Kjúklingakúskús með sweet chili

Kjúklingakúskús með sweet chili

Í gærmorgun hélt Öggi til vinnu eftir jólafrí en ég nýt góðs af því að vera í fríi til 2. janúar. Mér þykir það æðislegur lúxus að geta verið hér heima á náttfötunum fram eftir degi með krökkunum í jólafríinu þeirra. Í gær var heldur engin venjulegur dagur því strákarnir áttu afmæli. Við héldum afmælisveislu um síðustu helgi og í gær fórum við út að borða og síðan biðu afmælisgjafir og gleði hér heima eftir það.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Við erum búin að eiga yndisleg jól. Höfum borðað mikið, sofið mikið, lesið jólabækurnar, farið út á sleða og í gönguferðir á milli þess sem við klæddum okkur upp og fórum í jólaboð. Núna tek ég árs fríi frá jólamat fagnandi, enda búin að borða yfir mig og vel það af jólamat undanfarna daga. Í kvöld verður kjúklingur hér á borðum og uppskriftin er ekki af verri endanum. Hún kemur úr bók sem ég pantaði mér á netinu fyrir ári síðan og hefur verið mikið notuð síðan þá. Ég mæli svo sannarlega með réttinum enda bæði einfaldur og æðislega góður.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Kjúklingakúskús með sweet chili (uppsrift úr Arla kökets bästa)

  • 500 g kjúklingafilé
  • 4 dl vatn
  • 1 teningur kjúklingakraftur
  • 4 dl kúskús
  • 1-2 púrrulaukar
  • 2 hvítlauksrif
  • smjör
  • 2 dl appelsínudjús
  • 3/4 dl sweet chilisósa
  • 1 teningur kjúklingakraftur
  • 1 tsk japönsk sojasósa
  • 2 dl jógúrt án bragðefna
  • salt

Hitið vatn og kjúklingakraft að suðu og hrærið kúskús saman við. Takið potinn af hitanum, setjið lokið á og látið standa í 6 mínútur.

Skerið kjúklinginn í bita og púrrulaukinn í strimla. Afhýðið og hakkið hvítlaukinn. Steikið kjúklinginn í smjöri á pönnu. Takið kjúklinginn af pönnunni þegar hann er steiktur. Setjið hvítlauk og púrrulauk á pönnuna og steikið þar til fer að mýkjast.  Bætið appelsínudjús, sweet chilisósu, kjúklingateningi, sojasósu og kjúklingi á pönnuna. Látið sjóða í nokkrar mínútur. Takið pönnuna af hitanum og hrærið helmingnum af jógúrtinni saman við. Smakkið til með salti.

Hrærið kúskús upp með gaffli. Berið fram með kjúklingnum og því sem eftir var af jógúrtinni.

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

Þá er síðasta vikan fyrir jól runnin upp og ekki seinna vænna en að fara að klára það síðasta fyrir jólin. Við erum búin að því helsta en eigum eftir að versla jólamatinn og skreyta tréið. Gunnar æfir sig af kappi fyrir sína fyrstu jólatónleika í tónlistarskólanum og við hin bíðum spennt eftir að fá að njóta þeirra á fimmtudaginn.

Mangókjúklingur

Við áttum æðislega helgi sem einkenndist af notalegheitum og afslöppun. Við keyptum jólatré, horfðum á jólamyndir, buðum mömmu í aðventukaffi og borðuðum góðan mat. Ég eldaði mangókjúkling sem okkur þótti sérlega góður og krakkarnir voru alsælir með.

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

Uppskriftir af mangókjúklingum hafa verið vinsælar og eflaust eiga flestir sína uppáhalds uppskrift. Ætla ég að bera í barmafullan lækinn og gefa enn eina uppskriftina af mangókjúklingi? Já, svo sannarlega! Þessi uppskrift er nefnilega ekki eins og þær hefðbundu því hún er með sýrðum rjóma (sem gerir alltaf allt svo gott), tómatpuré, epli og hot mango chutney sem gerir réttinn dásamlega bragðgóðan. Verið óhrædd við að nota sterkt mango chutney því sýrði rjóminn mildar það og eftir situr ljúffengt bragð sem er ó, svo gott.

