Æðislegur pastaréttur á svipstundu

Æðislegur pastaréttur á svipstundu

Hér heima hefur jólatónlistin hljómað, allt er hvítt úti og við vorum að enda við að borða svo góðan mat. Jólamánuðurinn er að ganga ljúflega í garð, með hvítri jörð og notalegheitum. Mér þykir svo notalegt að láta jólalögin hljóma í desember og má til með að benda ykkur á yndislega jólaplötu, She & Him Christmas Song. Plötuna má finna í heild sinni á Spotify. Önnur jólaplata sem ég hlusta mikið á heitir Winterland Sú plata hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan hún kom út árið 2010 og má sömuleiðis finna á Spotify.

Æðislegur pastaréttur á svipstunduÆðislegur pastaréttur á svipstundu

En að máli málanna, ég veit ekki hversu oft ég hef eldað þennan pastarétt því það er svo fljótlegt að gera hann og við fáum ekki leið á honum. Þetta er sannkallaður veislumatur sem maður reiðir fram á korteri. Ég ber pastað oftast fram með snittubrauði og pestói. Í kvöld prófuðum við nýtt pestó, Fiery chilli pestó frá SACLA og vorum stórhrifin af því. Bragðmikið og bragðgott! Ég ætla að nýta það sem eftir er af krukkunni næst þegar við verðum með ostabakka. Ég sem ætlaði að reyna að borða minna af brauðmeti gat ekki hamið mig og vil ekki vita hvað ég fékk mér margar sneiðar af brauðinu með pestói… ég hef engan sjálfsaga þegar kemur að svona góðgæti.

Æðislegur pastaréttur á svipstunduÆðislegur pastaréttur á svipstundu

Ítölsk pastasósa 

  • 1 grillaður kjúklingur (snjallt að kaupa hann tilbúinn)
  • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar frá SACLA
  • 70 g spínat
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 dl rjómi
  • salt, pipar og paprikukrydd
  • furuhnetur (yfir réttinn, má sleppa)
  • parmesan (yfir réttinn, má sleppa)

Skerið kjúklinginn í bita og hakkið bæði sólþurrkuðu tómatana og hvítlauksrifin. Hitið olíu (t.d. olíuna af tómötunum) eða smjör á pönnu og setjið sólþurrkuðu tómatana, hvítlaukinn, kjúklinginn og spínatið á pönnuna. Steikið saman um stund og hellið síðan rjómanum yfir og látið sjóða í 5-10 mínútur. Smakkið til með salti, pipar og paprikukryddi.

Æðislegur pastaréttur á svipstunduÆðislegur pastaréttur á svipstunduÆðislegur pastaréttur á svipstundu

Ristið furuhnetur og sjóðið pasta, og berið fram með pastasósunni. Berið strax fram, með parmesan og svörtum pipar í kvörn.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Í gærkvöldi kom ég í seint heim og þá hentaði ósköp vel að eiga hráefni í einfaldasta og fljótgerðasta pastarétt sem ég veit um. Kvöldmaturinn var kominn á borðið á innan við 15 mínútum eftir að ég kom heim og var svo dásamlega góður.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Ég nota ferskt tortellini í þennan rétt, það þarf að sjóða í 1 mínútu og er mjög gott. Salvíusmjörið tekur nokkrar mínútur að útbúa og þá er rétturinn tilbúinn. Ég bar hann fram með hvítlauksbrauði ásamt vel af parmesan og smá rauðu í glasinu. Dásemdar veislumatur!

