Satay-kjúklinganúðlur

Dagurinn hefur verið hinn ljúfasti í alla staði. Við erum búin að fara í afmæli, gera vikuinnkaupin, horfa á sjónvarpið og vera í algjörum rólegheitum. Okkur langaði í eitthvað gott í kvöldmat og ég endaði á að elda enn einn réttinn úr Jamie Oliver ársblaðinu, satay-kjúklinganúðlur.

Þetta blað fer að vera með betri kaupum sem ég hef gert í matreiðslublöðum. Það virðist sama hvað ég elda úr því, allt hefur verið ljómandi gott. Okkur þóttu þessar satay-kjúklinganúðlur alveg stórgóðar og kláruðum þær upp til agna.

Ég veit ekki hvað gerðist hjá mér í matvörubúðinni í dag því ég gleymdi að kaupa tvennt af innkaupalistanum og bæði hráefnin voru fyrir þessar kjúklinganúðlur, baunaspírur og vorlaukur. Ég nennti ómöglega að fara aðra ferð í búðina og sleppti þeim því bara. Það kom ekki að sök en næst mun ég hafa þau með.

Satay-kjúklinganúðlur (uppskrift fyrir 2-3)

  • jarðhnetuolía (ég notað vegetable oil)
  • 1 laukur, skorin í þunna báta
  • 2 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 rautt chili, fræhreinsað og skorið í sneiðar
  • engiferbútur á stærð við þumal, rifið
  • 1 lemongrass (ég notaði hýði af hálfri sítrónu í staðin)
  • 3 kjúklingabringur, skornar í sneiðar
  • 50 gr crunchy hnetusmjör (rúmlega 3 msk)
  • 2 msk fiskisósa (fish sause)
  • 2 msk sojasósa
  • 1 msk sykur
  • 400 ml kókosmjólk (1 dós)
  • 200 gr núðlur
  • handfylli af baunaspírum
  • lime skorið í báta og vorlaukur til að bera fram með réttinum

Hitið olíuna á pönnu og steikið lauk, hvítlauk, rautt chili, engifer og sítrónuhýði þar til það byrjar að taka lit. Bætið kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið hnetusmjöri, fiskisósu, sojasósu, sykri og kókosmjólk á pönnuna og látið suðuna koma upp. Sjóðið við vægan hita í 5-10 mínútur.

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu. Blandið kjúklingnum saman við núðlurnar ásamt baunaspírunum. Berið fram með lime-bátum og vorlauk.

Djöflakjúklingur og heimagerðar franskar kartöflur

Dagurinn hefur verið æðislegur í alla staði. Reykjavíkurmaraþonið gekk vel hjá feðgunum og bræðurnir náðu að safna 306 þúsundum fyrir Neistann. Það veitir okkur mikla gleði að það hafi safnast svona mikill peningur fyrir Neistann, félag sem stendur okkur nærri og okkur þykir svo vænt um.

Eftir að hafa eytt deginum í bænum komum við heim og ég eldaði Djöflakjúkling með heimagerðum frönskum kartöflum í kvöldmat. Ég er komin með æði fyrir kryddblöndu í kvörn frá Jamie Oliver sem er með timjan, sítrónu og salti. Ég notaði hana á kartöflurnar og einfaldlega skar þær niður, steikti aðeins á pönnu, lagði í ofnskúffu og kryddaði með saltblöndunni og pipar. Ég bakaði síðan kartöflurnar í ofninum með kjúklingnum.

Í uppskriftinni af Djöflakjúklingnum á að vera brauðmylsna af franskbrauði en ég átti ekki franskbrauð og notaði Paxo brauðrasp í staðinn. Mér fannst ég þurfa mun meira af honum en 1 bolla og var stöðugt að bæta meiri raspi í skálina.

Djöflakjúklingur (uppskrift frá Bon Appétit)

  • 1 bolli hveiti
  • 3 tsk maldon salt
  • 1/4 tsk nýmalaður svartur pipar
  • 2 stór egg
  • 6 msk dijon sinnep
  • 1/2 tsk cayenne pipar
  • 1 bolli brauðmylsna af franskbrauði
  • 3 msk ólivuolía

Hitið ofninn í 190°. Blandið hveiti, 2 tsk af saltinu og svörtum pipar í skál.  Hrærið saman eggjum, dijon sinnepi og cayenne pipar í annari skál. Blandið saman brauðmylsnu og 1 tsk af saltinu saman í þriðju skálina.

