Súpergott tacogratín!

Súpergott tacogratín!

Það má eflaust halda að það að vera matarbloggari sé nokkuð hættulaust starf. Ég get þó upplýst ykkur um að ég lagði líf mitt í hættu við að mynda þennan rétt. Á meðan krakkarnir biðu full tilhlökkunar að smakka á þessari nýju útfærslu af tacogratíni (sem er með því besta sem við vitum!) var ég, eins og svo oft áður, að álpast við að taka mynd af réttinum fyrir bloggið. Eitthvað hallaði ég stólnum sem ég sat á aftur til að ná betri mynd sem fór nú ekki betur en svo að ég missti jafnvægið, með þeim afleiðingum að ég flaug á hausinn og fékk í leiðinni þrjá stóla yfir mig. Svipurinn á Malínu var óborganlegur, hún var að springa úr hlátri en þorði ekki fyrir sitt litla líf að láta það eftir sér að hlægja ef ske kynni að ég væri slösuð, sem ég var ekki. Ég fékk þó myndarlegan marblett sem gaf okkur regluleg hlátursköst í heila viku.

Súpergott tacogratín!

Rétturinn var alveg hreint dásamlega góður og krakkarnir elskuðu hann! Ég bauð upp á hann yfir Eurovision (sem við gátum varla horft á vegna þess að við vorum enn í hláturskasti yfir fallinu mínu) en mér þykir hann passa svo vel á föstudagskvöldum þegar öllum langar í eitthvað gott og ég vil eyða sem styðstum tíma í eldhúsinu. Ég keypti ferskt guacamole í Hagkaup (það fæst bara um helgar) sem ég bar fram með réttinum ásamt heitri ostasósu (keypti í glerkrukku) og nachos, en ferskt salat passar líka vel með. Ef það eru fullorðnir í mat er ekki úr vegi að bjóða upp á kaldan bjór með, eins og t.d. Corona með límónusneið í.

Súpergott tacogratín!

Að lokum fær myndin sem varð mér nánast að bana (engin dramatík) að fylgja með. Fókusinn hefur greinilega farið í vitleysu við fallið og lent á kertastjakanum í staðin fyrir matnum, sem er sko í fínu lagi mín vegna því mér þykir hann svo fallegur. Vänskapsknuten frá Svenskt tenn, sem hefur staðið á óskalistanum leeeengi og var keyptur í síðustu Stokkhólmsferð. Maður getur víst alltaf á sig kertastjökum bætt!

Súpergott tacogratín!

Tacogratín

  • 1 laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 500 g nautahakk
  • 1 bréf tacokrydd (28 g)
  • 1 dl vatn
  • 1 krukka tacosósa (230 g)
  • 1 lítil dós maís (280 g)
  • 2-3  tómatar
  • 2 hnefafylli tortillaflögur
  • 1 askja texmex smurostur (250 g)
  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 2 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 225°.

Hitið pönnu og bræðið smá smjör á henni. Hakið laukinn og rífið hvítlauksrifið og steikið upp úr smjörinu þar til mjúkt og bætið þá nautahakkinu á pönnuna og steikið þar til fulleldað. Bætið tacokryddi, vatni og tacosósu á pönnuna og hrærið saman við nautahakkið. Bætið maísbaunum á pönnuna og látið allt sjóða saman við vægan hita í 5 mínútur.

Setjið nautahakksblönduna í eldfast form. Myljið tortillaflögurnar örlítið og hrærið þeim saman við nautahakksblönduna. Hrærið saman texmex smurosti og sýrðum rjóma og setjið yfi rnautahakkið. Skerið tómatana í bita og setjið yfir sýrðu rjómablönduna. Setjið að lokum rifinn ost yfir og stingið nokkrum nachosflögum ofan í. Setjið í ofninn í 15 mínútur. Berið fram með salati, guacamole, ostasósu og auka nachosflögum.

5 athugasemdir á “Súpergott tacogratín!

  1. Hvað er hægt að nota annað en gular? Vantar uppástungur 🙂 Má nefnilega ekki borða gular baunir.

    1. Þú getur notað hvað sem er eða hreinlega bara sleppt baununum. Mér dettur í hug rauð paprika, rauðlaukur eða/og hakkaðir tómatar. Bara það sem þér þykir gott!

Færðu inn athugasemd við Sigríður Baldursdóttir Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s