Það er alltaf pláss í uppskriftabókinni fyrir fljótlega rétti sem bragðast eins og veislumatur. Þessi pastaréttur er nákvæmlega þannig og hentar því frábærlega þegar von er á saumaklúbbnum eða matargestum og allt er í hershöndum.
Dásamlega góður pastaréttur sem stendur alltaf fyrir sínu. Ég ber hann einfaldlega fram með hvítlauksbrauði og ferskum parmesan sem hver og einn rífur yfir diskinn sinn. Súpergott!
Pasta með kjúklingi, sólþurrkuðum tómötum og basiliku (uppskrift fyrir 4)
- 400 g tagliatelle
- 600 g kjúklingabringur
- 1 laukur, hakkaður
- 8 sólþurrkaðir tómatar
- 1 dl vatn
- 1 kjúklingateningur
- 2 dl rjómi
- 0,5 msk þurrkuð basilika
- salt og pipar
- 2 dl parmesanostur, rifinn
Sjóðið pastað. Skerið kjúklinginn í strimla og steikið á pönnu ásamt hökkuðum lauk og tómötum. Bætið vatni, kjúklingateningi og rjóma á pönnuna og látið sjóða saman í 5 mínútur. Smakkið til með basiliku, salti og pipar.
Hellið vatninu af pastanu. Hrærið pastanu og parmesan saman við kjúklingasósuna og hrópið gjörið þið svo vel! Berið fram með ferskrifnum parmesan og hvítlauksbrauði.
Takk fyrir þessa uppskrift – en værirðu ekki til í að gefa mér upp hvernig þú útbýrð brauðið – það lítur svo ljómandi vel út 🙂 Bkv. Ragnheiður
Jú, það skal ég sko gera! Uppskriftin var einföld og kom úr Bon Appetit blaði. Skal setja hana inn við fyrsta tækifæri 🙂
mmm þessi var mjög góður, á klárlega eftir að gera hann aftur. Einfaldur, fljótlegur og ógó góður 🙂