Ofnbökuð ostapylsa

Ofnbökuð ostapylsa

Það er nú fátt svo slæmt að því fylgi ekki eitthvað gott og þó að ég hefði glöð viljað sleppa við snjóinn sem kom aðfaranótt sunnudags þá gleðst ég yfir hvað hann bar með sér gott skíðafæri. Eftir vinnu í gær brunuðum við upp í fjall og skíðuðum þar fram á kvöld í blíðskapaveðri. Þvílík sæla!

Ofnbökuð ostapylsaOfnbökuð ostapylsa

Þar sem við komum seint heim var ákveðið að hafa fljótlegan kvöldverð og urðu pulsur fyrir valinu. Ég má til með að benda ykkur á þessa eldunaraðferð sem lyftir pulsunum upp á hærra plan. Pulsubrauðið er smurt að utan með smjöri og svo lagt opið með smjörhliðina niður á ofnplötu. Vel af rifnum osti er stráð yfir pulsubrauðið. Pulsan er skorin eftir henni endilangri þannig að hún rétt hangi saman og er lögð opin með sárið niður á sömu ofnplötu og pulsubrauðið var sett á. Eftir skamma stund er pulsunni snúið við og síðan að lokum er hún sett í brauðið ásamt meiri osti. Svakalega gott!

Ofnbökuð ostapylsa

Ofnbökuð ostapylsa

  • pulsur
  • pulsubrauð
  • mjúkt smjör
  • pizzaostur
  • cheddarostur

Kveikið á grillinu á ofninum. Smyrjið pulsubrauðin með mjúku smjöri að utan og leggið þau opin á ofnplötu með smjörhliðina niður. Stráið rifnum cheddar og pizzaosti yfir þau (mér þykir gott að hafa mikinn ost, set um 1 dl á hvert brauð). Skerið pulsurnar eftir þeim endilöngum þannig að þær haldast saman en geta legið flatar á ofnplötunni. Setjið þær á ofnplötuna með pulsubrauðunum með flötu hliðina niður. Setjið í ofnin í um 2 mínútur, snúði þá pulsunum við og látið grillast í 1 mínútu til viðbótar. Setjið pulsuna þá á aðra hliðina á pulsubrauðinu, stráið um 3 msk af rifnum osti yfir, lokið pulsubrauðinu og grillið áfram þar til osturinn hefur bráðnað. Berið fram með tómatsósu og sinnepi.

Ofnbökuð ostapylsaOfnbökuð ostapylsaOfnbökuð ostapylsa

Pulsu- og makkarónuskúffa

Pulsu- og makkarónuskúffa

Haustið 2012 birti ég uppskrift af makkarónuskúffu sem var í miklu uppáhaldi hjá Malínu þegar hún var yngri. Rétturinn er einfaldur og góður, meira að segja svo góður að ég veit fyrir víst að það hefur verið boðið upp á hann í fermingarveislu! Ég lýg því ekki…

Pulsu- og makkarónuskúffa

Um daginn prófaði ég nýja uppskrift af einfaldri makkarónuskúffu, í þetta sinn með pulsum í. Þessi skúffa vakti ekki síður lukku en sú gamla og sérlega gott þótti okkur að hafa hot chili tómatsósu með henni (þessa í plastflöskunni, ekki í glerinu). Það sama á við með þessa makkarónuskúffu og þá gömlu, að hún er ekki síðri daginn eftir. Eins er hægt að leika sér með uppskriftina, t.d. að krydda með paprikukryddi eða chili explosion. Þetta er frábær hversdagsréttur sem tekur ekki nokkra stund að reiða fram og þar sem uppskriftin er drjúg þá eru góðar líkur á að það verði til afgangur daginn eftir sem hægt er að taka í nesti eða hita sér upp kvöldið eftir.