Veltið kjúklingabringunum, einni í einu, upp úr hveitiblöndunni og hristið síðan bringuna þannig að auka hveiti falli af. Veltið bringunni næst upp úr eggjablöndunni og að lokum upp úr brauðmysnunni. Leggið bringuna á grind og endurtakið með afganginn af bringunum.

Hitið olíuna á pönnu yfir miðlungsháum hita. Leggið kjúklingabringurnar á pönnuna og steikið þar til hún fær fallegan lit, það ætti að taka um 2-3 mínútur. Snúið kjúklingabringunum við og færið pönnuna í ofninn. Bakið þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn, það ætti að taka um 12 mínútur. Ef þið eigið ekki pönnu sem má fara inn í ofn (ég á sjálf ekki þannig pönnu) þá steikið þið kjúklingabringunar eins á hinni hliðinni og leggið þær síðan í eldfast mót áður en þið setjið þær í ofninn.

Oreganokjúklingur og vettlingar

Ég hef aldrei skrifað bloggfærslu við eins fallegar aðstæður og núna. Við erum í Vestmannaeyjum og ég horfi yfir dalinn, byggðina, Heimaklett og út á haf. Mér finnst alltaf jafn yndislegt að koma hingað og það er að verða hefð hjá okkur að fara til Eyja á sumrin. Í gærkvöldi fórum við í sund fyrir kvöldmat og komum svo við í videóleigunni á leiðinni heim, leigðum 4 myndir og keyptum ársbyrgðir af nammi og snakki. Öggi og strákarnir eru að horfa á síðustu myndina, mynd sem strákarnir völdu. Mér líst ekkert á hana og sit því hér við tölvuna og ætla að gefa uppskrifina af kvöldmatnum hjá okkur í gær.

Áður en við lögðum af stað hingað leist okkur ekkert á veðurspána en núna þegar við erum á heimleið erum við sammála um að helgin hefði ekki verið svona róleg og notaleg ef við hefðum ekki fengið rigninguna. Við erum meðal annars búin að klára að lesa Hungurleikana, horfa á sjónvarpið, spila, blogga og prjóna. Prjónaverkefni helgarinnar voru þessir vetrarvettlingar fyrir Gunnar sem ég prjónaði úr afgangsgarni sem ég átti. Uppskriftin kemur úr bók eftir Kristínu Harðardóttur sem heitir Vettlingar og fleira.

Uppskrifina að kjúklingaréttinum fékk ég fyrir mörgum árum í blaði sem sænska matvörukeðjan Ica gefur út, Buffé. Þetta er einfaldur og fljótlegur réttur sem okkur þykir feiknagóður. Oregano og balsamik edik gefur réttinum mikið og gott bragð og okkur þykir gott að hafa baguette með til að dýfa í sósuna.

Oreganokjúklingur

  • 4 kjúklingabringur
  • 4 hvítlauksrif
  • smjör
  • salt og pipar
  • 5 dl matreiðslurjómi
  • 2 kjúklingateningar
  • 5-6 tsk ferskt eða þurrkað oregano
  • 2-3 msk balsamik edik

Skerið hverja kjúklingabringu í þrennt á lengdina. Takið hýðið af hvítlauksrifunum og hakkið þau fínt niður.  Steikið kjúklinginn upp úr smjöri á pönnu við miðlungsháan hita og saltið og piprið. Blandið matreiðslurjóma, kjúklingateningum, oregano og balsamik ediki saman í potti og látið suðuna koma upp. Bætið kjúklingnum og hvítlauknum út í og látið sjóða við vægan hita undir loki í ca 5 mínútur. Smakkið til og bætið ef til vill meiri oregano eða basamik ediki út í. Berið fram með ofnbökuðum kartöflum eða hrísgrjónum og salati. Okkur þykir líka gott að hafa baguette brauð með til að dýfa í sósuna því hún er mjög bragðgóð.

Orange Chicken

Þegar við fórum til Boston í fyrsta skipti féllum við fyrir rétt sem heitir Bourbon Chicken. Við fengum ekki nóg af honum og þegar við komum heim byrjaði ég strax að gúggla uppskriftir að réttinum og prófa mig áfram. Við borðuðum þennan rétt reglulega næstu árin og okkur fannst hann alltaf jafn góður.