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri (uppskrift fyrir 2)

  • 50 g smjör
  • 10 fersk salvíublöð
  • 1½  msk hunang
  • 2 msk balsamik edik
  • maldonsalt
  • svartur pipar úr kvörn
  • parmesan
  • Ferkst tortellini, gjarnan með ostafyllingu eða skinku- og ostafyllingu

Bræðið smjörið í potti (eða á lítilli pönnu) og bætið salvíublöðunum í. Látið malla við miðlungsháan hita þar til smjörið hefur brúnast. Bætið hunangi og balsamik ediki saman við og smakkið til með salti og pipar. Sjóðið tortellini samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Blandið sósunni saman við nýsoðið tortellini og stráið ríkulega af rifnum parmesan yfir.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér hefur smjörið verið brætt og salvíu bætt á pönnuna

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér er smjörið tekið að brúnast

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Hér hefur hunangi og balsamik edik verið bætt saman við. Tilbúið!

 

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Þetta hefur verið annasöm vika og ég er svo brjálæðislega fegin að það sé loksins komið föstudagskvöld. Ég er ekki með nein plön fyrir helgina en sé fyrir mér góðan svefn, göngutúr, heitt súkkulaði (elska að fara á Súfistann eftir göngur og fá mér heitt súkkulaði með miklum rjóma) og að sjálfsögðu góðan mat. Kvöldinu í kvöld ætlum við hins vegar að eyða í sjónvarpssófanum og á meðan ég bíð eftir að The voice byrji má ég til með að gefa uppskrift af pastarétti sem við gerðum um daginn og var svo góður. Ég er veik fyrir pastaréttum og eftir að ég keypti mér æðislegan parmesan fyrr í mánuðinum hef ég nýtt hvert tækifæri til að vera með rétti sem hægt er að rífa hann yfir. Þvílík veisla segi ég bara!

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum (uppskrift fyrir 3)

  • 250 g beikon
  • 150 g sveppir
  • 2 skarlottulaukar
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 2,5 dl rjómi
  • 4 sólþurrkaðir tómatar + 3 msk af olíunni
  • salt og pipar
  • 1-2 dl af vatninu sem pastað var soðið í
  • 2 msk fínrifinn parmesan ostur

Sjóðið pasta í vel söltu vatni, samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu.

Skerið beikonið í bita og steikið. Hellið fitunni af pönnunni. Hakkið laukinn, hvítlaukinn og sólþurrkuðu tómatana, skerið sveppina í fernt og bætið á pönnuna. Steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið sýrðum rjóma, rjóma og olíunni frá tómötunum á pönnuna og látið sjóða í nokkrar mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Bæti smá af vatninu sem pastað var soðið í á pönnuna og sjóðið áfram í nokkrar mínútur. Takið pönnuna af hellunni og hrærið parmesan í sósuna. Berið fram með pasta og ferskrifnum parmesan.

Pasta með beikoni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum

Pasta með kjúklingi, sólþurrkuðum tómötum og basiliku

Pasta með kjúklingi, sóþurrkuðum tómötum og basilikuÞað er alltaf pláss í uppskriftabókinni fyrir fljótlega rétti sem bragðast eins og veislumatur. Þessi pastaréttur er nákvæmlega þannig og hentar því frábærlega þegar von er á saumaklúbbnum eða matargestum og allt er í hershöndum.

Pasta með kjúklingi, sóþurrkuðum tómötum og basilikuPasta með kjúklingi, sóþurrkuðum tómötum og basilikuPasta með kjúklingi, sóþurrkuðum tómötum og basiliku

Dásamlega góður pastaréttur sem stendur alltaf fyrir sínu. Ég ber hann einfaldlega fram með hvítlauksbrauði og ferskum parmesan sem hver og einn rífur yfir diskinn sinn. Súpergott!

Pasta með kjúklingi, sóþurrkuðum tómötum og basiliku

Pasta með kjúklingi, sólþurrkuðum tómötum og basiliku (uppskrift fyrir 4)

  • 400 g tagliatelle
  • 600 g kjúklingabringur
  • 1 laukur, hakkaður
  • 8 sólþurrkaðir tómatar
  • 1 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 dl rjómi
  • 0,5 msk þurrkuð basilika
  • salt og pipar
  • 2 dl parmesanostur, rifinn

Sjóðið pastað. Skerið kjúklinginn í strimla og steikið á pönnu ásamt hökkuðum lauk og tómötum. Bætið vatni, kjúklingateningi og rjóma á pönnuna og látið sjóða saman í 5 mínútur. Smakkið til með basiliku, salti og pipar.

