Ég sit hér heima undir teppi með beinverki og reyni hvað ég get að verða ekki veik. Malín er búin að vera veik í rúma viku og enn eru engin batamerki (hún var síðast hjá lækni í gær sem staðfesti að um mjög slæma vírussýkingu væri að ræða). Greyið er að missa svo mikið úr skólanum en hún hefur verið samviskusöm og náð að skila öllum verkefnum þrátt fyrir allt.
Á föstudaginn ætla ég í frí og því hentar mér sérlega illa að leggjast í flensu núna. Eins á ég von á ljósmyndara hingað í kvöld til að taka mynd af mér fyrir Viðskiptablaðið út af smá viðtali sem verður við mig þar. Sá á ekki auðvelt verkefni fyrir höndum! Helst langar mig bara til að draga teppið yfir þrútnu kvefaugun og biðja ljósmyndarann vel að lifa.
Ég ætla að nýta daginn í að hvíla mig, finna mér bækur til að lesa í fríinu og gefa ykkur uppskrift að æðislegum snickersbitum sem tekur enga stund að gera en hverfa því miður allt of fljótt í mannskapinn. Og fyrst ég er í bókapælingum ætla ég líka að mæla með tveimur bókum sem ég las í sumar, Konan í lestinni eftir Paulu Hawkins (#1 New York Times bestseller) og Ég fremur en þú eftir Jojo Moyes (ég las hana á sænsku, sem útskýrir sænska titilinn) sem er líka New York Times bestseller með yfir 5 milljón seld eintök. Þær eru ólíkar en ég hafði gaman af þeim báðum. Þriðja bókin á myndinni, The Power of Now eftir Eckhart Tolle, er alltaf á náttborðinu mínu og mætti eflaust vera á flestum náttborðum.
Snickersbitar
1 krukka hnetusmjör ca 350g
1 1/2 dl sýróp
1 dl sykur
9 dl cornflakes
1 tsk vanillusykur
1 dl kókosmjöl
2 pokar dökkur hjúpur (hjúpdropar, samtals 300 g)
Bræðið hnetusmjör, sýróp og sykur saman í potti. Blandan á bara að bráðna saman en ekki sjóða. Blandið cornflakes, kókosmjöli og vanillusykri saman í skál. Blandið öllu saman og þrýstið í botn á smjörpappírsklæddu skúffukökuformi. Látið kólna. Bræðið súkkulaðið og setjið yfir. Látið harðna og skerið síðan í lekkera bita.
Hvernig hnetusmjör notaru?
Hvernig ætli þetta komi ut með möndlusmjöri? Palli einn i heiminum herna og borða ekki hnetusmjör :/.