Mangókjúklingur

Mangókjúklingur

  • 500 g kjúklingabringur
  • 1 rauð paprika
  • 1 græn paprika
  • ½ grænt epli
  • salt og pipar
  • 2 msk tómatpuré
  • 1 msk hveiti
  • 1 dós sýrður rjómi (2 dl.)
  • 1 krukka hot mango chutney (2,5 dl.)
  • 2 dl mjólk
  • 1 kjúklingateningur

Skerið kjúklingabringur og grænmeti í bita. Steikið kjúklinginn í smjöri eða olíu við háan hita. Saltið og piprið. Bæti paprikum og epli á pönnuna og steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið tómatpuré á pönnuna, stráið hveiti yfir og blandið saman þannig að hveitið verði ekki að kekkjum. Setjið sýrðan rjóma, mango chutney, mjólk og kjúklingateningi á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður, 5-10 mínútur.

Berið fram með hrísgrjónum og/eða salati.

Einfaldur pestókjúklingur

Einfaldur pestókjúklingur

Í gær voru tvær vikur til jóla upp á dag. Hér áður fyrr fannst mér tíminn standa í stað á þessum tímapunkti en í dag þýtur hann frá mér. Ég reyni að teygja lopann og lengja daginn með því að vaka fram eftir á kvöldin. Það er ekki að ég sé svona upptekin, síður en svo. Mér þykir bara svo notalegt hér heima með jólaljós í gluggum, logandi kerti á borðum, smákökur í skálum og myrkrið úti og vil njóta þess til hins ýtrasta. Þegar krakkarnir eru sofnaðir kemur andinn yfir mig og ég sæki aðeins meira jólaskraut, færi hluti á milli staða og ákveð svo að hita mér saffransnúð áður en ég leggst í rúmið. Vesenast fram eftir og vakna svo dauðþreytt. Mér þykja kvöldin einfaldlega of notaleg þessa dagana til að sofa þau frá mér.

Einfaldur pestókjúklingur

Kjúklingaréttir standa alltaf fyrir sínu og um daginn gerði ég einfaldan pestókjúkling sem sló rækilega í gegn hjá fjölskyldunni. Uppskriftina fékk ég hjá æskuvinkonu minni sem taldi sig hafa fengið hana úr gömlu uppskriftarhefti. Rétturinn er dásamlega góður og það tekur enga stund að reiða hann fram. Krakkarnir voru yfir sig hrifin og það var barist um síðasta bitann.

Einfaldur pestókjúklingur

Einfaldur pestókjúklingur

  • kjúklingalundir
  • salt og pipar
  • pestó
  • furuhnetur

Hitið ofn í 200°. Setjið kjúklingalundir í eldfast mót, piprið og saltið og setjið pestó yfir. Setjið í ofninn í 15 mínútur, stráið þá furuhnetum yfir og setjið svo aftur í ofninn í 5 mínútur til viðbótar eða þar til kjúklingalundirnar eru fulleldaðar.

Berið fram með salati, hrísgrjónum, sætri kartöflustöppu eða hverju sem er. Þetta getur ekki klikkað.

Indverskur korma kjúklingur og nan-brauð

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Um helgina leit mamma við hjá okkur með súkkulaðimús og færði mér það sem hún kallaði kærleiksgjöf. Í pakkanum leyndist silkiklútur sem mér þykir svo fallegur að ég fell í stafi. Ég átti einn Plomo o Plata klút fyrir sem ég hef varla tekið af mér en gerði óvart smá gat á hann um daginn þegar ég flækti hann í rennilás. Mamma hafði þó ekki hugmynd um það og því kom gjöfin skemmitlega á óvart. Takk enn og aftur elsku mamma ♥

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Við enduðum þessa fyrstu aðventuhelgi á dásamlegri máltíð, korma kjúklingi með hrísgrjónum og nan-brauði. Mér þykir indverskur matur svo góður og þó að ég geri hann stundum frá grunni þá þakka ég fyrir að hægt sé að kaupa sósurnar tilbúnar þegar tíminn er knappur. Ég kynntist þeim fyrst þegar vinafólk bauð okkur í mat sem okkur þótti sérlega góður. Þegar ég bað um uppskriftina sögðust þau einfaldlega hafa steikt kjúkling og hellt tilbúinni korma sósu yfir. Síðan þá hef ég notað sósuna óspart en hef gaman af að breyta til með ólíku meðlæti. Mér þykir mjög gott að bera réttinn fram með mangó chutney og sýrðum rjóma en um helgina bætti ég lauki, hvítlauki og engifer í sósuna og bar réttinn síðan fram með ristuðum kasjúhnetum til að strá yfir kjúklinginn, hrísgrjónum og nan-brauði sem er gott að dýfa í bragðgóða sósuna. Það var ekki svo mikið sem sósudropi eftir af matnum og diskana hefði verið hægt að setja beint upp í skáp, svo vel var sleikt af þeim.

