New York Times-brauð

Það er orðið langt síðan ég setti inn uppskrift að brauði. Upp á síðkastið hefur brauðbakstur minn verið nokkuð einhæfur því ég, eflaust síðust af öllum, uppgötvaði hið margrómaða New York Times-brauð sem einnig gengur undir nafninu „No-knead bread“.

Þetta brauð er meiriháttar gott og þó það þurfi að hefast í amk 12 klst þá er vinnuframlagið í algjöru lágmarki. Ég set hráefnið í skál að kvöldi og rétt hræri því saman með sleif, set plastfilmu yfir skálina og læt hana standa á borðinu þar til daginn eftir. Oftast helli ég deginu þá, sem minnir helst á graut eftir alla þessa hefun, á hveitistráð borð og rétt set það saman í kúlu sem ég læt hefast undir viskastykki í tvo tíma til viðbótar. Ég hef sleppt þessari seinni hefun og verð að viðurkenna að ég fann engan sérstakan mun. Mikilvægast er síðan að baka brauðið í funheitum ofni í lokuðum potti sem er hitaður í ofninum áður en brauðið fer í hann.

Ég smakkaði þetta brauð fyrst á makkarónu-námskeiðinu hjá Salt Eldhúsi og varð mjög spennt að prófa að baka það. Á morgun fer ég á jólagaldra-námskeiðið og ég get ekki beðið. Ég hlakka svo til að eyða kvöldinu í jólaundirbúning og það verður frábært að eiga góðgæti til að njóta yfir aðventuna. Ég ætla að reyna að muna eftir myndavélinni og get þá sýnt ykkur myndir frá kvöldinu.

New York Times-brauð

 • 3 bollar hveiti
 • ¼ tsk þurrger
 • 1 ¼ tsk salt
 • 1 ½ bolli + 2 msk vatn (ég hef það alltaf við stofuhita)

Blandið hveiti, þurrgeri og salti saman í skál og hrærið vatni saman við. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið hana standa við stofuhita í amk 12 klst. en helst í 18 klst.

Hellið deginu á hveitistráð borð og stráið hveiti líka yfir degið. Brjótið degið saman þannig að það myndi nokkurs konar kúlu og látið hefast undir viskastykki í 2 klst.

Setjið lokaðan ofnpott í ofn og hitið í 230°. Takið ofnpottinn út, setjið brauðið ofan í hann, lokið pottinum og setjið hann aftur í ofninn í 30 mínútur. Takið lokið af og bakið áfram í 5-10 mínútur.

Kjúklingapasta með spínati og hvítlauk

Í kvöld nutum við góðs af því að eiga afgang af kvöldmatnum síðan í gær. Við byrjuðum vikuna á pasta með kjúklingi, sveppum, hvítlauk og spínati ásamt heimabökuðu brauði með pestó og hummus. Þetta var hrein dásemd sem strákarnir voru ekki síður ánægðir með en við Öggi.

Ég eldaði hins vegar allt of mikinn mat og komst síðan að því að Malín myndi borða kvöldmat á stelpukvöldi í félagsmiðstöðinni.  Við sem eftir sátum borðuðum á okkur gat en samt sá varla högg á vatni. Ég pakkaði afgangnum inn í ískáp og var ósköp fegin að geta nýtt hann í kvöld. Þá setti ég réttinn í eldfast mót, pipraði og saltaði, og stráði rifnum osti yfir áður en ég setti hann í ofninn. Rétturinn vakti ekki minni lukku í kvöld og kláraðist upp til agna, kannski til að tryggja að hann verði ekki á borðum þriðja daginn í röð 🙂

Kjúklingapasta með spínati og hvítlauk

 • 2 bakkar kjúklingalæri
 • ólífuolía
 • 3 hvítlauksrif
 • pipar og gott salt (ég nota salt frá Jamie Oliver með sítrónu og timjan)

Hrærið saman ólífuolíu, pressuðum hvítlauskrifjum, pipar og salti og penslið á kjúklinginn. Eldið kjúklinginn í 180° heitum ofni þar til hann er eldaður í gegn.

 • 1 bakki sveppir
 • ½ laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 1-2 dl rjómi
 • 1 grænmetisteningur

Sneiðið sveppi , fínhakkið lauk og hvítlauk og steikið við miðlungsháan hita upp úr smjöri.  Bætið sýrðum rjóma, rjóma og grænmetisteningi á pönnuna og látið sjóða saman við vægan hita.

