Gróft brauð með rúgmjöli og tröllahöfrum

Við höfum ekki átt gott brauð í nokkra daga og við Öggi vorum farin að sakna þess að fá okkur væna brauðsneið á morgnana. Ég ákvað því að baka brauð í gærkvöldi og þvílíkur munur það er að byrja daginn svona vel.

Það er svo myndarlegt að segjast baka brauð í hverri viku en satt að segja þá er það bæði fljótlegra en að fara út í búð og svo margfalt betra. Brauðið er gerlaust og þarf því ekki að hefast, það er bara öllu blandað vel saman og sett í form áður en það fer inn í heitan ofninn.

Þó að þetta brauð sé í algjöru uppáhaldi hjá okkur, ásamt speltbrauðinu, þá þótti okkur rúgmjölsblandan í þessu grófa brauði skemmtileg tilbreyting. Næst ætla ég að prófa að bæta rúsínum í það, ég gæti trúað að það væri gott.

Gróft brauð með rúgmjöli og tröllahöfrum

  • 5 dl rúgmjöl
  • 5 dl hveiti
  • 1 dl tröllahafrar
  • 1 dl hörfræ
  • 1 tsk salt
  • 1 msk matarsódi
  • 1 dl týtuberjasulta (ég nota lyngonsylt sem fæst í Ikea)
  • 2 msk síróp
  • 5 dl jógúrt (eða ab-mjólk eða súrmjólk)
  • graskersfræ til að strá yfir brauðið

Hitið ofninn í 175°. Blandið öllum þurrefnunum saman. Hrærið týtuberjasultu, sýrópi og jógúrti saman við þurrefnin og blandið vel. Setjið deigið í smurt brauðform. Stráið graskersfræjum yfir og bakið í neðri hlutanum á ofninum í ca 1 klukkustund.

Stórgott hvítlauksbrauð sem dugar fyrir marga

Þegar Malín kom heim frá Svíþjóð færði hún mér meðal annars eitt af uppáhalds matreiðslublöðunum mínum, ELLE mat & vin. Blaðið er stútfullt af spennandi uppskriftum og í gærkvöldi prófaði ég þá fyrstu, hvítlauksbrauð. Ég ákvað síðan að gera spaghetti með kjúklingi, mascarpone, sítrónu, spínati og sólþurrkuðum tómötum sem ég bar brauðið fram með.

Það er helst frá því að segja að bræðurnir enduðu á að borða brauð og skyr í kvöldmat. Þeim þótti pastarétturinn svo vondur að Jakob reyndi að gera sér upp ofnæmi fyrir sítrónum til að þurfa ekki að borða hann. Malín borðaði vel en líkt og bræðrum sínum þótti henni pastarétturinn ekki upp á marga fiska. Ég skil ekkert í þeim því okkur Ögga þótti þetta hinn fínasti matur og tæmdum alla diska.

Þó að bræðurnir hefðu glaðir borðað brauðið eitt í kvöldmat þá vorum við foreldrarnir ekki tilbúin að láta það eftir þeim. Ég átti jarðaberjaskyr í ískápnum sem var búið að taka af og það sem eftir var dugði varla fyrir þá báða. Ég brá þá á það ráð að þeyta rjóma og hræra saman við skyrið. Ég kallaði það spariskyr og þeim þótti það alveg meiriháttar.

Það voru þó allir á einu máli um að brauðið væri æðislega gott og það var vel borðað af því. Uppskriftin er heldur stór, heil ofnskúffa, og hentar því vel fyrir matarboð eða að skera niður afganginn og frysta.

Hvítlauksbrauð

  • 50 gr ger (1 pakki)
  • 5 dl 37° heitt vatn
  • 1 dl ólívuolía
  • 1 msk sykur
  • 2 tsk salt
  • 12-14 dl hveiti

Fylling

  • 1 dl ólívuolía
  • 1/2 bakki af ferskri basiliku (bara blöðin)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1/2 sítróna, (bara hýðið)
  • Maldonsalt
  • pipar úr kvörn

Hrærið gerinu saman við fingurheitt vatnið og hellið ólívuolíu, sykri og salti saman við. Bætið nánast öllu hveitinu saman við og hnoðið vel saman. Passið að nota ekki of mikið af hveiti svo að brauðið verði ekki þurrt. Látið deigið hefast á hlýjum stað í 45-60 mínútur.