Hellið vatninu af pastanu. Hrærið pastanu og parmesan saman við kjúklingasósuna og hrópið gjörið þið svo vel! Berið fram með ferskrifnum parmesan og hvítlauksbrauði.

 

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósuEnn ein helgin framundan og ég ætla aftur að koma með hugmynd að föstudagsmat. Það hafa eflaust fáir gaman af því að ráfa hugmyndasnauðir um matvörubúðina eftir vinnu á föstudögum, þegar hugurinn er kominn heim í helgarfrí. Það þarf fá hráefni í þennan dásamlega kjúklingarétt sem tekur enga stund að reiða fram þegar heim er komið. Ferskur parmesan þykir mér nauðsynlegur með og ekki skemmir fyrir að hita gott hvítlauksbrauð og bera fram með réttinum. Súpergott!

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

Pasta með kjúklingi í pestórjómasósu

  • 2 kjúklingabringur
  • 1 rauð paprika
  • 6 stórir sveppir
  • smjör til að steikja í
  • 4 dl rjómi
  • 5 msk gott grænt pestó
  • salt
  • 1/2 kjúklinga- eða grænmetisteningur (má sleppa)
  • pasta

Skerið kjúklingabringur í litla bita og steikið þá í smjör þar til þeir hafa fengið fallega steikingarhúð. Hakkið sveppi og papriku og steikið með kjúklingnum í smá stund. Hellið rjóma yfir og látið sjóða saman við vægan hita til að hann taki bragð af paprikunni og sveppunum. Hrærið pestó út í og smakkið til með salti. Þið gætuð þurft að bæta smá pestó til viðbótar í og jafnvel 1/2 teningi, smakkið til!

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Berið fram með ferskum parmesan og njótið.

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuÞessi vika hefur að mestu snúist um samræmdu prófin hjá strákunum og við erum því sérlega glöð yfir því að helgin sé framundan. Það er greinilega aðeins of langt síðan ég var í 7. bekk og ég stend í mikilli þakkarskuld við alnetið og þær upplýsingar sem þar má finna þegar ég stend á gati. Ætli ég sé ein um að vera svona ryðguð? Æ, hvað ég eiginlega vona það þó það væri vissulega huggun í að vita af fleirum sem klóra sér í kollinum yfir kenniföllum og rómverskum tölum. Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Þar sem það styttist í helgina ætla ég að koma með hugmynd að æðislegum helgarmat. Okkur þykir þessi réttur svo dásamlega góður að við borðuðum hann tvisvar í síðustu viku (alveg dagsatt!). Í annað skiptið buðum við mömmu í mat og hún dásamaði hann í bak og fyrir. Við höfum bæði borið réttinn fram með taglatelle og með ofnbökuðum kartöflubátum og salati. Bæði er mjög gott en mér þykir pastað þó standa upp úr. Það er bara eitthvað ómótstæðilegt við kjúklinginn með beikon/steinselju/parmesan hjúpnum og bragðmikilli soðsósunni sem pastað tekur í sig. Svoooo brjálæðislega gott og mín besta tillaga fyrir helgina.