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er kjötið hreinsað af beinunum og bætt út í sósuna á pönnunni ásamt soðnu pasta og fersku spínati. Kryddið með pipari og salti og berið fram með ferskum parmesan.

Súkkulaðikaka með kókos

Öggi hefur oft furðað sig á því hvernig hægt sé að vera jafn mikið jólabarn og ég er. Ég hreinlega ræð ekki við mig og eftir að ég eignaðist börnin náði tilhlökkunin hæðstu hæðum. Til að toppa gleðina þá á ég afmæli 22. desember og strákarnir 27. desember. Við höfum því fulla ástæðu til að fagna desembermánuði sem styttist óðum í.

Ég reyni hvað ég get að sitja á mér og byrja ekki að hlusta á jólalögin og skreyta fyrr en í desemberbyrjun. Ég ætla þó ekki að reyna að neita því að þegar ég er ein í bílnum þá er útvarpið komið á Létt-bylgjuna áður en ég veit af. Í gær fékk ég síðan alveg frábæra hugmynd um að nýta Freemover-stjakana mína sem auka aðventuljós. Þeir eru jú fjórir (og mig dauðlangar í fleiri) og það var því lítið mál að hengja tölustafi á þá til að fá smá aðventustemningu. Nú þarf ég bara að kaupa ný kerti og þá verður þetta klárt. Aðal-aðventustjakinn kemur svo upp fyrir næstu helgi og ég hlakka svo mikið til.

Við ætlum að taka forskot á jólagleðina í dag og fara á fyrsta jólahlaðborð ársins með krakkana. Við Malín lökkuðum neglurnar með uppáhalds litnum í tilefni dagsins. Síðan er ég að spá í að baka smákökur á meðan Öggi hengir upp útiseríurnar (ó, hvað hann verður glaður þegar ég segi honum frá því).

En fyrst ætla ég að gefa uppskrift af slíkri dásemd að það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvað hún er góð. Ég hef bakað þessa köku fyrir ótal tilefni, bæði fyrir mig og aðra, og alls staðar slær hún í gegn. Stundum sker ég hana niður í litla bita og þá er hún eins og konfektmoli. Ég veit ekki hversu oft ég hef gefið þessa uppskrift og ég gaf hana meira að segja í Gestgjafanum í haust, en ég hef þó aldrei fyrr gefið hana hér á blogginu.

Súkkulaðikaka með kókos

Botn

 • 200 g smjör
 • 4 egg
 • 5 dl sykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • ¼ tsk salt
 • 1 dl kakó
 • 3 dl hveiti

 Ofanbráð

 • 200 g gróft kókosmjöl
 • 1 dl síróp
 • 2 dl sykur
 • 1,5 dl rjómi
 • 75 g smjör

Hitið ofninn í 200°. Bræðið smjörið og leggið til hliðar. Hrærið egg og sykur saman. Hrærið vanillusykri, salti og kakói saman við. Bætið hveiti og bráðnu smjörinu saman við og hrærið þar til deigið verður slétt.

Klæðið skúffukökuform með bökunarpappír og setjið deigið í formið. Bakið í miðjum ofni í 15 mínútur.

Á meðan kakan er í ofninum er ofanbráðin gerð. Setjið síróp, sykur, rjóma, smjör og kókosmjöl  í pott við meðalháan hita. Látið smjörið bráðna og blandið vel saman. Sjóðið í 5 mínútur.

Þegar kakan hefur verið í ofninum í 15 mínútur er hún tekin út og ofanbráðin smurð varlega yfir. Að því loknu er kakan sett aftur í ofninn og bökuð áfram í 10 mínútur eða þar til hún hefur fengið fallegan lit.  Kakan geymist í frysti í allt að 6 mánuði og  þá getur verið sniðugt að skera hana í sneiðar og raða í plastbox með smjörpappír milli laga áður en kökunni er stungið í frystinn.

Pastagratin

Ég er ósköp fegin því að sjá fyrir endan á „eldað úr frystinum“ vikunni og er farin að hlakka til að skipuleggja matarinnkaupin fyrir næstu viku. Í kvöld tók ég síðasta matinn úr frystinum, nautahakksbakka, og eftir eru þá bara ís og frosnir ávextir í skyrdrykki fyrir krakkana.

