Steiktur fiskur í parmesanraspi

Helgin leið hraðar en nokkurn tímann áður og áður en við vissum af var kominn mánudagur. Í kvöld nutum við góðs af því að hafa ekki eldað sunnudagsmatinn í gær og borðuðum indverskan kjúklingarétt með heimabökuðum nanbrauðum. Uppskriftin kom úr einni af nýju bókunum frá tengdó sem heitir Fredag. Við létum nafnið á bókinni ekki á okkur fá og brutum eflaust allar reglur með því að elda úr henni á mánudegi. Það virtist ekki koma að sök því rétturinn var stórgóður þó að mér hafi þótt hann fullsterkur, börnunum til mikillar furðu.

Síðasta mánudag var allt með hefðbundnari sniði og við borðuðum steikan fisk í parmesanraspi. Hann var alveg meiriháttar góður. Ég bar hann fram með soðnum kartöflum, hvítlaukssósu og hrásalati en það er líka mjög gott að bera hann fram með fersku salati og ofnbökuðum kartöflubátum.

Steiktur fiskur með parmesanraspi (uppskrift frá Vinotek)

 • 600-700 gr beinhreinsuð og roðlaus ýsu- eða þorskflök
 • 1 ½ bolli rifinn parmesanostur
 • 1 bolli brauðrasp. Best er að nota til helminga venjulegt brauðrasp og rasp úr grófu brauði (ristið brauðið, látið kolna og myljið í matvinnsluvél)
 • 2 egg
 • mjólk
 • hveiti
 • sítrónupipar

Skerið fiskinn í passlega bita. Pískið eggjunum og smá mjólk saman. Blandið saman 1 bolla af parmesan og brauðraspinu.

Veltið fiskbitunum upp úr hveitinu, síðan eggjablöndunni og að lokum parmesanraspinu. Hitið olíu og smjör saman á pönnu (passið að hafa hana ekki of heita) og steikið fiskinn á hvorri hlið þar til hann er kominn með fallegan lit. Kryddið með sítrónupipar og leggið í eldfast mót. Stráið afgangnum af parmesanostinum yfir og setjið í 170° heitan ofn í nokkrar mínútur eða þar til að osturinn byrjar að bráðna.

Ekki missa af Facebook-uppfærslum á Ljúfmeti og lekkerheit

Ég hef fengið ábendingar um að stöðuuppfærslur hjá Ljúfmeti og lekkerheit á Facebook-síðunni séu ekki að birtast í fréttaveitunni. Nú hef ég loksins fengið skýringu á vandamálinu.
Facebook hefur nýlega breytt reglum er varða birtingu á stöðuuppfærslum á fréttaveitu hjá síðum eins og þeirri sem ég held út. Þetta þýðir að einungis lítill hluti af þeim sem hafa sett „like“ á síðuna eru að sjá stöðuuppfærslur í fréttaveitunni.
Ef þú vilt halda áfram að fylgjast með Ljúfmeti og lekkerheit á Facebook og fá stöðuuppfærslur í fréttaveituna hjá þér þarftu að gera hana að „ánægjuefni/interest“. Þetta er gert á eftirfarandi hátt:
1. Smelltu á tannhjólið hægra megin undir forsíðumyndinni
2. Veldu „bæta á lista yfir ánægjuefni/add to interest list“

Einföld og góð skúffukaka

Ég kenni tengdamóður minni alfarið um að hafa ekki litið hingað inn í gær. Hún fór í frí til Svíþjóðar og kom heim í gær með fulla tösku af uppskriftarbókum og -blöðum handa mér. Ég vissi varla hvernig ég átti að hegða mér í gærkvöldi með allar þessar nýju bækur sem ég vildi lesa spjaldana á milli og prófa allt sem ég sá. Takk elsku Malín fyrir að vera alltaf svona yndisleg og góð við mig.