Þegar við fórum aftur til Boston, þremur árum síðar, vorum við mjög spennt að fara og fá okkur Bourbon Chicken. Við fórum strax fyrsta kvöldið á veitingastaðinn en þegar við komum þangað bauð afgreiðslukonan okkur að smakka annan rétt, Orange Chicken. Við féllum í stafi, hann var æðislegur. Við pöntuðum okkur bæði Bourbon Chicken og Orange Chicken og vorum alveg sammála um að Orange Chicken hefði vinninginn. Það var síðan sama saga þegar við komum heim, ég fór á netið að leita að uppskriftum og fann helling. Gallinn var að þær voru allar svo ólíkar að ég vissi ekki hvar ég átti að byrja.

Stuttu síðar átti ég leið í Kost og mikið varð ég glöð þegar ég sá að þeir voru að selja tilbúnu Orange Chicken sósuna frá Panda Express. Ég keypti strax tvær flöskur og eldaði réttinn nokkrum sinnum handa okkur og vinum okkar. Rétturinn vakti alltaf lukku og þótti alveg stórgóður. Þegar ég ætlaði að fara að kaupa fleiri flöskur kom ég hins vegar að tómum kofanum því sósurnar voru búnar. Það virðist ekki hægt að ganga að sósunni vísri en af og til birtist hún í hillunum og síðast núna um daginn.

Þar sem mér finnst fátt eins ergilegt og að standa í verlsun leitandi að hráefni sem ég veit ekki hvernig lítur út þá ákvað ég að taka mynd af flöskunni og maísmjölinu ef einhvern skyldi langa að prófa.

Orange Chicken

  • 900 gr kjúklingabringur
  • 2 eggjahvítur
  • 2 tsk salt
  • 2 tsk sykur
  • 2 bollar maísmjöl
  • 5 bollar olía (vegetable oil) til að steikja í

Skerið kjúklingabringurnar í ca 1,5 cm bita og leggið til hliðar. Hrærið vel saman eggjahvítum, salti og sykri í skál og bætið kjúklingabitunum í skálina.  Hitið olíuna í potti upp í 175-190 gráður (eða hitið olíuna bara vel við hæðsta hita). Setjið maísmjölið í hreinan plastpoka og bætið marineruðu kjúklingabitunum út í. Hristið vel þannig að maísmjölið þekji kjúklingabitana.  Djúpsteikið kjúklingabitana í smáum skömmtum í einu þar til þeir verða gylltir á lit. Það tekur um 2-3 mínútur. Þegar kjúlingabitarnir eru tilbúnir eru þeir veiddir upp úr pottinum og lagðir á disk klæddan eldhúspappír. Endurtakið með restina af bitunum.

Hitið sósuna (tæplega hálf flaska fyrir þessa uppskrift) í víðum potti og leyfið henni að sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Hrærið reglulega í pottinum. Bætið djúpsteiktu kjúklingabitunum út í og hrærið vel þannig að þeir hjúpist af sósunni.  Berið fram með hrísgrjónum og salati.

Tikka masala kjúklingur að hætti Jamie Oliver

Ég hef oft horft á þessa uppskrift og skil ekki af hverju ég hef ekki eldað hana fyrr. Uppskriftin kemur úr bók sem heitir Jamie Oliver; Jamie´s dinners og þó það séu mörg ár síðan ég eignaðist bókna þá held ég að þetta sé fyrsta uppskriftin sem ég elda úr henni.

Ég á nokkrar uppskriftabækur eftir Jamie Oliver og hef aldrei eldað annað en góðan mat upp úr þeim. Þær eru algjör gullnáma og alltaf hægt að treysta á þær. Ég varð því fyrir miklum vonbrigðum þegar við fórum á Jamie Oliver staðinn í Covent Garden í London því maturinn þar var sá lakasti sem við borðuðum í allri ferðinni.

Þessi tikka masala kjúklingur er einn sá besti sem ég hef smakkað. Okkur fannst hann öllum alveg æðislegur og ég hefði verið alsæl hefði ég fengið hann í Covent Garden. Ég er samt fegin að ég eldaði hann bara hér heima því þá get ég gert hann aftur fljótlega.