Þeir allra gleggstu gætu munað eftir að ég notaði hálfan beikonsmurost í skinku- og spergilkálsbökuna á þriðjudaginn. Núna notaði ég seinni helminginn í ostasósu til að setja yfir pastagratin. Rétturinn var dásamlega góður og mjög fjölskylduvænn.

Pastagratin

 • soðið pasta
 • kjötsósa (steikið 1 bakka af nautahakki, kryddið og setjið niðursoðna tómata eða pastasósu yfir og látið sjóða saman)
 • kirsuberjatómatar
 • vorlaukur
 • mozzarella ostur

Ostasósa

 • 4 dl rjómi
 • 100 g beikonsmurostur
 • 1-2 dl rifinn ostur
 • salt og pipar

Hitið ofninn í 220°. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Steikið nautahakk og kryddið eftir smekk. Setjið góða pastasósu eða niðursoðna tómata yfir og látið sjóða saman.

Setjið rjóma í pott ásamt beikonsmurostinum og látið suðuna koma upp. Bætið rifnum osti í pottinn og látið bráðna saman við. Saltið og piprið og takið af hitanum.

Setjið pastað í eldfast mót og hellið kjötsósunni yfir. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og setjið yfir kjötsósuna ásamt niðurskornum vorlauki. Hellið ostasósu yfir og endið á að strá rifnum mozzarella yfir.

Setjið í ofn í um 20 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit.

Ofnbakaður lax í pestórjómasósu

Ég sá frosinn lax í Ikea um daginn og varð forvitin að smakka hann. Þegar ég kom heim fór laxinn í frystinn og allur áhugi fyrir því að elda hann hvarf eins og dögg fyrir sólu. Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að frosinn lax úr Ikea gæti verið spennandi og satt að segja var hann bara fyrir mér þarna í frystinum.

Ég ákvað að fyrst ég er á annað borð að hreinsa úr skápunum að elda laxinn til að losna við hann. Ég átti líka rjómapela í frystinum sem ég vildi líka losna við. Pestó og sýrðan rjóma átti ég í ískápnum. Það varð lygilega góður réttur úr þessum fáu hráefnum og Gunnar sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem honum þykir lax svona góður.

Ofnbakaður lax í pestórjómasósu

 • 1 dl rjómi
 • 2 ½ dl sýrður rjómi
 • 1 teningur fiskikraftur
 • 2 msk rautt pestó
 • pipar og salt
 • Lax

Hitið ofninn í 180°. Leggið laxinn í eldfast mót.  Setjið rjóma, sýrðan rjóma, fiskkraft og rautt pestó í pott og hitið að suðu. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur og smakkið til með salti og pipar. Hellið sósunni yfir laxinn og setjið í ofninn í 25 mínútur.

Skinku- og spergilkálsbaka

Ég hef ekki nennt að versla inn eftir að við komum frá Akureyri og er að spá í að nota vikuna í að elda úr því sem er til í ískápnum og frystinum. Mér þykir oft gaman þegar það hefur safnast í ískápinn að úthugsa hvað hægt sé að elda úr því. Nú ætla ég að reyna að láta það sem til er duga fram að helgi.

Ég gerði böku í kvöldmat sem við gerðum okkur að góðu og vel það. Malín fór í bíó með vinkonum sínum og minnstu munaði að við hefðum klárað bökuna áður en hún kom heim. Sem betur fer gerðum við það ekki því Malínu þótti hún stórkostlega góð.

Skinku- og spergilkálsbaka

Skelin:

 • 5 dl hveiti
 • 250 g kalt smör í teningum
 • 1 tsk salt
 • 4 msk kalt vatn

Fylling:

 • ca 150 gr skinka
 • 1/2 box beikonsmurostur
 • 2,5 dl sýrður rjómi
 • 1 dl rifinn cheddar ostur
 • 2 egg
 • salt og pipar
 • ferskt spergilkál
 • rifinn cheddar ostur til að setja yfir bökuna

Hitið ofninn í 220°. Vinnið hráefnin í skelina saman, þrýstið deiginu í bökuform og setjð í ískáp á meðan fyllingin er útbúin.

