Blómkálssúpa

Blómkálssúpa

Mér þykir svo gott að vera með léttan kvöldverð annað slagið og þá koma súpur alltaf fyrst upp í hugann. Ég elska allt við þær, nýt þess að elda þær og finnst þær vera léttar og góðar í maga. Mér þykir þó nauðsynlegt að bera súpur fram með góðu brauði, helst nýbökuðu með stökkri skorpu. Ég baka yfirleitt New York Times-brauðið þegar ég ætla að bjóða upp á brauð með mat, enda þykir okkur það dásamlega gott og það tekur nákvæmlega enga stund að útbúa það. Hráefnið er svo einfalt að það er alltaf til í skápnum og það eina sem þarf að huga að er að hræra í deigið kvöldinu áður. Ég veit ekki hversu oft ég hef læðst fram úr rúminu, kveikt ljósin í eldhúsinu og hrært í deigið áður en ég fer aftur í rúmið, því að ég áttaði mig allt í einu á því að það stóð súpa á matseðlinum daginn eftir. Stundum gleymi ég mér þó alveg og þá er málunum reddað á annan hátt.

Blómkálssúpa

Þessi uppskrift kemur úr The Pioneer Woman cooks, Food From My Frontier. Ég hef áður birt æðislega uppskrift úr þessari bók (þú finnur hana hér) og þessi var ekki síðri. Það er engin furða að bókin var ein af mest seldu matreiðslubókum í Bandaríkjunum 2013 því uppskriftirnar virðast hver annarri betri.  Þessi blómkálssúpa er æðisleg en það var ekki fyrr en ég hellti vökvanum í pottinn sem ég áttaði mig á því hvað uppskriftin er stór. Hún er fyrir 10-12 manns og við vorum þrjú í mat! Ég náði sem betur fer að bjóða vinkonu Malínar til að borða með okkur og restina setti ég í nokkur nestisbox og inn í frysti. Það hentar mér mjög vel að geta gripið súpubox úr frystinum á morgnana til að eiga sem nesti í hádeginu og krökkunum að geta hitað sér hana þegar þau koma svöng heim.

Blómkálssúpa Pioneer Woman (lítillega breytt uppskrift fyrir 10-12)

 • 110 g smjör
 • 1/2 laukur, fínhakkaður
 • 1 gulrót, skorin í litla teninga
 • sellerý (ég sleppti því), skorið í litla teninga
 • 1 blómkálshaus, grófhakkaður
 • 8 bollar vatn
 • 2 grænmetisteningar
 • 1 kjúklingateningur
 • 6 msk hveiti
 • 2 bollar mjólk
 • 1 bolli matreiðslurjómi
 • salt og pipar
 • 1 stútfullur bolli sýrður rjómi

Bræðið 55 g af smjöri yfir miðlungshita í rúmgóðum potti. Setjið laukinn í pottinn og steikið (eða kannski öllu heldur sjóðið) í smjörinu þar til hann er mjúkur og gegnsær, það tekur um þrjár mínútur. Bætið gulrót og sellerý í pottinn, hrærið saman við laukinn og steikið í tvær mínútur til viðbótar. Bætið blómkáli saman við, hrærið vel í pottinum, setjið lok á hann og látið sjóða við mjög vægan hita í 15 mínútur. Setjið vatn, kjúklinga- og grænmetisteninga í potttinn og látið sjóða í 10 mínútur.

Á meðan súpan sýður er útbúin einföld hvít sósa. Bræðið það sem eftir var af smjörinu (55 g) í potti yfir miðlungsháum hita og hrærið síðan hveitinu saman við. Látið sjóða við vægan hita í 2 mínútur og hrærið síðan mjólkinni saman við í smáum skömmtum. Takið pottinn af hitanum og hrærið matreiðslurjómanum saman við.

Hrærið hvítu sósunni út í blómkálssúpuna, látið suðuna koma upp og smakkið til með salti og pipar. Látið súpuna sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur. Hún mun þykkna örlítið á meðan hún sýður.

Þegar súpan er borin fram er sýrði rjóminn settur í botn á súpuskál og súpunni hellt yfir. Þar sem við vorum svo fá í mat þá setti ég  væna skeið af sýrðum rjóma í botninn á súpuskálunum okkar og svo settum við súpuna yfir. Það er síðan hrært varlega í súpunni þannig að sýrði rjóminn blandist vel við hana. Berið fram með góðu brauði.

 

Blómkálssúpa með beikoni

Blómkálssúpa með beikoni Það virðist við hæfi að kveikja á kertum og hlýja sér við eldhúsborðið yfir góðri súpu í þessu fárviðri. Reyna að gera það besta úr stöðunni og hafa það notalegt heima fyrir með því að elda mat, horfa á góðar bíómyndir og taka í spil. Blómkálssúpa með beikoni Krakkarnir fá ekki nóg af blómkálssúpu (uppáhalds uppskriftin er hér) og ég elda hana ansi oft, enda bæði ódýr og góð máltíð. Mér þykir þó alltaf svo spennandi að prófa nýjungar og þegar ég rakst á þessa uppskrift á sænsku matarbloggi var ég fljót að setja hana á matseðilinn. Blómkálssúpa með beikoni Verður ekki allt aðeins betra með beikoni? Ég er farin að hallast að því. Mér þótti beikonið lyfta soðna fiskinum upp á hærra plan (uppskrift hér) og ekki var það síðra með blómkálssúpunni. Súpan ein og sér er líka sérlega bragðgóð. Dásamlega góð máltíð sem vert er að prófa. Blómkálssúpa með beikoni

 • 1 blómkálshaus
 • 1 lítill laukur
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 grænmetisteningur
 • 3 dl vatn
 • 3 dl rjómi
 • 2 dl sýrður rjómi
 • salt og pipar
 • beikon

Skolið og skerið blómkálið í bita. Afhýðið og fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið ólívuolíu við miðlungshita í rúmgóðum potti og steikið lauk og hvítlauk þar til laukurinn er orðinn mjúkur og glær. Hellið vatni, rjóma, sýrðum rjóma, grænmetisteningi og blómkáli í pottinn og látið suðuna koma upp. Látið sjóða þar til blómkálið er orðið mjúkt. Maukið súpuna með töfrasprota þar til hún er slétt (má sleppa). Smakkið til með salti og pipar.

Skerið beikonið í bita og steikið þar til það er stökkt. Berið beikonið fram með súpunni.