Starbucks sítrónukaka

Starbucks sítrónukaka

Ég veit að ég ætti að vera snjöll og byrja vikuna á færslu með einhverri æðislegri hollustu en ég bara ræð ekki við mig. Ég get ekki hætt að hugsa um þessa fersku, mjúku sítrónuköku sem ég bakaði um daginn. Hún var himnesk og mig er búið að langa í hana á hverjum degi síðan. Ég set samt hendina á hjartað og lofa að hún var ekki í kvöldmat hjá okkur í kvöld. Það var fiskur og þið viljið ekki fá uppskriftina að honum. Ég lofa. Það sem þið eigið frekar eftir að vilja er uppskriftina að þessari dásamlegu köku því hún gerir lífið aðeins betra.

Starbucks sítrónukaka

Þegar ég er erlendis þá má ég ekki sjá Starbucks stað án þess að vilja rjúka þangað inn. Ég lít þó ekki við kaffinu heldur er það sítrónuformkakan þeirra sem hrópar á mig. Ég man eftir því eins og það hafi gerst í gær þegar ég smakkaði hana fyrst. Mér fannst hún svo stórkostlega góð. Síðan þá hef ég verið veik fyrir henni og næ mér í sneið við hvert tækifæri sem gefst.

Starbucks sítrónukaka

Ég rakst á uppskriftina að kökunni á netráfi mínu eitt kvöldið og hjartað tók auka slag þegar ég sá hana. Ég veit ekki af hverju ég hef ekki leitað að uppskriftinni áður en þarna bara var hún, Starbucks sítrónuformkakan.

Starbucks sítrónukaka

Ég þori ekki að lofa að þetta sé sama kakan en þessi var svo góð að mér er í raun alveg sama. Þessi heimabakaða Starbuckskaka uppfyllir alla mínar sítrónukökulanganir og ríflega það.

Starbucks sítrónukaka

  • 1 ½ bolli hveiti
  •  ½ tsk lyftiduft
  •  ½ tsk matarsódi
  •  ½ tsk salt
  • 3 egg
  • 1 bolli sykur
  • 2 msk mjúkt smjör
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 tsk sítrónudropar
  • 1/3 bolli sítrónusafi
  •  ½ bolli bragðdauf olía (ekki ólívuolía)
  • hýði af 1 sítrónu

Glassúr

  • 1 bolli flórsykur
  • 2 msk nýmjólk
  •  ½ tsk sítrónudropar

Kakan:

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform vel.

Blandið hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál.

Hrærið saman í annari skál eggjum, sykri, smjöri, vanilludropum, sítrónudropum og sítrónusafa þar til hefur blandast vel. Hrærið blöndunni saman við þurrefnin og hrærið þar til deigið verður mjúkt. Bætið olíu og sítrónuhýði saman við og blandið vel. Setjið deigið í smurt formkökuform og bakið í 45 mínútur eða þar til prjóni sem er stungið í kökuna kemur hreinn upp.

Glassúr:

Hrærið öllu saman og hellið yfir kökuna.

 

22 athugasemdir á “Starbucks sítrónukaka

  1. Sitronuhydi; raspar madur bara af sitronu eda notar madur meira af berkinum?

    Takk fyrir frabæra sidu!

    Kv. Svanhildur

  2. Það er alltaf notuð nýþvegin sítróna og þú notar bara gula hlutann af hýðinu, þessi hvíti er beiskur og bragðvondur. Svava, þessi kaka lítur svakalega vel út, ég ætla að skella í hana um páskana 🙂

  3. Takk Holmfridur 🙂 thottist vita ad thad væri svoleidis, en vildi vera viss. Hlakka til thess ad profa thessa uppskrift.

  4. Er laumufarþegi á þessari síðu;0) Prufaði þessa um helgina og hún er hrein dásemd, þú ert alveg að fara með mig með öllum þessum girnilegu uppskriftum sem þú ert að setja inn, er orðin daglegur gestur og ófáar uppskriftir sem ég er búin að prufa eða ætla að prufa og hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum, nema þá þegar ég klúðra einhverju í fljótfærni minni. Vaknaði líka snemma í morgun og bakaði amerísku pönnukökurnar á meðan aðrir sváfu, endalaust góð byrjun á góðum degi. Takk fyrir frábæra síðu:0)

    1. … og ég geri fastlega ráð fyrir því að vöfflurnar verði á dagskrá hjá mér um páskan;0)

  5. Þessi var bökuð í dag. Sló í gegn hjá öllum og verður bökuð fljótt aftur enda ekki lengi að þvi

  6. Dásamlega góð kaka. Nýja uppáhaldskaka fjölskyldunnar ásamt möndlukökunni. Einfalt og fljótlegt. Takk fyrir frábæra síðu. Búin að prófa ýmislegt hér 😉

  7. Flott síða og ég ætla að prófa ýmislegt sem þú hefur sett þarna inn. Bestu þakkir fyrir 🙂 Þessi verður fyrst

  8. Þessi er í ofninum akkúrat núna og ég er ekkert smá spennt að smakka hana, hún lítur svo vel út og glassúrinn smart oná, gerir hana sparilega líka! Takk innilega!

  9. Dásamlega góð þessi sítrónukaka 🙂 bestu þakkir fyrir frábærar uppskriftir. Ætla að prófa vöfflurnar næst. 😉

  10. Kemst degið í uppskriftini í álform, svona eins og maður kaupir í búðum, ef svo er þarf ég að nota tvö eða eitt ?

  11. Úuúúúffffff hvað þetta er yndisleg kaka 🙂
    Vorum að klára hana og erum 5í fjölskyldu og hún var borðuð upp til agna á nokkrum mínútum. Elsti strákurinn minn sagði “ af hverju bakaðir þú ekki tvær “
    Svo þessi verður oft bökuð á þessu heimili, takk fyrir okkur 🙂

Skildu eftir svar við Ellen Hætta við svar