Pulsu- og makkarónuskúffa

  • 300 g makkarónur (ósoðnar)
  • 10 pulsur
  • 4 dl mjólk
  • 4 egg
  • 1/2 tsk múskat
  • 1/2 tsk pipar
  • 1 tsk salt
  • 2-3 lúkur rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°. Látið suðu koma upp í rúmgóðum potti, saltið vatnið og sjóðið makkarónurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu. Hellið vatninu frá. Skerið pulsurnar í bita. Hrærið egg, mjólk og krydd saman. Blandið makkarónum, pulsum og eggjahrærunni saman og setjið í eldfast mót. Stráið rifnum osti yfir og bakið í um 30 mínútur (passið að osturinn brenni ekki undir lokin). Mér finnst gott að krydda aðeins yfir diskinn með svörtum pipar, en það er auðvitað smekksatriði.

Pulsu- og makkarónuskúffaPulsu- og makkarónuskúffaPulsu- og makkarónuskúffa

Pylsugratín með kartöflumús

Pylsugratín með kartöflumús

Í kvöld mun Öggi sjá um að reiða fram kvöldmat fyrir sig og krakkana því ég er á leiðinni í saumaklúbb. Að ósk krakkanna mun hann bjóða upp á soðnar pylsur og það er beðið með eftirvæntingu eftir að veislan hefjist 🙂

Pylsugratín með kartöflumús

Ég eldaði hins vegar pylsurétt í síðustu viku sem Ögga þótti svo góður að hann geymdi það litla sem eftir var af honum og borðaði sem forrétt kvöldið eftir. Hann hlakkaði til allan daginn að komast heim í þennan litla afgang sem beið hans. Hann getur verið fyndinn þegar kemur að mat og mun seint teljast kröfuharður.

Pylsugratín með kartöflumús

Ég held að mér þyki allur matur verða extra góður þegar hann er borin fram með kartöflumús. Hakk og spaghetti bolognese með kartöflumús þykir mér frábær blanda (prófið!) og mér þóttu þessar pylsur í ljúffengri sósu og þaktar með kartöflumús æðislegar. Það þarf varla að taka það fram að krakkarnir voru himinlifandi með matinn sem var hann hin fullkomna máltíð í þeirra augum.

Pylsugratín með kartöflumús

  • 1-1,5 kg kartöflur
  • smjör
  • 1 egg
  • salt og pipar
  • 10 pylsur (1 pakki)
  • 150 g beikonkurl
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2,5 dl rjómi (1 peli)
  • 2 dl chilisósa (ath. ekki sweet chili)

Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru mjúkar. Stappið með vel af bræddu smjöri og hrærið eggi saman við. Smakkið til með salti og pipar (og jafnvel má sykri). Leggið til hliðar.

Hitið ofninn í 225°. Skerið pylsurnar í bita og leggið í eldfast form. Dreifið beikonkurlinu yfir og setjið í miðjan ofn í um 15 mínútur, eða þar til pylsurnar og beikonið hafa fengið fallegan lit. Á meðan er sýrðum rjóma, rjóma og chilisósu hrært saman.

Takið pylsurnar og beikonið úr ofninum, hellið sósunni yfir og dreifið kartöflumúsinni yfir. Setjið fatið aftur í ofninn í 15 mínútur eða þar til kartöflumúsin hefur fengði fallegan lit.

Pretzelvafðar pylsur

Pretzelvafðar pylsur

Um daginn þegar ég var að skoða matarblogg þá rakst ég á þessa uppskrift að pretzelvöfðum pylsum hjá Joy the baker. Hún sagði uppskriftina vera eina af sínum uppáhalds frá árinu sem leið og almáttugur hvað ég varð spennt að prófa hana. Við ákváðum að þetta væri kjörin laugardagsmatur og til að kóróna herlegheitin skellti ég kartöfluhelmingum í ofn og bar fram með. Hamingjan var fullkomin, jafnt hjá okkur Ögga sem og börnunum. Þetta verða allir að prófa.

Pretzelvafðar pylsur

  • 1 ½ bolli heitt vatn (um 40°)
  • 1 msk sykur
  • 2 ¼ teskeið ger
  • 620 g hveiti (um 4 ½ bolli)
  • 2 tsk salt
  • 2 msk smjör, brætt og kælt
  • um 14 bollar vatn
  • 1 bolli matarsódi
  • 1 stórt ekk, hrært með smá skvettu af vatni
  • gróft salt og pipar

Setjið vatn og sykur í skál og stráið gerinu yfir. Látið standa í 5 mínútur. Blandan byrjar að freyða, ef það gerist ekki skuluð þið henda henni og byrja upp á nýtt.

