Sveppapasta

Sveppapasta

Mér stóð fullur vilji til að blogga í gær en þegar til kastanna kom þá neitaði tölvan allri samvinnu. Nú er hún komin í viðgerð hjá Apple og ég vonast til að fá hana sem fyrst aftur því hennar er sárlega saknað.

Það varð því hálfgerður vandræðagangur á mér í gær og ég vissi ekki hvernig ég ætti að snúa mér í tölvuleysinu. Vissulega gæti ég bloggað úr símanum eða ipadnum en ég veit ekki hvernig ég set myndirnar þá inn. Ég ákvað því að leggjast undir feld og sofa á vandamálinu. Í morgun þegar ég vaknaði var lausnin svo augljós að ég skil ekki af hverju ég sá hana ekki strax.  Til að gera langa sögu stutta þá hef ég núna komið mér fyrir í meyjarskemmunni í borðtölvunni sem Malín fékk að taka yfir um árið. Ég gæti vel vanist því að blogga héðan, umvafin bleikum veggjum með myndum eftir Lovisu Burfitt, ilmvatnsglösum og  pjattrófubókum, og það er ekkert víst að ég fari þegar ég fæ tölvuna mína aftur.

Sveppapasta

Við vorum með einfaldan og fljótgerðan pastarétt í gær sem var mjög góður. Jakob hjálpaði til en hann er sá sem sýnir eldamennskunni mestan áhuga af börnunum og skottast iðulega í kringum mig í eldhúsinu. Í gær skar hann sveppina og laukinn, hrærði í pönnunni og smakkaði sósuna til. Við vorum sammála um að það hefði vel til tekist og borðuðum af bestu lyst. Með pastanu bárum við fram nýbakað New York-Times brauð sem ég hef svo oft talað um á hér á blogginu. Í gær bragðbættum við það með parmesan- og basilikusaltinu frá Nicolas Vahé sem fór vel með pastaréttinum.

Sveppapasta (uppskrift úr Sweet Paul magazine)

  • 250 g sveppir
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk ólívuolía
  • ½ bolli vatn
  • 1 ½ bolli rjómi
  • 1 kjúklingateningur
  • gott salt og nýmalaður pipar

Sjóðið spaghetti fyrir 4-5 samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu.

Skerið sveppina í tvennt, saxið laukinn og hvítlaukinn. Hitið 2 msk ólívuolíu á pönnu og látið sveppina og laukana steikjast við miðlungsháan hita (ég notaði stilligu 7 af 9) þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Hellið vatni og rjóma yfir og setjið kjúklingatening út í. Látið sjóða við vægan hita í 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipari.

Hellið vatninu af spaghettíinu (geymið ca ½ bolla af vatninu) og blandið spaghettíinu saman við sveppasósuna. Setjið smá af spaghettívatninu saman við og hrærið vel saman.

Berið fram með ferskrifnum parmesan osti og brauði.

Sveppapasta

12 athugasemdir á “Sveppapasta

  1. Hljómar unaðslega – á öll innihaldsefnin, svo það er mjög tilvalið að prófa þetta annað kvöld! 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s