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Að lokum vil ég minna á gjafaleikinn í samvinnu við Heru Björk. Leikurinn er í gangi út morgundaginn og á fimmtudaginn dreg ég vinningshafa.

Indverskur korma kjúklingur

  • 500 g kjúklingalundir
  • 1 lítill laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 1 tsk rifið engifer
  • 1 tsk hvítlauksmauk (eða 1-2 hökkuð hvítlauksrif)
  • 1 krukka korma sósa (ég nota sósuna frá Patak´s, það eru 450 g. í krukkunni)
  • Ristaðar kasjúhnetur

Hitið olíu á pönnu við miðlungshita og mýkið laukinn. Bætið hvítlauk, engifer og kjúklingalundum á pönnuna og steikið í um 5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er kominn með steikingarhúð en er ekki full eldaður. Bætið sósunni á pönnuna og látið sjóða við vægan hita undir loki í 10 mínútur. Hrærið af og til í pönnunni á meðan.

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Nan-brauð

  • 1,5 dl fingurheitt vatn
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk þurrger
  • 4 dl hveiti
  • 0,5 tsk salt
  • 2 msk brætt smjör
  • 2 msk hreint jógúrt
  • Garam Masala (má sleppa)
  • gróft salt, t.d. Maldon (má sleppa)

Hrærið saman geri, vatni og sykri. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í 10 mínútur.

Bætið hveiti, salti, smjöri og jógúrt saman við og hnoðið saman í deig. Leggið viskastykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 mínútur.

Skiptið deiginu í 4-6 hluta (eftir hversu stór þú vilt að brauðin verði) og sléttið út í aflöng brauð (það þarf ekkert kökukefli, hendurnar duga vel). Mér þykir gott að krydda brauðin með garam masala og grófu salti áður en ég steiki þau. Bræðið smjör á pönnu við miðlungshita og steikið brauðið í 3-4 mínútur áður en því er snúið við og steikt áfram í 2-3 mínútur.

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Mér þykir tíminn fljúga frá mér þessa dagana. Helgin leið á ógnarhraða og í gærkvöldi var okkur boðið í mat til mömmu þar sem við fengum æðislega blálöngu með ólívum, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og fleira góðgæti og borið fram með sætri kartöflustöppu. Synd að myndavélin gleymdist heima því annars hefði ég myndað og sníkt uppskriftina fyrir ykkur.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Það er þó hvergi að örvænta því ég luma á æðislegri uppskrift sem ég ætlaði að deila með ykkur í gær en komst aldrei í það. Ég lét nefnilega verða af því að prófa kjúklingauppskrift sem ég hef horft hýru auga til allt árið en af óskiljanlegum ástæðum látið þar við sitja. Þegar við vorum að gæla við þá hugmynd að elda eitthvað gott á laugardagskvöldinu ákvað ég að nú væri tími til kominn að prófa uppskriftina. Það reyndist frábær ákvörðun því rétturinn var æðislegur og vakti gífurlega lukku meðal viðstaddra. Uppskriftin er ykkar ef þið viljið líka prófa. Ég mæli með því!

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu (uppskrift frá Matplatsen)

  • 800 g kjúklingabringur

Tómatsósa:

  • 1 dós hakkaðir tómatar (ég mæli með Hunt’s roasted garlic, passaði súpervel)
  • 3 msk tómatpuré
  • ½ rauð paprika
  • ½ gul paprika
  • 1 tsk ferskt rautt chili (ég tók fræin úr, krakkana vegna)
  • 1 hvítlauksrif
  • salt og pipar

Ostasósa:

  • 1 msk smjör
  • 1 msk hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 50 g sterkur gouda ostur
  • salt og pipar

Toppur:

  • 2 fínhakkaðir skarlottulaukar
  • 1-2 dl kasjúhnetur
  • fersk basilika

Hitið ofninn í 200°.