Klæðið ofnskúffu með bökunarpappír og stráið smá hveiti yfir. Setjið deigið á plötuna, dreifið úr því og látið það vera jafn þykkt. Látið deigið hefast aftur í 40 mínútur. Á meðan er fyllingin útbúin og ofninn hitaður í 250°.

Mixið ólívuolíuna og basilikublöðin með töfrasprota þar til úr verður slétt olía. Pressið hvítlaukinn eða hakkið smátt. Skolið sítrónuna vel og fínrífið hýðið. Hrærið öllu saman og smakkið til með maldonsalti og pipar.

Þegar brauðið er búið að hefast eru gerðar litlar holur um allt brauðið með fingrinum. Penslið fyllingunni yfir brauðið og bakið í miðjum ofni þar til það fær fallegan lit, ca 15-20 mínútur. Látið brauðið kólna undir viskastykki.

Dásamlegar brauðbollur með sólblómafræjum

Við byrjuðum þennan sunnudag á löngum morgunverði með nýbökuðum brauðbollum. Ég held að dagar sem byrja svona vel geti ekki orðið annað en góðir. Brauðbollurnar eru frábærar á morgunverðarborðið og ekki skemmir fyrir að þær eru útbúnar kvöldið áður þannig að það þarf bara að stinga þeim í ofninn í 10-12 mínútur um morguninn.

Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að það tekur enga stund að útbúa þessar brauðbollur. Í gærkvöldi gerði ég deigið, bjó til bollurnar og raðaði þeim á bökunarplötuna sem fékk svo að dúsa í ískápnum í nótt. Þegar ég vaknaði kveikti ég á ofninum og stakk síðan bökunarplötunni inn. Á meðan brauðið var að bakast lagði ég á borð. Þegar ég síðan vakti fjölskylduna þá spurði Öggi mig hvort ég hefði farið út í bakarí. Ég hafði verið svo snögg að gera deigið í gærkvöldi að hann hafði ekki tekið eftir því.

Brauðbollurnar eru æðislega góðar. Ekki láta ykkur bregða þegar þið takið þær út úr ískápnum morguninn eftir og þær eru kaldar og harðar því eftir baksturinn verða þær lungnamjúkar og dásamlegar. Ég mæli með því að þið prófið, þetta eru góð verðlaun fyrir mjög litla fyrirhöfn.

Brauðbollur

  • 1-2 dl sólblómafræ
  • 1 bréf þurrger
  • 2 dl mjólk
  • 1 dl ab-mjólk (eða súrmjólk)
  • 3 msk smjör við stofuhita
  • 1 tsk salt
  • 5-6 dl hveiti
  • 2 dl heilhveiti

Hrærið gerið út í kalda mjólkina. Bætið ab-mjólk, smjöri, salti, hveiti og sólblómafræjum saman við og blandið vel saman. Ég leyfi hnoðaranum á Kitchenaid hrærivélinni að sjá um þetta. Skiptið deginu í 10 hluta, hnoðið hvern hluta í kúlu og leggið á bökunarplötu klædda með bökunarpappír. Leggið plastfilmu yfir og leyfið að hefast inn í ískáp yfir nótt (ca 10 klst).

Penslið bollurnar með upphrærðu eggi og stráið sólblómafræjum yfir. Bakið í ca 10-12 mínútur við 200°.

Að lokum langar mig að benda á nýjan djús sem við prófuðum í morgun, Sunquick tropefrugt, sem okkur þótt mjög góður. Öggi segir að nú muni fólk halda að ég sé að auglýsa djúsinn en ég get lofað því að ég keypti hann sjálf og fæ ekkert fyrir að benda á hann. Eins og venjulega þá setti ég vel af klaka út í djúskönnuna, djúsinn verður svo svalandi og mikið betri við það.

Uppáhalds bananabrauðið

Þetta bananabrauð hefur lengi verið í uppáhaldi og óhætt að segja að það er uppáhalds brauð strákanna. Þeir biðja mig oft um að baka það og ef ég á banana sem hafa séð betri daga þá nýti ég þá alltaf í þetta brauð. Brauðið klikkar aldrei, er alltaf mjúkt, verður aldrei þurrt og er alltaf jafn ljúffengt.