Föstudagskvöldið var nokkuð hefðbundið að öðru leiti. Ég eldaði þessa kjúklingasúpu og hún varð sérlega góð. Það er svo skrýtið að mér þykir hún aldrei verða eins. Ég hef eldað hana svo oft en veit aldrei hvernig hún endar. Hún er þó alltaf góð og hefur aldrei klikkað. Í gær setti ég smá karrý út í hana og chilisósu frá Felix sem mér þótti gera hana að spánýrri súpu. Eftir matinn settum við nammi í skál og horfðum á X-factor. Gleðin hélt síðan áfram þegar við uppgötvuðum að það var verið að sýna tónleika með Adele í norska sjónvarpinu. Allt kvöldið var ég þó að laumast í nýju matreiðslubækurnar og grípandi í prjónana þess á milli.

Ég er búin að eyða morgninum í að fletta uppskriftum og skrifa vikumatseðilinn. Áður en ég fer út í búð ætla ég að gefa uppskrift af þessari góðu skúffuköku sem ég baka svo oft og síðast núna í vikunni. Mikið þykir mér þessi kaka alltaf góð og með ískaldri mjólk er hún gjörsamlega ómótstæðileg.

Einföld og góð skúffukaka

 • 150 g smjör
 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 msk kakó
 • 4 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 1/2 dl mjólk

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið  og látið það kólna aðeins. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Blandið þurrefnunum saman og hrærið saman við eggin og sykurinn. Bætið smjörinu og mjólkinni saman við og blandið öllu vel saman. Setjið deigið í smurt skúffukökuform og bakið í miðjum ofni í ca 25 mínútur.

Glassúr

 • 75 g smjör
 • 2 msk kaffi
 • 2 msk kakó
 • 2 tsk vanillusykur
 • 3 1/2 dl flórsykur

Bræðið smjörið og blandið hinum hráefnunum saman við þannig að allt bráðni saman. Breiðið glassúrnum yfir kökuna og stráið grófu kókosmjöli yfir.

Ofnbakaðar kjötbollur

Ég held að það sé óhætt að segja að við höfum smitast af kjötbolludálætinu þegar við bjuggum í Svíþjóð. Okkur þykja þær svo góðar og sérstaklega heimagerðar með alvöru kartöflumús, rjómasósu og sultu.  Við erum þó alls ekki fín með okkur í þessum málum og kjötfarsbollur eru alltaf velkomnar á diskana okkar. Því verður þó ekki neitað að alvöru heimagerðar kjötbollur eru í algjöru uppáhaldi.

Ef ég ætla að slá í gegn hjá fjölskyldunni þá elda ég þessar kjötbollur. Þær eru svo dásamlega góðar og það er lygilega einfalt að búa þær til. Mér þykir gott að gera tvöfalda uppskrift og frysta helminginn. Það er svo góð tilfinning af vita af svona fjársjóði í frystinum sem hægt er að grípa til þegar lítill tími gefst fyrir eldamennsku. Þá læt ég þær frosnar í 175° heitan ofn og leyfi þeim að dvelja þar á meðan kartöflurnar sjóða.

Ég gaf uppskriftina í Fréttablaðinu 6. október sl. en hún þolir vel að vera líka birt hér.

Ofnbakaðar kjötbollur

 • 450 g nautahakk
 • 2 egg
 • 1/2 bolli mjólk
 • 1/2 bolli rifinn parmesanostur
 • 1 bolli brauðmylsna
 • 1 lítill laukur, hakkaður smátt eða maukaður með töfrasprota
 • 2 pressuð hvítlauksrif
 • 1/2 tsk oreganó
 • 1 tsk salt
 • nýmalaður pipar
 • 1/4 bolli hökkuð fersk basilika eða 1/2 msk þurrkuð

Hrærið eggjum og mjólk saman og setjið brauðmylsnuna út í. Setjið öll hráefnin saman í skál og bætið eggjablöndunni við. Blandið öllu vel saman með höndunum eða með hnoðaranum á hrærivél. Mótið bollur og raðið á smjörpappírsklædda bökunarplötu.

