Mexíkóskur mangókjúklingur

Mér þykir svo gaman að vera með góðan mat á föstudögum og notalegt að byrja helgarfríið á að sitja lengi saman yfir kvöldmatnum. Helst á maturinn að vera þannig að það sé ekki hægt að hætta að borða og að það sé verið að narta allt kvöldið. Ef ég er t.d. með pizzur þá er gengið frá eftir matinn en afgangurinn af pizzunni látinn standa áfram á borðinu. Það er síðan verið að skera sér bita allt kvöldið. Það finnst mér notalegt.

Ég er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig mat ég vil hafa á föstudagskvöldum og suma rétti myndi ég alls ekki hafa. Mér þykir t.d. mexíkóskur matur, pizzur og kjúklingur vera ekta föstudagsmatur á meðan t.d. lambalæri, fiskur og grjónagrautur eru það alls ekki. Ég get ekki útskýrt af hverju, svona er þetta bara, en sitt sýnist hverjum.

Í gærkvöldi var ég með ekta föstudagsmat, kjúklingabringur í mexíkóskri mangósósu með hrísgrjónum og góðu salati, sem var að mínu mati fullkomin byrjun á helgarfríinu.

Mexíkóskur mangókjúklingur

  • 4 kjúklingabringur
  • 2-3 tsk tacokrydd
  • 250 gr frosið niðurskorið mangó
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 1,5 msk fljótandi kjúklingakraftur eða 1 ½ teningur
  • 2 rauðar paprikur

Hitið ofninn í 200°. Kljúfið kjúklingabringurnar á lengdina. Saltið og piprið og veltið þeim upp úr tacokryddinu. Leggið í smurt eldfast mót.

Blandið mangó, sýrðum rjóma og kjúklingakrafti saman með töfrasprota. Hellið blöndunni yfir kjúklinginn. Skerið paprikuna smátt og stráið yfir. Bakið í ofninum í ca 25 mínútur.

Berið réttin fram með hrísgrjónum og góðu salati með t.d. tómötum, rauðlauk, papriku, avokadó, fetaosti og muldum nachosflögum með kjúklingnum.

15 athugasemdir á “Mexíkóskur mangókjúklingur

    1. Ég læt mangóið standa aðeins áður en ég mauka það, bara rétt á meðan ég sker niður kjúklinginn og tíni allt til. Það nær þó ekki að þiðna.
      Kveðja, Svava.

  1. ég eldaði þennann rétt í vikunni ,hann var alldeilis frábær ,eg er matráður með 30 mans í mat og nota mikið vefinn ykkar og það vekur altaf lukku. Takk kærlega fyrir að deila þessu til okkar.

  2. Gerdi tetta ikvöld – notadi ferskt mango af tvi eg sa i budinni ad 2 stk kostudu 10 kr.. Get sagt ad eg hlakki nu til ad borda afganginn a morgunn, namminamm.
    Til hamingju annars med melodifestivalsigurinn einu sinni enn!!!- synd ad keppnin verdur i malm.

  3. Þetta er ekkert smá grinilegt og væri til í að prófa, væri einhvað vera að nota venjulegan rjóma? Ein á heimilinu með mjólkuróþol og það er ekki til lactosa frír sýrður rjómi en það er til venjulegur rjómi lactósa frír.

Færðu inn athugasemd