Þegar blandan hefur staðið í 5 mínútur og er byrjuð að freyða er hveiti, salti og bræddu smjöri bætt saman við. Notið deigkrók á hrærivél og hrærið hægt þar til allt hefur blandast saman. Aukið hraðan í miðlungshraða og hnoðið deigið þar til það er orðið mjúkt og losnar frá hliðum skálarinnar og myndar bolta um deigkrókinn. Hnoðið  á miðlungshraða í um 4 mínútur.

Pretzelvafðar pylsur

Takið deigið úr skálinni (það ætti að vera mjúkt og örlítið klístrað), smyrjið hana með grænmetisolíu og setjið deigið aftur í hana. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið deigið hefast á hlýjum stað þar til það hefur tvöfaldað stærð sína (um klukkustund).

Pretzelvafðar pylsur

Hitið ofninn í 220°. Klæðið tvær ofnskúffur með bökunarpappír og smyrjið þær með grænmetisolíu. Þetta er mikilvægt til að pretzelpylsurnar festist ekki við hann.

Pretzelvafðar pylsur

Setjið vatn og matarsóda í stóran pott og látið suðu koma upp. Á meðan suðan er að koma upp er degið sett á olíuborið borð. Skiptið deiginu í 8-16 bita (eftir því hvort þið ætlið að hafa pylsurnar 8 heilar eða 16 hálfar). Rúllið deigbútunum út í renninga, ca 30 cm langa fyrir hálfar pylsur og 60 cm fyrir heilar. Snúið deiginu utan um pylsurnar og passið að loka endunum vel.

Pretzelvafðar pylsur

Pretzelvafðar pylsur

Þegar vatnið er byrjað að sjóða eru deigpylsurnar settar varlega út í og soðnar í 30 sekúndur. Takið varlega upp úr með spaða og setjið á bökunarpappírinn. Burstið með upphrærðu eggi og stráið grófu salti og nýmöluðum pipar yfir.

Pretzelvafðar pylsur

Pretzelvafðar pylsur

Setjið í ofninn og bakið þar til deigið verður fallega gyllt, um 12-14 mínútur. Berið heitt fram.

Ef það verður afgangur af pretzelpylsunum þá eru þær settar í plastfilmu og geymdar í ískáp. Þegar það á að bera þær aftur fram eru þær færðar yfir í álpappír, lokað fyrir og hitað í 175° heitum ofni í 12 mínútur, eða þar til þær eru heitar í gegn.

Pylsupasta með piparostasósu

Jakob er búinn að biðja mig um að elda þetta pylsupasta í nokkurn tíma og ég var búin að lofa honum að elda það í vikunni. Hann er svo hrifinn af pylsuréttum og ef hann fengi að ráða þá værum við með þá í hverri viku. Ég á reyndar mjög auðvelt með að láta það eftir honum því mér þykja svona réttir líka alveg æðislega góðir.

Ég verð að viðurkenna að ég hálf skammast mín fyrir að setja þessa uppskrift inn, ef uppskrift má kalla. Hún er svo ofureinföld og eiginlega bara gefin hér sem hugmynd af kvöldmat. Þá daga sem börnin eru á löngum æfingum og við erum að koma seint heim þá þykir mér mjög gott að geta gripið í svona einfaldar uppskriftir og verið með matinn á borðinu korteri síðar.

Pylsupasta með piparostasósu

  • 10 pylsur (ég nota SS-pylsur)
  • smjör
  • 1 piparostur
  • ½ líter matreiðslurjómi
  • ½ grænmetisteningur
  • smá cayanne pipar

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka.

Skerið pylsurnar í bita og steikið á pönnu upp úr smjörinu. Þegar pylsurnar eru komnar með fallega húð er matreiðslurjómanum hellt yfir og smátt skornum piparostinum og grænmetisteningnum bætt í. Látið sjóða þar til osturinn hefur bráðnað og smakkið til með cayanne pipar.