Byrjið á tómatsósunni. Skerið paprikur í teninga og fínhakkið chili og hvítlauksrif. Setjið í matvinnsluvél ásamt tómötum og tómatpure og mixið saman í 10 sekúndur. Þetta er líka hægt að gera með töfrasprota.  Saltið og piprið.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Ostasósan: Bræðið smjörið í potti og hrærið hveitinu saman við. Setjið 1,5 dl af mjólk saman við og látið suðuna koma upp á meðan hrært er í pottinum. Bætið restinni af mjólkinni út í og látið suðuna koma aftur upp. Takið af hitanum og hrærið rifnum osti saman við. Saltið og piprið.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Skerið kjúklingabringurnar í bita og leggið í eldfast mót. Saltið og piprið. Hellið tómatsósunni yfir kjúklingabitana og síðan ostasósunni. Stráið hökkuðum skarlottulauk og kasjúhnetum yfir. Bakið í ofni í 20-25 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er full eldaður. Stráið feskri basiliku yfir réttinn áður en hann er borinn fram. Berið fram með pasta, hrísgrjónum eða salati.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósuKjúklingagratín með tómat- og ostasósuKjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Kasjúhnetukjúklingur

Kasjúhnetukjúklingur

Ég ætlaði að gefa ykkur þessa uppskrift í gær en tíminn hljóp frá mér. Núna er þó kvöldið laust og helgin framundan, nokkuð sem mig hefur hlakkað til í allan dag. Í kvöld bíða pizzur, nammi, sjónvarpssófinn og prjónarnir. Ég get varla hugsað mér betra föstudagskvöld.

Ef þið eruð að velta fyrir ykkur kvöldmatnum fyrir annað kvöld þá er ég með góða tillögu, nefnilega frábæran kasjúhnetukjúkling. Mér þykir hann slá flestu við og passa vel um helgar, sérstaklega á föstudagskvöldum þegar allir eru þreyttir eftir vikuna en langar að hafa góðan kvöldmat. Þá er þessi réttur himnasending því hann er æðislega góður og  það tekur enga stund að matreiða hann.

Kasjúhnetukjúklingur

Kasjúhnetukjúklingur

  • 700 g kjúklingabringur, skornar í bita
  • 1 msk kornsterkja (maizena mjöl)
  • ¾ tsk gróft salt
  • ¼ tsk mulinn pipar
  • 2 msk grænmetisolía
  • 6 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 8 vorlaukar, hvítu og grænu hlutarnir aðskildir og hvorir um sig skornir í litla bita
  • 2 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
  • 3 msk hoisin sósa
  • 125 g kasjúhnetur, ristaðar

Ristið kasjúhneturnar með því að dreifa úr þeim á bökunarplötu og setja þær í 175° heitan ofn í 10 mínútur. Fylgist með þeim undir lokin svo þær brenni ekki.

Veltið kjúklingabitunum upp úr kornsterkju þar til hún hjúpar þá. Kryddið með salti og pipar.

Hitið 1 msk af olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita. Setjið helminginn af kjúklingabitunum á pönnuna og steikið þar til þeir hafa fengið fallega húð. Það tekur um 3 mínútur. Færið kjúklingabitana yfir á disk.

Setjið 1 msk af olíu og það sem eftir var að kjúklingnum á pönnuna ásamt hvítlauknum og hvíta hlutanum af vorlauknum. Steikið þar til kjúklingabitarnir hafa fengið fallega húð og hrærið oft í pönnunni á meðan. Bætið fyrri skammtinum af kjúklingabitunum á pönnuna og bætið hrísgrjónaediki saman við. Látið sjóða saman í um 30 sekúndur eða þar til edikið hefur gufað upp.

