Salamibaka með fetaosti

Salamibaka með fetaosti

Ég er svo ánægð með að þriðja sería af Skam er komin inn á RÚV og get ekki beðið eftir að sjá hana. Eruð þið búin að horfa á þessa þætti, sem hafa orðið svo vinsælir að rauðir varalitir rjúka úr hillum verslana og unglingar um alla Skandinavíu eru farnir að sletta á norsku? Við horfðum á fyrstu tvær seríurnar á einu bretti og höfum síðan beðið spennt eftir þeirri þriðju. Núna er hún loksins komin inn á RÚV með íslenskum texta. Besta sem við höfum séð í langan tíma!

Salamibaka með fetaosti

Ég má til með að gefa uppskrift af æðislegri böku sem við vorum með í kvöldmat um daginn. Ég bar hana fram með salati sem ég setti bæði olíu af fetaostinum og smá balsamik gljáa yfir. Ég ætlaði ekki að geta hætt að borða. Léttur kvöldverður og ef heppnin er með þér og það verður afgangur þá passar bökusneið vel í hádeginu daginn eftir. Súpergott!

Salamibaka með fetaosti

Salamibaka með fetaosti

Botninn:

 • 3 dl hveiti (eða hveiti og heilhveiti til helminga)
 • 125 g smjör
 • 2 ½ msk kalt vatn

Skerið smjörið niður og setjið í skál ásamt hveitinu. Látið skálina standa í smá stund svo smjörið mýkist aðeins. Blandið saman með höndunum eða handþeytara. Bætið köldu vatni saman við og vinnið saman í slétt deig. Þrýstið deiginu i botn á bökuformi (eða lausbotna kökuformi) og stingið með gaffli yfir botninn. Látið standa í ísskáp í 20 mínútur, eða á meðan fyllingin er útbúin.

Salamibaka með fetaosti

Fylling:

 • 1 rauðlaukur (eða 1 lítill púrrulaukur)
 • 1 hvítlauksrif
 • um 120 g salami
 • 150 g fetaostur
 • 250 g kirsuberjatómatar
 • ½ dl fersk hökkuð basilika eða 1 msk þurrkuð
 • 2 dl rifinn ostur
 • 3 egg
 • 2 ½ dl rjómi
 • ¾ tsk salt
 • smá af svörtum pipar

Fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið lauk og hvítlauk í smjöri þar til mjúkt. Takið af pönnunni og leggið til hliðar.

Skerið salami í strimla, fetaostinn í teninga (ef notaður er fetakubbur) og tómatana í tvennt. Ef notuð er fersk basilika þá er hún hökkuð.

Takið bökubotninn úr ísskápnum og setjið lauk og hvítlauk yfir hann. Setjið þar á eftir salami, fetaost, tómata og basiliku yfir. Stráið rifnum osti yfir.

Hrærið saman eggjum, rjóma, salti og pipar. Hrærið saman þar til blandan er slétt. Hellið blöndunni yfir bökuna. Bakið í neðri hluta ofnsins við 200° í um 40 mínútur eða þar til bakan hefur fengið fínan lit. Berið fram með salati.

Salamibaka með fetaosti

2 athugasemdir á “Salamibaka með fetaosti

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s