Ég gæti vel lifað á súpum og ber þær á borð hér í hverri viku. Bæði þykir mér gaman að elda þær sem og mér þykir eitthvað notalegt við að setjast niður með heita súpu og gott brauð þegar það er kallt úti. Þess að auki eru þær ódýr og fljótgerður matur sem upplagt er að frysta í einstaklingsskömmtum til að eiga í nesti.
Þessi tómatsúpa er sú langbesta sem ég hef smakkað. Hráefnið er oftast til í skápnum og ég get haft hana á borðinu korteri eftir að ég kem heim. Ódýr og barnvæn máltíð sem hittir í mark hjá öllum aldurshópum.
Tómatsúpa með pasta (uppskrift fyrir 3-4)
- 2 dl ósoðið pasta
- 1 dós Hunt´s hakkaðir tómatar með basiliku, hvítlauk og oreganó (411 g)
- 1 ½ dl vatn
- ½ laukur, hakkaður
- 1 hvítlauksrif, pressað
- 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
- 1 grænmetisteningur
- 1 ½ tsk þurrkuð basilika
- 1 tsk sykur
- salt og pipar
Sjóðið pastað í vel söltu vatni (verið óhrædd við að nánast missa saltstaukinn í vatnið) og skolið síðan í köldu vatni.
Hakkið og steikið laukinn við vægan hita þar til hann er orðinn mjúkur en ekki farin að brúnast. Bætið öllum öðrum hráefnum fyrir utan pastað saman við og látið sjóða í 10 mínútur. Smakkið til og bætið pastanu í súpuna. Berið fram með ferskrifnum parmesan og góðu brauði.
Sæl, er örugglega ekki nema 1 og 1/2 dl. af vatni í þessari uppskrift?
Já, bara 1 1/2 dl. (alveg satt!) 🙂 Uppskriftin gefur um 700 ml. af súpu og pastað gerir hana matarmeiri. Sé hún borin fram með brauði dugar hún fyrir 4, annars 3 🙂
>
Takk, ég ætla að prófa þessa í kvöld 🙂
Gerði hana í gær og meira að segja antisúpumaðurinn 16 ára lét sér vel líka
En gaman að heyra!
>
Við vorum með þessa í kvöld og hún sló í gegn! Meira að segja 4 ára sonurinn sagðist elska þessa súpu og bað um meira en það gerist ekki oft 🙂 Ég setti 2 dl vatn og aðeins meira pasta og þeir sem vildu gátu sett meira af því út í.
Takk kærlega fyrir þessa uppskrift 🙂
Það er alltaf svo gaman þegar uppskriftirnar hitta í mark hjá allri fjölskyldunni. Takk fyrir að segja mér frá 🙂
Prófaði þessa súpu og mæli eindregið með henni .Þetta er ekki mögulega besta tómatsúpa heldur er hún besta tómatasúpan sem ég hef smakkað ,einföld, ódýr og góð 😉 Takk fyrir mig
Kveðja
Bjarney
Takk fyrir falleg orð ❤
Takk fyrir allar frábæru uppskriftirnar sem þú deilir með okkur. Hef prófað margar. Langar þó mikið að vita hvar þú fékkst diskamotturnar sem eru á myndunum ? Finnst þær frekar flottar !
Kveðja – Guðrún
Ég prófaði þessa súpu nýlega og öllum fannst hún mjög góð, meirað segja Unnur (8 ára) borðaði súpuna 🙂 – sem er óvenjulegt. Ég setti meira vatn í hana, og lét pastað sjóða í súpunni síðustu mínúturnar (makkarónur) í stað þess að sjóða það sér fyrst, og svo hafði ég ferska basilku því ég hafði hana við hendina.
Mjög góð súpa !
Gaman að heyra 🙂 Takk fyrir að segja mér frá!
Ég verð eiginlega að skilja hér eftir kveðju því þessi einfalda, fljótlega en á sama tíma ljúffenga tómatsúpa hefur nokkrum sinnum bjargað mér þegar ég hef ekki haft tíma til að elda matinn en samt viljað búa til eitthvað gott sem allir í fjölskyldunni eru ánægðir með. Kvöldið í kvöld var einmitt svoleiðis. Takk fyrir að deila þessari uppskrift 🙂