Bætið hoisin sósu og ¼ bolla af vatni á pönnunna. Hrærið í pönnunni og látið sjóða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Það ætti að taka um 1 mínútu. Takið pönnuna af hitanum og hrærið græna hlutanum af vorlaukunum og ristuðu kasjúhnetunum saman við. Berið strax fram með soðnum hrísgrjónum.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það hefur verið mikið um sætindi hér upp á síðkastið og ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég missti mig í sætindunum í sumar.  Ég fékk ekki einu sinni móral, ja nema kannski út af öllu Lindubuffinu. Allt hefur þó sinn tíma og til að bæta upp fyrir allt þá eldaði ég ljúffengan og bráðhollan kjúklingarétt þegar við vorum í sveitinni.  Ætli ég hafi ekki eldað hann kvöldið sem ég áttaði mig á því að ég hafði borðað 5 kassa af Lindubuffi á þremur dögum og fannst ég skulda mér góðan kvöldverð.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það hafa eflaust margir eldað sína útgáfu af þessum kjúklingarétti og það væri gaman að heyra hvernig þið gerið hann. Okkur þykir rétturinn mjög góður og ekki skemmir fyrir hvað hann er hollur. Fyrir utan að kjúklingurinn er steiktur á pönnu þá fer allt hráefnið í eitt eldfast mót og inn í ofn. Einfaldara getur það varla verið.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Það gæti þótt tómlegt að bera kjúklingarétt fram án meðlætis en mér þykir það sem leynist í eldfasta mótinu standa fyrir sínu eitt og sér, enda er allt þar. Spínat, sætar kartöflur, kjúklingur, tómatar, fetaostur, furuhnetur…. þetta getur ekki klikkað! Það má þó auðvitað vel bera brauð eða salat fram með réttinum og það myndi ég eflaust gera ef ég væri með matarboð en fyrir okkur fjölskylduna dugar þetta vel svona.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Ég verð að viðurkenna að ég er sérlega skúffuð með myndatökuna hér hjá mér og íhugaði að gefa ekki uppskriftina út af því hversu lélegar myndirnar eru. Ég kenni sumarbústaðarbirtunni um, viðarveggjum og lofti sem gáfu myndunum gulan blæ. Eða að Lindubuffið hafi gert mig hálf sloj. Jú, það hlýtur að vera ástæðan. Ég kenni Lindubuffinu um og treysti því að þið dæmið ekki réttinn af myndunum.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

  • 1 stór sæt kartafla
  • 1 poki spínat
  • 4-5 kjúklingabringur
  • 1 krukka fetaostur
  • 1 lítill rauðlaukur, skorinn fínt
  • heilsutómatar eða konfekttómatar, skornir í bita
  • furuhnetur
  • balsamik gljái

Hitið ofninn í 180°. Skrælið sæta kartöflu og skerið í sneiðar eða sneiðið með ostaskera. Látið kartöflusneiðarnar í eldfast mót, setjið smá ólífuolíu yfir, saltið og piprið og setjið inn í ofn í 15 mínútur eða á meðan kjúklingurinn er undirbúinn.

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið stutt (lokið þeim) á heitri pönnu. Kryddið eftir smekk (mér þykir t.d. gott að nota fajita krydd).

Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í 15 mínútur eru þær teknar út. Setjð spínat yfir sætu kartöflurnar og kjúklinginn yfir spínatið. Stráið tómötum og rauðlauk yfir og hellið að lokum fetaostinum ásamt olíunni yfir allt. Setjið í ofn og bakið í 30 mínútur.

Á meðan rétturinn er í ofninum eru furuhnetur ristaðar.  Þegar rétturinn kemur úr ofninum er furuhnetunum stráð yfir og balsamik gljáa dreypt yfir.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Vikan hefur verið annasöm og lítill tími gefist til að blogga. Mér þykir það svolítið leiðinlegt því ég hef verið verið svo spennt fyrir að gefa uppskrift af þessum fylltu kjúklingabringum sem slógu í gegn hér um síðustu helgi.

Ég hef aldrei kynnst neinum sem eru jafn hrifnir af pestói og Öggi og Jakob eru. Þeim þykir allt með pestói gott og þegar ég bauð upp á þessar pestófylltu kjúklingabringur um síðustu helgi hrósuðu þeir matseldinni við hvern bita. Þetta sló einfaldlega í gegn. Ég mæli með að þið prófið. Uppskriftin miðast við eina kjúklingabringu og ber að stækka eftir fjölda matargesta.

