Fyrir helgi prófaði ég uppskrift af kjúklingi í ostrusósu sem vakti heldur betur lukku hér heima. Betra en á veitingastöðum segjum við sem vorum í mat (allir nema Malín). Klárlega nýtt uppáhald og algjör bjargvættur þegar ekki gefst tími til að standa í eldhúsinu. Það tekur styttri tíma að elda réttinn en að sækja take away.
Ég notaði saltaðar kajúhnetur og sleppti því að salta réttinn (kemur mjög vel út). Hneturnar bar ég fram sér þannig að hver og einn setti yfir réttinn sjálfur. Það má þó vel setja þær á pönnuna og láta þær hitna í réttinum. Ég mæli með að nota úrbeinuð kjúklingalæri, þau passa svo vel í þennan rétt. Það er t.d. hægt að kaupa þau frosin frá Rose Poultry.
Kjúklingur í ostrusósu (uppskriftin passar fyrir 4-6)
- 800 g úrbeinuð kjúklingalæri
- 1 brokkólíhaus
- 2 gulrætur
- 1/2 stór púrrulaukur
- 1 rauð paprika
- 2 hvítlauksrif
- 1 lítil flaska af ostrusósu (ég notaði frá Blue Dragon, í henni eru 150 ml)
- 1 ½ dl vatn
- 3 msk púðursykur
- salt og pipar (ef þið teljið þörf á, smakkið fyrst)
- um 200 g kasjúhnetur (saltaðar)
Skerið kjúklinginn í bita og steikið upp úr olíu á pönnu. Skerið brokkólí, gulrætur, papriku, púrrlauk í bita og fínhakkið hvítlaukinn. Bætið þessu á pönnuna og steikið áfram. Hrærið saman ostrusósu, vatni og púðursykri og hellið yfir. Látið sjóða í 7-8 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað aðeins og kjúklingurinn er fulleldaður. Smakkið til með salti og pipar. Stráið kasjúhnetum yfir og berið fram (eða berið hneturnar fram í sér skál).
Þessi réttur var í kvöldmatinn á mínu heimili – þvílík dásemd 🙂
Gaman að heyra!
>
Í matinn á morgun!!
Mér líst vel á það. Vonandi verður þú ánægð með hann 🙂
>
Þessi réttur er ÆÐI! er lengi búin að leita af svona einföldum „take away“ rétti 🙂
Gaman að heyra!
>
Oft búin að vera að reyna að gera rétti með ostrusósunni en adrei fattað þetta með púðursykurinn, loksins, loksins, loksins kom bragðið sem ég var að leita af 🙂
Takk fyrir frábæran rétt!
Ég mæli með þessum rétti, einfaldur og góður. Miklu betri en take away.
Ég bý ein og þessi uppskrift er t.d. of stór fyrir mig, er í lagi að gera réttinn og frysa svo restina??