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

  • 4 kjúklingabringur (um 700 g)
  • pipar og salt
  • um 160 g beikonstrimlar
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1/2 sóló hvítlaukur
  • 1 msk Hunt´s Yellow Mustard
  • 2 msk sojasósa
  • 1-2 kjúklinga- eða grænmetisteningar (mér þykir best að blanda þeim)
  • smá cayenne pipar
  • handfylli af hakkaðri steinselju
  • handfylli af rifnum parmesan

Skerið kjúklingabringurnar í sneiðar og leggið í eldfast mót. Saltið lítillega og piprið. Setjið sýrðan rjóma, teninga, pressaðan hvítlauk, sinnep og sojasósu í pott og látið sjóða saman við vægan hita í nokkrar mínútur. Hellið sósunni yfir kjúklinginn. Steikið beikonstrimla á pönnu og stráið yfir. Stráið að lokum hakkaðri steinselju og rifnum parmesan yfir. Bakið við 175° í 40 mínútur.

Berið fram með tagliatelle, pipar og vel af ferskrifnum parmesan.Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu

 

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÞvílík helgi sem við fengum! Ég og strákarnir nýttum veðurblíðuna á laugardeginum og fórum í dagsferð um suðurlandið með vinkonu minni. Við heimsóttum meðal annars sundlaugina á Hellu (frábær sundlaug), Seljalandsfoss og vinnufélaga okkar sem var staddur í Þykkvabænum. Ferðina enduðum við síðan í þriggja rétta humarveislu á Fjöruborðinu á Stokkseyri. Æðislegur dagur í alla staði.

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelliÓmótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Við vorum ekki í neinu stuði fyrir fisk í kvöld og ég skellti því í stórgóðan pastarétt sem við fáum seint leið á. Þessi hefur lengi verið í uppáhaldi og ég geri yfirleitt tvöfaldan skammt því krökkunum þykir svo gott að hita hann upp daginn eftir. Það er svo einfalt og fljótlegt að útbúa þennan rétt og í kvöld lögðum við á borð í sjónvarpsholinu og horfðum á Tyrant yfir matnum. Frábærir þættir sem eru sýndir seint á sunnudagskvöldum og því hentar okkur betur að taka þá á frelsinu daginn eftir. Ég mæli með þeim ef ykkur vantar þætti til að horfa á!

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Pasta í rjómasósu með beikoni og sveppum (uppskrift fyrir 3-4)

  • 250 g sveppir (1 box)
  • 130 g beikon (ég nota 1 bréf af eðalbeikoni)
  • 1 laukur
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2 dl rjómi
  • 1/2 grænmetisteningur
  • salt og pipar
  • smá af cayenne pipar (má sleppa)

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Skerið sveppina í fernt, hakkið laukinn og skerið beikonið í bita. Hitið smjör á pönnu (mér þykir alltaf betra að steikja úr smjörlíki) og steikið sveppina þar til þeir eru komnir með góða steikingarhúð, bætið þá lauk og beikoni á pönnuna og steikið áfram þar til beikonið er fullsteikt og laukurinn orðinn mjúkur. Hellið rjóma og sýrðum rjóma yfir og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Smakkið til með grænmetiskrafti, salti og pipar. Endið á að setja örlítið af cayenne pipar fyrir smá hita.

Ómótstæðilegur pastaréttur í einum hvelli

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Ég er hrifin af pastanu frá De Cecco og í þennan rétt nota ég spaghetti n°12 sem ég sýð al dente (10 mínútur). Mér þykir þykktin á því vera svo góð og passa vel í réttinn.

Blandið pastanu saman við pastasósuna og hrærið smá af pastavatninu saman við. Það skemmir ekki fyrir að rífa parmesan yfir áður en rétturinn er borinn fram en það má þó vel sleppa því. Dásamlega gott á báða vegu.

Spaghetti alla carbonara

Spaghetti alla carbonara

Það styttist í helgina og eflaust margir farnir að huga að helgarmatnum. Ég ætla því að setja inn uppskrift af einföldum en ljúffengum föstudagsmat sem tekur stutta stund að útbúa og gæti verið kjörið að enda vinnuvikuna á. Mér þykir svo notalegt að eyða föstudagskvöldunum heima og það hentar vel að borða þennan rétt í sjónvarpssófanum til að gera kvöldið enn notalegra.