Þessa vikuna byrjuðum við Öggi að vinna aftur eftir sumarfrí og Malín er enn í Svíþjóð. Strákarnir hafa því verið einir heima á daginn. Eftir fyrsta daginn sá ég að þeir höfðu ekki haft mikið fyrir að fá sér að borða. Þar sem ég átti banana á síðasta snúningi þá ákvað ég að baka bananabrauðið fyrir þá. Þeir voru búnir að vera úti í garði að tjalda með Gumma vini sínum allt kvöldið og þegar þeir komu inn fengu þeir sér nýbakað brauð og mjólk. Þegar Gummi fór heim kvaddi hann með þeim orðum að hann ætlaði að biðja mömmu sína um að baka þetta brauð (Erna, hér er uppskriftin 🙂 ). Ég skar síðan restina af brauðinu í sneiðar og setti í plastpoka. Það var ekki að spyrja að því, brauðið var búið þegar ég kom úr vinnunni daginn eftir.

Uppskriftin hefur verið svo lengi í fórum mínum að ég man ómöglega hvaðan hún kemur en ég hef skrifað við hana að brauðið eigi að geymast vel. Það hefur þó aldrei reynt á það og ég held að ég hafi í lengst átt það í hálfan sólarhring.

Mér finnst gott að baka brauð á kvöldin því það tekur enga stund að hræra í þau og síðan er hægt að slappa af yfir sjónvarpinu á meðan brauðið bakast í ofninum. Það er líka fátt eins notalegt og nýbakað brauð með kvöldkaffinu.

Bananabrauð

  • 2 stórir þroskaðir bananar
  • 50 gr smjör
  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 1/2 dl mjólk
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kanill

Hitið ofinn í 175°. Bræðið smjörið og látið kólna aðeins. Hrærið egg og sykur þar til létt og ljóst. Bætið hveiti, lyftidufti, vanillusykri og kanil í deigið og blandið vel.  Bætið smjöri og stöppuðum banönum og mjólk í deigið og blandið vel.  Setjið deigið í smurt brauðform (ég smyr oft formið og velti síðan haframjöli um það) og bakið í 40-50 mínútur.

Hafra- og speltbrauð með kúmeni

Það er langt síðan ég byrjaði að baka brauðin okkar og mér finnst vera himinn og haf á milli heimabakaðs og aðkeypts brauðs. Heimabökuðu brauðin eru stútfull af kornum og góðgæti og standa með mér allan morguninn. Þegar ég á ekki heimabakað brauð er algjör vandræðagangur á mér og ég veit ekkert hvað ég á að fá mér í morgunmat. Ég enda oftast á einhverju morgunkorni og er síðan orðin svöng aftur áður en ég næ að ganga frá diskinum.

Það tekur enga stund að baka gott brauð og auðvelt að breyta uppskriftunum eftir því sem er til í skápunum. Ég á mér tvenn uppáhalds brauð sem ég skiptist á að baka, þetta brauð og þetta hafra- og speltbrauð. Þau eru mjög ólík en mér þykja þau bæði svo góð. Þessa uppskrift fékk ég hjá Svanhvíti systur minni. Þegar hún sendi mér uppskriftina sagði hún að brauðið væri svo ljúft og gott á bragðið og ég gæti ekki verið meira sammála henni. Þess að auki er það ótrúlega fljótlegt og fullt af hollustu.

Hafra- og speltbrauð

  • 4 dl spelt (ég nota fínmalað)
  • 1 dl graskersfræ
  • 1 dl hörfræ
  • 1 dl sólblómafræ
  • 1 dl tröllahafrar eða haframjöl
  • 1 msk vínsteinslyftiduft
  • 1 1/2 tsk kúmen
  • 1/2 tsk salt
  • 2-3 msk hunang
  • 2 1/2 dl vatn
  • 1 msk sítrónusafi

Hitið ofninn í 180°. Blandið þurrefnum saman í skál ásamt hunangi, hellið vatni og sítrónusafa yfir og hrærið öllu rólega saman. Setjið í smurt brauðform og bakið í 35-40 mínútur.