Pylsupottréttur með beikoni og sweet chili rjómasósu

Í dag hófst skólinn hjá krökkunum á ný og við erum að springa úr spennu og gleði yfir því. Stundaskráin er komin í hús og skólatöskurnar bíða tilbúnar í forstofunni. Mér þykir þessi árstími alltaf svo skemmtilegur og finnst haustið tákna nýtt upphaf, mikið frekar en áramótin.

Jakob er búinn að biðja mig um að gera pylsu-stroganoff síðan ég eldaði það um daginn. Hann fær ekki nóg af því. Í kvöld ætlaði ég að láta það eftir honum en var svo heppin að rekast á uppskrift að öðrum pylsurétti sem ég var spennt að prófa. Okkur fannst hann æðislegur og sósan mjög bragðgóð. Elsku Malín skrapp til vinkonu sinnar fyrir kvöldmat og þegar hún kom heim var rétturinn búinn. Það er því óhætt að segja að hann hafi slegið í gegn hjá þeim sem í húsi voru.

Pylsupottréttur með beikoni og sweet chili rjómasósu

  • 10 pylsur (ég var með SS-pylsur)
  • 1 bréf beikon
  • 1 peli rjómi (2,5 dl)
  • 1 dl sýrður rjómi
  • 2 tsk sojasósa
  • 2 msk sweet chili sósa
  • salt
  • pipar

Skáskerið pylsurnar og skerið beikonið í bita. Steikið pylsurnar og beikonið á pönnu þar til það byrjar að fá fallega steikarhúð. Bætið rjóma, sýrðum rjóma, sojasósu og sweet chili sósu á pönnuna og leyfið að sjóða við vægan hita um stund svo að sósan fái bragð frá pylsunni og beikoninu. Smakkið til með pipar og salti.

Pylsu-stroganoff

Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá var pylsu-stroganoff uppáhaldsmatur krakkana. Ég hef ekki eldað það síðan við fluttum heim en í vikunni fékk ég svo ótrúlega löngun í þennan mat að ég varð ekki róleg fyrr en ég var búin að elda hann. Það er einhver sjarmi yfir þessu og ég á erfitt með að setja fingurinn á það hver hann er. Kannski eru það bara minningarnar frá því þegar við bjuggum úti og borðuðum þetta nánast vikulega, enda bæði ódýrt og fljótlegt og hentaði okkur því mjög vel á þeim tíma.

Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að þetta sé það besta sem þið eigið eftir að smakka en það geta ekki alltaf verið jól. Mér finnst þetta góður hversdagsmatur og krakkarnir elska hann. Ég verð alltaf svo glöð þegar þau borða vel og Jakob borðaði fjóra diska af matnum og spurði síðan hvort ég geti eldað þetta í hverri viku. Mér finnst varla hægt að fá betri einkunn fyrir kvöldmatinn.

Pylsu-stroganoff

  • 500 gr pylsur (t.d. 1 tvöfaldur pakki af SS-pylsum)
  • 1 laukur
  • 1 msk paprikukrydd
  • 2 msk hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 2 dl rjómi
  • 2 msk tómatpuré
  • 3 msk tómatsósa
  • salt og pipar

Skerið pylsurnar í bita og skerið laukinn fínt niður. Steikið þetta í smjöri á pönnu þar til laukurinn og pylsurnar hafa fengið fallegan lit. Stráið paprikukryddi og hveiti yfir og leyfið að hitna vel áður en þið hellið 2 dl af mjólkinni yfir. Leyfið þessu að sjóða þar til sósan verður þykk. Bætið rjómanum saman við og restinni af mjólkinni ef sósan er of þykk. Bragðbætið með tómatpuré, tómatsósu, salt og pipar. Látið sjóða í 5 mínútur.

Ef þú átt steinselju eða graslauk þá er um að gera að dreifa því yfir réttinn áður en hann er borinn fram. Berið fram með hrísgrjónum eða kartöflumús.