Tikka Masala kjúklingur

  • 6 hvítlauksrif
  • 7,5 cm engifer
  • 2-3 fersk rauð chilli, fræhreinsuð
  • 1 msk sinnepsfræ
  • 1 msk paprikuduft
  • 2 tsk cumin
  • 2 tsk kóriander
  • 3 msk garam masala
  • 200 gr jógúrt
  • 4 kjúklingabringur, skornar í grófa bita
  • 1 msk smjör
  • 2 miðlungs laukar, afhýddir og skornir í fínar sneiðar
  • 2 msk tómat purée
  • lítið handfylli af fínmöluðum cashew hnétum
  • sjávarsalt
  • 115 ml rjómi
  • handfylli af ferskum kóriander, hakkað
  • safi af 1-2 lime

Rífið hvítlauk og engifer á fínasta hlutanum á rifjárninu og setjið í skál. Skerið chilli-ið eins fínt niður og þið getið og bætið í skálina með hvítlauknum og engiferinu. Hitið góða skvettu af ólivuolíu á pönnu og setjið sinnepsfræin á pönnuna. Þegar þau byrja að skoppa eru þau tekin af pönnunni og bætt í hvítlauks- og engiferblönduna ásamt paprikudufti, cumin, kórialnder og 2 msk af garam masala. Setjið helminginn af þessari blöndu í skál og bætið jógúrtinu og kjúklingabitunum í skálina. Hrærið og leyfið að marinerast í ca 30 mínútur.

Bræðið smjörið á pönnunni sem sinnepsfræin voru á og bætið fint skornum lauknum á pönnuna ásamt seinni helmingnum af kryddblöndunni.  Leyfið þessu að eldast á pönnunni við vægan hita í 15 mínútur án þess að brúna blönduna of mikið. Á meðan kemur dásamleg lykt í eldhúsið. Bætið tómat purée, fínmöluðum hnétunum, hálfum lítra af vatni og hálfri teskeið af salti. Hrærið vel og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Steikið kjúklinginn við háan hita á pönnu eða grillið þar til hann er eldaður í gegn.

Hitið sósuna aftur og bætið rjómanum út í ásamt einni matskeið af garam masala. Smakkið til og bætið við kryddi eftir þörfum. Um leið og suðan kemur upp er sósan tekin af hitanum og kjúklingnum bætt út í. Smakkið aftur til  og stráið ferskum kóriander yfir ásamt lime-safanum. Berið fram með basmati hrísgrjónum, nanbrauði og köldum bjór.

Grillaðir BBQ-kjúklingaleggir

Þessir BBQ-kjúklingaleggir lenda reglulega á grillinu hjá okkur á sumrin. Uppskriftina fékk ég hjá Helgu P, vinkonu og samstarfskonu minni, og hún hefur aldrei klikkað.  Áður en ég fékk þessa uppskrift forðuðumst við að grilla kjúkling því hann átti það til að verða þurr hjá okkur. Við vorum alltaf að passa svo vel að hann væri grillaður í gegn. Ég hef hins vegar ekki fengið þurran kjúkling af grillinu síðan ég prófaði þessa aðferð í fyrsta sinn. Kjúklingaleggirnir verða alveg æðislega góðir en það er í raun hægt að nota hvaða hluta kjúklings sem er. Leggirnir hafa verið í uppáhaldi hjá okkur og krökkunum finnst gott að setja bara álpappír um endann og sleppa við hnífapörin.

Það er alveg upplagt að gera þessa BBQ-kjúklingaleggi fyrir veislur eða matarboð því það er hægt að undirbúa kjúklinginn áður þannig að það þurfi bara rétt að skella honum á heitt grillið í nokkrar mínútur.

Kjúklingaleggirnir eru soðnir í potti með kjúklingakrafti (ca 1 kjúklingateningur á hvern bakka af kjúklingaleggjum) í ca 8 mínútur. Þá eru þeir teknir úr pottinum og látnir kólna aðeins. BBQ-sósu er síðan penslað á kjúklingaleggina og þeir að lokum grillaðir við háan hita í stutta stund þannig að BBQ-sósan karamellist utan um kjúklingalegginn.

Kjúklinganaggar með basilikusósu

Þessir kjúklinganaggar vekja alltaf lukku hjá börnunum og okkur þykja þeir svo miklu betri heldur en keyptir naggar. Það er varla hægt að líkja þeim saman.

