur en svo að nú virka hvorugt kortið og við hjónin því bæði símalaus þar til verslanir opna á fimmtudaginn.

Bismark ís

Núna er víst ekki lengur til setunnar boðið þar sem við erum á leiðinni í jólaboð. Ég ætla að enda þetta ruglingslega innlegg með uppskrift að ís sem mér þykir bæði jólalegur og góður.

Bismark ís

 • 3 dl rjómi
 • 3 eggjarauður
 • 1 msk vanillusykur
 • 3 msk flórsykur
 • 2 dl mulinn bismarkbrjóstsykur

Skraut

 • grófmulinn bismarkbrjóstsykur

Myljið bismarkbrjóstsykurinn í smáa bita.

Hrærið eggjarauður og flórsykur saman í skál þar til blandan verður ljós og létt.

Stífþeytið rjóma og vanillusykur í annari skál. Hrærið stífþeyttum rjómanum saman við eggjarauðublönduna með sleif og bætið bismarkbrjóstsykrinum út í.

Setjið blönduna í form og frystið í amk 5 klst áður en ísinn er borinn fram. Skreytið með grófmuldum bismarkbrjóstsykri.

Bismark ís