Fræhrökkbrauð

Fræhrökkbrauð

Ég kíki örstutt inn í kvöld eftir frábæra helgi. Á laugardagsmorgninum vöknuðum við Gunnar og ákváðum að kíkja saman í bæinn. Við röltum um Laugarvegin og Skólavörðustíg, keyptum ullarsokka í Geysi og glugguðum í bækur í Eymundsson. Þegar við komum heim beið mín óvissuferð sem Öggi og Óli, maður Ernu vinkonu minnar, höfðu skipulagt. Þegar þeir tveir taka sig saman er útkoman alltaf ævintýraleg og í þetta sinn enduðum við á hóteli í Borgarfirði, með viðkomu á kaffihúsi í Borgarnesi og kvöldverði á Landnámssetrinu. Ferðin var æðisleg, það var mikið hlegið, allt of mikið borðað og allir komu endurnærðir heim.

Ég hef því lítið verið í eldhúsinu yfir helgina og þegar við komum heim gerði ég kjúklingasúpu sem mig er búið að langa í síðustu dagana.  Á föstudagskvöldinu fengum við okkur hins vegar osta og ég gerði fræhrökkbrauð sem við borðuðum með. Æðislega gott, bæði eitt og sér (eins og sumir völdu að borða það) og á ostabakkann.

Fræhrökkbrauð

Fræhrökkbrauð

  • ½ dl sólblómafræ
  • ½ dl sesamfræ
  • 3/4 dl hörfræ
  • ½ dl graskersfræ
  • ½ tsk salt
  • 1 dl maizenamjöl
  • ½ dl rapsolía (repjuolía)
  • 1 ½ dl sjóðandi vatn

Blandið saman sólblómafræjum, sesamfræjum, hörfræjum, graskersfræjum, salti og maizenamjöli í skál. Hellið rapsolíu og sjóðandi vatni yfir og hrærið saman. Hellið grautnum á bökunarpappírsklædda ofnskúffu. Breiðið þunnt út og stráið maldonsalti (eða öðru grófu salti) yfir.  Bakið við 150° í 1 klst. Slökkvið á ofninum og látið fræhrökkbrauðið standa áfram í ofninum í 15 mínútur. Takið út úr ofninum og látið kólna. Brjótið í passlega stóra bita.

12 athugasemdir á “Fræhrökkbrauð

    1. Ég hef ekki prófað að nota ólífuolíu en get ekki ímyndað mér annað en að það komi vel út. Endilega segðu mér hvernig það heppnast ef þú prófar 🙂

  1. Takk fyrir skemmtilega matarsíðu, ég fylgist alltaf grannt með og hef prófað ýmislegt gott! Geturðu sagt mér hvar maður fær raspolíu? Ég var í Hagkaupum í Skeifunni í gær og fann hana ekki þar.

    1. Sæl Þóra og takk fyrir kommentið. Rapsolíu (eða Repjuolíu eins og hún heitir víst á íslensku) hef ég verið að kaupa í Bónus. Ég hefði þó verið viss um að hún ætti að fást í Hagkaup líka. Ég hef aldrei verið í vandræðum með að fá hana þannig að prófaðu að athuga í olíuhillunni næst þegar þú ferð út í búð 🙂
      Bestu kveðjur, Svava.

  2. Er búin að prófa þessa uppskrift margoft, þetta er sjúklega gott!!Ég reyndar sleppi að setja salt í uppskriftina (finnst hún verða of sölt)strái bara smá grófu salti yfir. Er farin að margfalda þessa þegar að ég geri hana 🙂

Skildu eftir svar við Svava Hætta við svar