Mér finnst þetta vera ekta föstudagsmatur sem hægt er að borða fyrir framan sjónvarpið. Ég fylli stóran disk af nöggum, set franskar kartöflur í skál, sósur í litlar skálar og legg á sjónvarpsborðið. Með þessu hef ég síðan ískalt gos.

Það er eflaust best að gera brauðraspinn sjálfur en ef ég á að vera hreinskilin þá nota ég alltaf ströbröd frá Euroshopper. Hann er fíngerðari en íslenski raspurinn og mér finnst hann passa svo vel á naggana. Krakkarnir borða naggana með kokteilsósu, tómatsósu og frönskum en við Öggi fáum okkur salat og basilikusósu með þeim.

Kjúklinganaggar

  • 500 gr kjúklingabringur
  • 1 egg
  • 1 dl brauðraspur
  • 1/2 dl fínrifinn parmesan (má alveg vera keyptur tilbúinn)
  • 1 tsk sítrónupipar
  • smá salt
  • smjör og olía til að steikja í

Basilikusósa

  • 2 dl sýrður rjómi
  • 1 búnt fersk basilika
  • 1/2 tsk salt

Skerið kjúklingabringurnar í bita. Hrærið eggið létt með gaffli. Blandið í annari skál saman brauðraspi, parmesan, sítrónupipar og salti. Dýfið kjúklingabitunum fyrst í hrærða eggið og síðan í brauðraspblönduna. Steikið bitana í blöndu af smjöri og olíu þar til þeir fá fallegan lit. Ég hef pönnuna á miðlungsháum hita (stillingu 7 af 9) til að þeir nái að eldast í gegn án þess að brenna. Passið að kjúklingurinn sé steiktur í gegn.

Maukið basilikuna með töfrasprota í smá sýrðum rjóma. Blandið saman við restina af sýrða rjómanum og saltið.

Fylltar kjúklingabringur með pestó-rjómaostafyllingu og beikoni

Það hafa engin þrekvirki verið unnin á þessu heimili í dag heldur var sofið til hádegis og aldrei farið almennilega á fætur. Við vorum ánægð með að endurheimta nágrannana frá Vestmannaeyjum og fengum þau yfir í tertuafganga og spjall.  Í kvöldmat eldaði ég síðan þennan kjúklingarétt sem okkur þykir alltaf jafn góður.

  • 5 kjúklingabringur
  • 1 fetakubbur
  • 1 pakki Philadelphilaostur með jurtum og hvítlauk
  • ca 1 msk pestó (ég nota grænt)
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 dós léttur sýrður rjómi
  • sítróna
  • kartöflur, sætar kartöflur, gulrætur eða það rótargrænmeti sem þú kýst

Skerið kartöflurnar og rótargrænmetið í báta eða sneiðar  og setjið í eldfast mót. Hellið smá ólivuolíu yfir og kryddið með salti og pipar og þeim kryddum sem þér þykir góð. Ég notaði í kvöld gott jurtasalt með salvíu, rósmarín og timjan. Setjið í 200° heitan ofninn.

Myljið hálfan fetakubbinn í skál og blandið ca 3/4 af Philadelphiaostinum saman við. Hrærið ca 1 msk af pestói saman við og jafnvel smá pipar (það þarf ekki salt því það er næg selta í fetaostinum).

Hamrið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar og leggið gott lag af fetaostahrærunni ofan á hverja bringu. Leggið beikonsneiðarnar á fat og rúllið utan um kjúklingabringurnar þar til kjúklingurinn er þakin af beikoni. Steikið kjúklingabringurnar í smjöri eða ólivuolíu þar til þær hafa fengið fallegan lit. Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót og setjið það sem eftir var af fetaosthrærunni í kringum kjúklinginn í forminu. Það er líka alveg hægt að sleppa því að steikja kjúklingabringurnar á pönnunni og setja þær bara beint í ofninn. Færið kartöflurnar og rótargrænmetið neðst í ofninn og setjið kjúklingabringurnar í miðjan ofninn í ca 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er gegnum steiktur.

Blandið restina af fetaostinum með heilli dós af létt sýrðum rjóma, pressið hvítlauksrif út í, kreistið smá sítrónusafa og kryddið með góðu jurtasalti. Mixið saman með töfrasprota.

Berið fram með góðu salati.

Endið máltíðina í sjónvarpssófanum með smá nammi, það gerðum við alla vega.