Þetta er ekki flókið. Byrjið á að setja kjúklingabringuna í plastpoka og berjið hana út, eins þunna og þið getið. Ekki hafa áhyggjur af útlitinu, það fer í felur undir lokin.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Smyrjið pestóhrærunni yfir bringuna, en skiljið um sentimeter eftir meðfram könntunum. Rúllið bringunni upp og festið hana saman með tannstönglum. Aftur, ekki hafa áhyggjur af útlitinu. Hún verður fallegri.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Dýfið kjúklingabringunni í hrært egg og veltið henni síðan upp úr parmesanhveitiblöndu. Setjið í eldfast mót eða ofnskúffu.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Bakið í ofni og þessi dásemd mun taka á móti ykkur.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur – uppskriftin miðast við 1 kjúklingabringu

  • 1 stór kjúklingabringa
  • 1 msk grænt pestó
  • 1 msk sýrður rjómi
  • 1 msk rifinn mozzarella ostur

Hrærið saman pestó, sýrðum rjóma og mozzarella osti. Setjið kjúklingabringuna í plastpoka og berjið hana út, eins þunna og þú nærð henni.  Takið kjúklingabringuna úr plastpokanum og smyrjið pestóhrærunni yfir hana en látið hana þó ekki fara alveg að köntunum. Rúllið kjúklingabringunni upp og festið hana saman með tannstönglum.

  • 1 egg
  • 1½ msk fínrifinn parmesan
  • 1½ msk  hveiti (eða möndlumjöl ef þið eigið það)
  • svartur pipar

Hrærið eggið og setjið í grunna skál. Blandið saman parmesan og hveiti í annari skál og kryddið til með svörtum pipar. Dýfið kjúklingabringunni í eggjahræruna og síðan í parmesanhveitiblönduna. Passið að kjúklingurinn sé vel hjúpaður. Setjið kjúklinginn í smurt eldfast mót og bakið við 190° í 30-35 mínútur.

Tælenskt kjúklingasalat

Tælenskt kjúklingasalat

Yfir vetrartímann hef ég súpu í hverri viku í matinn en þegar fer að hlýna skiptum við ósjálfrátt yfir í salat. Þó það hafi farið lítið fyrir sumrinu hér á höfuðborgarsvæðinu þá hefur gripið um sig mikið salatæði á heimilinu. Þetta kjúklingasalat hefur verið í miklu uppáhaldi í gegnum tíðina og þar þykir mér mestu skipta að nota góða satay sósu. Ég hef prófað margar tegundir en er hrifnust af sósunni frá Thai Choice. Mér þykir hún langbest og á hana alltaf til í skápnum. Upp á síðkastið höfum við þó fengið æði fyrir nýju salati sem gefur öðrum ekkert eftir og við fáum ekki nóg af því.

Tælenskt kjúklingasalat

Það sem að gerir salatið ómótstæðilegt er sósan því hún er einfaldlega himnesk. Upp á síðkastið hef ég brugðið á það ráð að skera niður hráefnið í salatið og bera það fram í litlum skálum. Hver og einn raðar svo saman sínu salati. Bæði myndar það skemmtilega stemmningu við matarborðið og allir fá það sem þeir vilja í salatið sitt. Það er svo gaman að fylgjast með því hvernig krakkarnir gera salatið sitt og það hefur komið mér á óvart hvað þau eru frökk og áhugasöm að prófa nýjar samsetningar.

Tælenskt kjúklingasalat

Sósan hefur vakið slíka lukku að við erum farin að nota hana á meira á kjúklingasalatið. Hér setti ég hana t.d. yfir kjúklingavængi við miklar vinsældir. Ég steikti kjúklinginn aðeins á pönnu, saltaði og pipraði, raðaði í eldfast mót og hellti sósunni yfir. Inn í 190° heitan ofn í 25-30 mínútur. Stráði síðan kóriander og salthnetum yfir og bar fram. Dásamlega gott.

Tælenskt kjúklingasalat

Ég satt að segja veit ekki hvaðan uppskriftin kemur upprunalega en ég hef séð hana víða á erlendum bloggum. Kannski er þetta ný tískuuppskrift í bloggheimum? Ekki yrði ég hissa því góð er hún, svo mikið er víst.

Tælenskt kjúklingasalat

  • kjúklingabringur
  • salt
  • pipar

Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót og kryddið með salti og pipar.

Tælenskt kjúklingasalat

Sósan:

  • 1 bolli Thai Choice sweet chili sauce
  • ½ bolli rice vinegar
  • ½ bolli Thai Choice lite coconut milk
  • 6 msk púðursykur
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 msk hnetusmjör
  • 2 tsk engifer, rifið
  • safinn úr 2 lime
  • 1 msk Thai Choice soya sósa

Setjið öll hráefnin í pott, hrærið þeim saman og látið suðuna koma upp. Látið sjóða við vægan hita í 3-4 mínútur. Takið af hitanum og hellið helmingnum af sósunni yfir kjúklingabringurnar. Geymið hinn helminginn sem dressingu yfir salatið. Eldið kjúklingabringurnar í 190° heitum ofni í 25-30 mínútur.