Léttsteikið skinkuna upp úr smjöri og hellið sýrðum rjóma og smurosti yfir. Hrærið eggin lítillega og bætið þeim á pönnuna. Piprið og saltið og hrærið ostinum saman við. Látið suðuna koma upp og takið svo af hitanum. Hrærið niðurskornu spergilkáli út í fyllinguna.

Setjið fyllinguna í bökuskelina og bakið í 20 mínútur. Setjið þá rifinn ost yfir og bakið áfram þar til osturinn hefur bráðnað.

Rjómalagað lasagna

Helgin er búin að vera ævintýraleg. Við keyrðum norður til Akureyrar á föstudeginum og eyddum helginni þar í mestu makindum. Það var svo ótrúlega fallegt á Akureyri, snjónum kyngdi niður svo trjágreinar bognuðu undan þunganum. Það var svo notalegt að vaða skaflana úr íbúðinni niður á Bláu könnuna í bænum og fá okkur heitt súkkulaði með rjóma. Svo dásamlega afslappandi og óneitanlega jólalegt.

Það er alltaf sama prógrammið í gangið þegar við förum norður og það má engu breyta. Krakkarnir vilja fara í jólahúsið og fá Brynjuís og ég vil fara í Sirku. Síðan förum við í Eymundsson og í sund, helst í Hrafnargili. Okkur þykir þetta alltaf jafn skemmtilegt og virðumst ekki hafa neina þörf fyrir að breyta út af vananum.

Þessi ferð var þó frábrugðin öðrum að því leiti að nú snérist hún um fimleikamót sem Gunnar var að keppa á. Mér þykir hann svo ótrúlega duglegur að ég tárast alltaf í byrjun en næ svo að harka af mér. Ég vil ekki verða honum til skammar og reyni hvað ég get að virðast yfirveguð yfir þessu öllu, eins og mér þyki ekkert tiltökumál að hann hangi á hvolfi í tvöfaldri hæð sinni og gæti stórslasast við það eitt að missa jafnvægið.  Hann missti þó ekki jafnvægið, frekar en áður, og nældi sér í silfurverðlaun. Ég hélt ég myndi springa úr stolti.

Þar sem ég var svo léleg í að uppfæra bloggið í síðustu viku þá luma ég núna á uppskrift af frábæru lasagna sem ég bauð tengdamömmu upp á um síðustu helgi. Mér þykir lasagna svo gott og gaman að prófa nýjar uppskriftir. Þessi þótti mér æðislega góð, þó að það hafi ekki myndast nógu vel, og verður klárlega eldað aftur.

Rjómalagað lasagna

Kjötsósa

 • 600-700 g nautahakk
 • smjör
 • 1 hvítlauksrif, pressað
 • 1 laukur, fínhakkaður
 • 1/2 dl chilisósa
 • grænmetis- eða nautateningur
 • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
 • salt og pipar

Ostasósa

 • 5 dl rjómi
 • 5 dl mjólk
 • 1 dl hveiti
 • 100 g smjör
 • 3 dl rifinn ostur
 • smá múskat
 • salt og pipar
 • ferskar lasagnaplötur
 • 2 pokar af ferskum mozzarella osti

Hitið ofninn í 180°. Steikið hakkið, laukinn og hvítlaukinn á pönnu upp úr smjörinu. Bætið niðursoðnu tómötunum, chilisósunni, teningi, salti og pipar á pönnuna og látið sjóða við vægan hita á meðan ostasósan er gerð.

Bræðið smjörið og hrærið hveitinu saman við. Hellið mjólkinni og rjómanum saman við í nokkrum skömmtum og hrærið vel á milli. Passið að hafa ekki of háan hita undir svo sósan brenni ekki. Kryddið með smá múskati, salti og pipar. Látið sjóða í nokkrar mínútur og takið svo af hitanum. Bætið rifna ostinum saman við og látið bráðna í sósunni.

Setjið smá ólífuolíu í botninn á eldföstu móti og þekið hann með ostasósu. Leggið lasagnaplötur yfir, þar næst kjötsósu, síðan ostasósu. Endurtakið eins oft og formið leyfir og endið á sósunni. Sneiðið mozzarellaostinn og leggið yfir ostasósuna. Setjið í ofninn í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er kominn með fallegan lit.