Spaghetti alla carbonara

Stundum þurfa hlutirnir að gerast í einum grænum og þá koma svona uppskriftir sér vel. Þessi réttur er ó, svo góður og það tekur eflaust styttri tíma að útbúa hann en að panta pizzu. Með öðrum orðum, fullkominn föstudagsmatur!

Spaghetti alla carbonara

Spaghetti alla carbonara (fyrir 4) – uppskrift frá Allt om mat

  • 1 laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 250 g beikon
  • 50 g pecoriono ostur
  • 50 g parmesan ostur
  • 2 msk ólífuolía
  • 2 egg
  • 2 eggjarauður
  • pipar úr kvörn
  • 400 g spaghetti

Fínhakkið lauk og skerið hvítlauk í sneiðar. Skerið beikon í bita og fínrífið pacoriono og parmesan ostana.

Hitið olíuna á pönnu og steikið hvítlaukinn í henni þar til hann byrjar að fá gylltan lit. Takið hvítlaukinn af pönnunni. Setjið lauk og beikon á pönnuna (í olíuna sem hvítlaukurinn var í) og steikið þar til laukurinn er mjúkur og beikonið fallegt á litinn, það tekur um 3 mínútur. Hrærið egg og eggjarauður saman við ostana og kryddið með pipar.

Sjóðið spaghettí samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Geymið 1 dl af pastavatninu.

Hærið saman spaghettí, lauk og beikon. Hrærið eggja- og ostablöndunni saman við og blandið vel saman. Hrærið pastavatninu saman við, smátt og smátt, þar til réttri áferð er náð. Mér þykir 1 dl. passlegt.

Berið fram með ferskrifnum parmesan, pipar og jafnvel steinselju.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Mér þykir tíminn fljúga frá mér þessa dagana. Helgin leið á ógnarhraða og í gærkvöldi var okkur boðið í mat til mömmu þar sem við fengum æðislega blálöngu með ólívum, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og fleira góðgæti og borið fram með sætri kartöflustöppu. Synd að myndavélin gleymdist heima því annars hefði ég myndað og sníkt uppskriftina fyrir ykkur.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Það er þó hvergi að örvænta því ég luma á æðislegri uppskrift sem ég ætlaði að deila með ykkur í gær en komst aldrei í það. Ég lét nefnilega verða af því að prófa kjúklingauppskrift sem ég hef horft hýru auga til allt árið en af óskiljanlegum ástæðum látið þar við sitja. Þegar við vorum að gæla við þá hugmynd að elda eitthvað gott á laugardagskvöldinu ákvað ég að nú væri tími til kominn að prófa uppskriftina. Það reyndist frábær ákvörðun því rétturinn var æðislegur og vakti gífurlega lukku meðal viðstaddra. Uppskriftin er ykkar ef þið viljið líka prófa. Ég mæli með því!

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu (uppskrift frá Matplatsen)

  • 800 g kjúklingabringur

Tómatsósa:

  • 1 dós hakkaðir tómatar (ég mæli með Hunt’s roasted garlic, passaði súpervel)
  • 3 msk tómatpuré
  • ½ rauð paprika
  • ½ gul paprika
  • 1 tsk ferskt rautt chili (ég tók fræin úr, krakkana vegna)
  • 1 hvítlauksrif
  • salt og pipar

Ostasósa:

  • 1 msk smjör
  • 1 msk hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 50 g sterkur gouda ostur
  • salt og pipar

Toppur:

  • 2 fínhakkaðir skarlottulaukar
  • 1-2 dl kasjúhnetur
  • fersk basilika

Hitið ofninn í 200°.