Tælenskt kjúklingasalat

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er kjörið að skera niður það sem á að fara í salatið. Það er ekkert heilagt hér en mér þykir sérlega gott að hafa ferskan kóriander, gott kál (ef þið notið iceberg þá mæli ég með að skera það niður og láta það liggja í ísköldu vatni áður en það er borið fram. Kálið verður svo stökkt við það), vorlauk og salthnetur. Okkur þykir líka gott að hafa er mangó, gulrætur, rauða papriku, rauðlauk, gúrku og kirsuberjatómata.

Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann skorinn í sneiðar eða tættur í sundur. Raðið salatinu á disk eða fat, setjið kjúklinginn yfir, hellið sósunni yfir kjúklinginn og toppið með salthnetum, vorlauk og kóriander.

 Ef það verður afgangur af sósunni, setjið hana í lokað ílát og geymið í ískáp í allt að tvær vikur.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

 Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Þar sem ferðaþreytan hefur setið í okkur þessa vikuna vorum við staðráðin í að gera vel við okkur í lok hennar með góðum föstudagsmat. Tælenskt er í miklu uppáhaldi og þar sem það var orðið langt síðan ég eldaði núðlur urðu þær fyrir valinu.

Jakob er feikna mikill matgæðingur og er alltaf spenntur fyrir því að prófa nýjungar. Núðlur og núðlusúpur eru þó nokkuð sem hann gæti vel lifað á og þegar ég stakk upp á því að hafa núðlur í föstudagsmatinn þá var hann meira en til.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Jakob kallar ekki allt ömmu sína í þessum efnum og ég var því sérlega ánægð þegar hann sagði þetta örugglega bestu núðlur sem hann hafi smakkað. Við vorum öll sammála honum um að maturinn væri stórgóður og það var vel borðað, svo vel að Jakobi var hætt að lítast í blikuna. Honum var svo í mun að maturinn myndi ekki klárast því hann langaði að eiga afgang daginn eftir. Ég bar réttinn fram með grófhökkuðum kasjúhnetum og strákarnir fengu sér auka sweet chillisósu á diskkantinn.

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Mér þykir þetta vera ekta föstudagsmatur því hann er bæði einfaldur og æðislega góður. Afganginn af sweet chillisósunni er síðan kjörið að nota sem ídýfu með því að setja hann ofan á sýrðan rjóma eða Philadelphia ost og bera fram með nachoflögum. Sjúklega gott!

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

Bragðmiklar tælenskar núðlur með kjúklingi

  • 1 pakki Thai choice rice noodles
  • 7 hvítlauksrif
  • 2 stórar kjúklingabringur
  • 4 msk kartöflumjöl
  • 1 rauð paprika
  • 1 rauður laukur
  • 1 púrrulaukur
  • 1 spergilkálhaus
  • 1 dl Thai choice ostrusósa
  • 1 tsk fiskisósa
  • 5 msk Thai choice sweet chillisósa
  • 2 dl vatn
  • 1 tsk sykur
  • 50 g grófhakkaðar kasjúhnetur

Skerið kjúklingabringurnar í strimla og blandið þeim saman við kartöflumjölið. Skerið laukinn í þunna báta, paprikuna og púrrulaukinn í strimla og spergilkálið í bita. Afhýðið og hakkið hvítlauksrifin.

Hitið rapsolíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er næstum fulleldaður. Bætið hökkuðum hvítlauk, rauðlauk og spergilkáli á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur til viðbótar. Bætið ostrusósu, sweet chillisósu, fiskisósu, sykri og vatni á pönnuna og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Bætið papriku og púrrulauk á pönnuna, sjóðið í 3 mínútur til viðbótar og takið svo pönnuna af hitanum.

Setjið vatn í pott og látið suðuna koma upp. Setjið núðlurnar í pottinn og sjóðið þær í 3 mínútur. Hellið þeim í sigti og skolið þær með köldu vatni. Látið renna vel af núðlunum og bætið þeim síðan á pönnuna. Blandið öllu vel saman og berið fram með grófhökkuðum kasjúhnetum.