Brauð með ítalskri fyllingu

Ég var búin að ákveða að elda allt annan mat í kvöld, en þegar ég sá þennan brauðhleif í búðinni skipti ég snarlega um skoðun. Mig langaði bara í þetta brauð með ítalskri fyllingu. Uppskriftina fann ég fyrir löngu á sænsku matarbloggi og hef eldað hana reglulega síðan. Okkur þykir þetta öllum svo gott og krakkarnir borða hann með bestu lyst þó þau þykjast ekki borða ólívur. Þetta er einfaldur réttur sem mér finnst bestur með góðu salati og ísköldu sódavatni.

Brauð með ítalskri fyllingu

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 10 sólþurrkaðir tómatar
  • 500 gr nautahakk
  • smjör til að steikja í
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 2 msk þurrkuð basilika eða 1 box fersk basilika
  • 1-2 tsk salt
  • pipar
  • smá sykur
  • 1 dl blandaðar steinlausar ólívur
  • 125 gr ferskur mozzarella
  • 150 gr rifinn ostur
  • 1 brauðhleifur

Hitið ofninn í 175°. Hakkið lauk, hvítlauk og sólþurrkaða tómata. Steikið nautahakkið með laukunum og bætið síðan niðursoðnum tómötum, sólþurrkuðum tómötum og basiliku á pönnuna. Leyfið þessu að sjóða í 10 mínútur og bragðbætið með salti, pipar og smá sykri. Takið af hitanum og leyfið að kólna aðeins.

Skerið lok af brauðinu og takið úr því þannig að eftir standi ca 2 cm kantur um brauðið. Skerið ólívurnar smátt og mozzarella ostinn í bita. Blandið rifnum osti, ólívunum og mozzarella ostinum í kjötblönduna og fyllið brauðið með blöndunni. Leggið lokið á brauðið og pakkið því inn í álpappír. Setjið í ofninn í ca 30 mínútur eða þar til brauðið er heitt í gegn.

Berið fram heitt með góðu salati.

Beikonvafin pylsubrauð með rækjuostafyllingu

Ég sá þessa uppskrift fyrst nýlega á erlendu matarbloggi og fannst hún alveg galin. Síðan fór ég að sjá hana á fleiri matarbloggum og allir virtust sammála um að þetta væri galið gott. Ég mátti því til með að prófa. Og þetta er galið gott. Það fannst okkur öllum.

  • pylsubrauð
  • rækjusmurostur
  • beikon

Hitið ofninn i 225°. Smyrjið pylsubrauðið með rækjusmurosti og vefjið beikoni utan um það. Reiknið með 3-4 beikonstrimlum á hvert pylsubrauð. Ég var með 10 pylsubrauð og notaði nánast heilt box af rækjusmurostinum. Raðið fylltu pylsubrauðunum á ofnplötu og bakið í ca 15-20 mínútur eða þar til beikonið er tilbúið. Berið fram með góðu salati.

Brauð

Ég baka brauð í hverri viku. Þetta brauð er eitt af uppáhalds brauðunum okkar og það brauð sem ég baka hvað oftast. Það er fljótlegt, æðislega gott og við fáum ekki leið á því. Ef það er enn til á þriðja degi þá skellum við því í brauðristina og látum smjörið bráðna á heitu brauðinu áður en við setjum áleggið á.

  • 2 dl tröllahafrar (eða venjulegir hafrar)
  • 5 dl hveiti
  • 1 dl hörfræ
  • 1 dl rúsínur
  • 1 dl hakkaðar heslihnétur
  • 2 tsk matarsóti
  • 1 tsk salt
  • 4 dl hrein jógúrt
  • 1/2 dl fljótandi hunang
  • 1/2 dl lingonsylt (fæst í Ikea)
Hitið ofninn í 190°. Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið jógúrtinu, hunanginu og sultunni saman við. Ég skelli þessu öllu í KitchenAid vélina og læt hana hræra þessu saman. Degið er sett í smurt brauðform (fyrir ca. 1 1/2 líter) og bakað í neðri hluta ofnsins í 50-60 mínútur.