Byrjið á tómatsósunni. Skerið paprikur í teninga og fínhakkið chili og hvítlauksrif. Setjið í matvinnsluvél ásamt tómötum og tómatpure og mixið saman í 10 sekúndur. Þetta er líka hægt að gera með töfrasprota.  Saltið og piprið.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Ostasósan: Bræðið smjörið í potti og hrærið hveitinu saman við. Setjið 1,5 dl af mjólk saman við og látið suðuna koma upp á meðan hrært er í pottinum. Bætið restinni af mjólkinni út í og látið suðuna koma aftur upp. Takið af hitanum og hrærið rifnum osti saman við. Saltið og piprið.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Skerið kjúklingabringurnar í bita og leggið í eldfast mót. Saltið og piprið. Hellið tómatsósunni yfir kjúklingabitana og síðan ostasósunni. Stráið hökkuðum skarlottulauk og kasjúhnetum yfir. Bakið í ofni í 20-25 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er full eldaður. Stráið feskri basiliku yfir réttinn áður en hann er borinn fram. Berið fram með pasta, hrísgrjónum eða salati.

Kjúklingagratín með tómat- og ostasósuKjúklingagratín með tómat- og ostasósuKjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Tortellini í pestósósu

Ferskt tortellini í pestósósuUm helgar eyði ég yfirleitt meiri tíma í kvöldverðinn. Þá vil ég bjóða upp á betri mat og nýt þess að hafa góðan tíma í eldhúsinu. Það gerist þó að tíminn hleypur frá mér og þá þykir mér gott að eiga góðar uppskriftir sem tekur stuttan tíma að matreiða.

Á laugardaginn áttum við Malín mæðgnadag og komum seint heim. Við eyddum deginum tvær saman, litum í búðir og á kaffihús, keyptum smá jólaskraut og enduðum á því að gera vikuinnkaupin. Þegar við komum heim fór ég í eldhúsið og útbjó ljúffengan pastarétt sem tók svo stuttan tíma að elda að Öggi rétt náði að leggja á borð og kveikja á kertum áður en maturinn var tilbúinn.

Ferskt tortellini í pestósósu

Það sem gerir réttinn svona fljótlegan er að ég notaði ferskt tortelini sem þarf bara að sjóða í 1 mínútu. Mér þykir ferskt tortellini sérlega gott og það er hægt að leika sér endalaust með það. Á laugardaginn bjó ég til sósu úr pestó, rjóma og ferskrifnum parmesan og blandaði saman við pastað ásamt rauðri papriku, rauðlauk og kirsuberjatómötum sem ég skar niður á meðan ég beið eftir að suðan á pastavatninu kæmi upp.  Það væri líka hægt að bæta við ólívum, salami, sólþurrkuðum tómötum, ruccola, spínati eða hverju því sem hugurinn girnist. Með góðu pasta er ekki hægt að mistakast og best af öllu, ljúffeng máltíð stóð á eldhúsborðinu á innan við korteri.

Ferskt tortellini í pestósósu

Tortellini með rjómapestósósu

  • 2 pokar ferskt tortellini með þurrkaðri skinku og osti
  • 1 peli rjómi (2,5 dl.)
  • 1 dl grænt pestó
  • 1 dl ferskrifinn parmesan
  • 1 rauð paprika
  • 1/2-1 rauðlaukur
  • 1 pakki kirsuberjatómatar (250 g)

Ferskt tortellini í pestósósu

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningu á pakkningu. Ég var með pasta frá RANA sem þarf bara að sjóða í 1 mínútu. Setjið rjóma og pestó í pott og hitið við vægan hita þar til blandan þykknar örlítið. Hrærið parmesan út í og leggið til hliðar.

Skerið papriku og rauðlauk í fína bita og kirsuberjatómata í tvennt. Hrærið um helmingi af pestósósunni saman við pastað og blandið svo papriku, rauðlauk og kirsuberjatómötum saman við. Myljið svartan pipar yfir og endið á að rífa vel af parmesanosti yfir diskinn. Berið fram með því sem eftir var af pestósósunni, ferskum parmesan og hvítlauksbrauði.