Eftir bolludag og sprengidag í beinu framhaldi mætti kannski ætla að enginn hefði áhuga á bollum í neinu formi á næstunni en ég þori nánast að fullyrða að þessar kjötbollur fá ykkur til að skipta um skoðun. Þær eru guðdómlegar! Ég hef bæði boðið upp á þær í matarboði sem og lífgað upp á hversdagsleikann með þeim, alltaf við rífandi lukku. Með þessum verður enginn fyrir vonbrigðum!
Kjötbollur með mozzarella og basiliku (uppskrift frá Matplatsen)
- 600 g nautahakk eða blanda af nauta- og svínahakki
- 1 poki með mozzarella
- 1/2 pakkning fersk basilika
- 4 sólþurrkaðir tómatar
- 1 dl rjómi
- 1 egg
- salt og pipar
- smör til að steikja í
Sósa:
- steikingarsoð
- 2 dl rjómi
- 100 g philadelphiaostur
- 1/2 grænmetisteningur
Blandið hakki, eggi, rjóma, hakkaðri basiliku, hökkuðum sólþurrkuðum tómötum og mozzarella skornum í litla teninga. Saltið og piprið og mótið bollur.
Steikið bollurnar við miðlungsháan hita, í nokkrar mínútur og á öllum hliðum, í vel af smjöri. Takið bollurnar af pönnunni og hrærið rjóma, philadelphia og grænmetisteningi í steikingarsoðið. Látið suðuna koma upp og leggið síðan bollurnar í sósuna. Látið sjóða við vægan hita þar til bollurnar eru fulleldaðar. Verði sósan of þykk þá er hún þynnt með vatni.
Æðislega ljúffengar, takk kærlega!
Gaman að heyra! Takk fyrir að segja mér frá 🙂
>
Ég hef ekki tölu á því hversu margar uppskriftir frá þér ég hef gert, á stuttum tíma, og allar slá þær í gegn! Í kvöld gerði ég þessa uppskrift og almáttugur hvað þær voru ljúffengar! Hef aldrei nokkurn tíman bragðað betri kjötbollur!! 🙂
Takk fyrir mig og takk fyrir allar snilldar uppskriftirnar þínar og myndirnar sem selja mér þetta í hvert skipti 😉
Kveðja,
Magnea
Þúsund þakkir fyrir yndislega falleg orð ❤
Algjörlega frábaerar kjötbollur, slógu í gegn hér. Takk fyrir frábæra síðu:)
Bestu bollur sem við gerum okkur, takk fyrir kærlega 😀