Mér finnst svo notalegt að eiga heimabakaða snúða í frystinum sem hægt er að laumast í og hita með kaffinu. Ég á þá samt sjaldnast lengi því hér klárast þeir alltaf eins og skot. Ég baka oft sænska kanelsnúða en þegar ég sá uppskriftina að þessum vanillusnúðum þá bara varð ég að prófa. Þeir voru æðislega góðir og hurfu allt of fljótt.
Uppskriftina fann ég á sænsku matarbloggi. Hún er mjög stór, ca 60-70 snúðar, en mér finnst alveg eins gott að gera vel af þeim fyrst ég er að þessu á annað borð. Ef þið ætlið að frysta snúðana þá er best að setja þá í plastpoka á meðan þeir eru heitir, loka vel fyrir og frysta strax. Það má síðan taka þá út eftir behag og hita í stutta stund í örbylgjuofninum.
- 2 pakkar þurrger
- 350 gr smjör
- 10 dl nýmjólk
- 4 dl sykur
- 2 tsk góður vanillusykur
- smá salt
- 2,5 – 3 lítrar hveiti
Fylling
- 5 eggjarauður
- 2-3 dl sykur
- 300 gr smjör við stofuhita
- 4 tsk góður vanillusykur
Bræðið smjör og bætið síðan mjólkinni í pottinn og hitið að 37°. Setjið gerið í skál og hellið hluta af mjólkurblöndunni yfir og leyfið gerinu að taka við sér. Bætið restinni af mjólkurblöndunni saman við ásamt hveiti, sykri, salti og vanillusykri. Passið að setja ekki of mikið hveiti því þá verða snúðarnir þurrir. Leyfið deiginu að hefast á hlýjum stað í ca 1 klst. Ef þú gerir hálfa uppskrift dugar að leyfa því að hefast í 30 mínútur.
Á meðan deigið er að hefast getur þú gert fyllinguna. Hrærið saman eggjarauðum, sykri, vanillusykri og smjöri við stofuhita. Það má líka byrja að raða formum á ofnplötu.
Þegar deigið hefur hefast er því skipt í 4-6 hluta. Fletjið einn hluta út í einu, smyrjið á hann vanillukreminu og alls ekki spara það, snúðarnir verða bara gómsætari með vel af fyllingunni. Rúllið deiginu upp, skerið í sneiðar og leggið í fomin. Leyfið snúðunum að hefast í ca 30-40 mínútur. Það er mikilvægt að leyfa þeim að hefast þennan tíma til að þeir verði léttir í sér.
Rétt áður en snúðarnir fara í ofninn eru þeir penslaðir með hrærðu eggi og stráð perlusykri yfir. Bakið í 200-225° heitum ofni í ca 10-12 mínútur.
Hvernig snýrðu upp á snúðana,og hvar læt urðu deigið hefast?Mjög girnilegir og ætla að prófa;)
Ég flet deigið út og smyr fyllingunni á það. Eftir það brýt ég deigið saman á langveginn og sker það í ca 2-3 cm renninga. Ég sker síðan hvern renning í tvennt en læt þá hanga saman á endanum, þetta lítur þá út eins og buxur. Ég sný síðan bara upp á hverja „buxnaskálm“ og sný þeim síðan saman. Vonandi er þetta skiljanlegt hjá mér. Ég skal taka myndir næst þegar ég baka snúða 🙂
Á ofninum mínum er prógram til að láta gerdeig hefast og ég nýti það óspart. Hann hitar sig þá í 40° og deigið hefast mjög vel við það.
Sæl, þetta eru bestu snúðar sem ég hef bakað, engin spurning og æðislegt að frysta heita og borða síðar.
Ein spurning, hvar fékkstu sænska perlusykurinn? Ég notaði þennan danska og það er ekki eins smart.
Ég keypti sænska perlusykurinn í Svíþjóð. Hef alltaf keypt vel af honum þegar ég fer þangað því ég hef ekki fundið hann hér. Er alveg sammála þér, sænski sykurinn er mikið smartari 🙂