Bakið við 180° í ca 30 mínútur eða þar til bollurnar eru eldaðar í gegn og komnar með fallega húð.

Lambahryggur með hvítlauks- og rósmarínraspi og sveppasósu

Mér finnst ég ekki hafa sinnt blogginu nógu vel síðustu daga. Ég get ekki kennt annríki um því við eyddum helginni í mestu makindum og vorum mest að hafa það notalegt. Það gerðist fátt en þó má gleðjast yfir einu og öðru, eins og til dæmis að nóvemberkaktusinn lifir enn góðu lífi og hefur nú tekið að blómstra. Ég get ekki hætt að horfa á hann og þykir hann svo dæmalaus fallegur.

Ég keypti lukt og setti í einn gluggann í stofunni. Mér þykir koma svo hlýleg stemmning frá henni og kveiki á kertinu um leið og tekur að dimma. Ég leyfi tálguðu krummunum að húka í skimunni frá kertaljósinu og þykir eitthvað ævintýralegt við það.

Ég fékk akút löngun í að prjóna vettlinga og fór og keypti garn. Þegar ég kom aftur heim blöstu við mér efst í prjónakörfunni sama garn  í sömu litum og ég hafði keypt. Nú ætti ég því að vera vel sett í bili.

Við hengdum loksins upp mynd á tóma eldhúsvegginn. Veggurinn hefur verið ber frá því að við máluðum í sumar því við höfum ekki getað ákveðið hvað eigi að vera þar. Um helgina tókum við loksins ákvörðun og verkið eftir Hring fór á vegginn. Mér þótti það breyta öllu eldhúsinu, ótrúlegt en satt.

Ég bakaði sandköku með vanillukremi sem okkur þótti svo æðislega góð. Ég ætla að setja inn uppskriftina fljótlega, jafnvel bara strax á morgun.

Gunnar lét síða hárið fjúka á laugardeginum. Okkur þótti þetta svo stór ákvörðun og vorum með hnút í maganum yfir henni. Það reyndist ástæðulaust því hann er alsæll með nýja lúkkið og við hin líka.

Við enduðum helgina á dýrindis máltíð sem við hjónin lágum afvelta eftir út kvöldið. Ég hafði séð í helgarblaðinu auglýsingu um að það væri komið ferskt lambakjöt af nýslátruðu í búðina og keypti uppáhalds bitan minn, hrygg.  Ég eldaði hann á nýjan máta og var mjög ánægð með útkomuna. Ég ætla að enda færsluna á uppskriftinni, ef einhverjum langar að prófa.

Lambahryggur með hvítlauks- og rósmarínraspi

 • 1/2 bolli fersk brauðmylsna
 • 2 msk pressaður hvítlaukur
 • 2 msk hakkað ferskt rósmarín
 • 1 tsk maldon salt
 • 1/4 tsk svartur pipar
 • 2 msk ólívuolía
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk pipar
 • 2 msk ólívuolía
 • 1 msk dijon sinnep (ég notaði chili-sinnepið frá Nicolas Vahé)

Hitið ofninn í 200°.

Ristið brauðsneið og rífið niður í matvinnsluvél eða með rifjárni. Blandið saman brauðmylsnu, hvítlauk, rósmarín, salti og pipar í skál. Hellið ólívuolíu yfir og blandið vel. Setjið til hliðar.

Kryddið lambahrygginn með salti og pipar. Nuddið með ólívuolíu og burstið sinnepi yfir hrygginn. Veltið hryggnum upp úr brauðmylsnunni og setjið hann í ofnskúffu þannig að beinið snúi niður og kjötið upp.

Eldið í miðjum ofni í um 20 mínútur, lækkið þá hitann í 160° og eldið áfram í 30-45 mínútur, eftir því hversu mikið kjötið á að vera steikt. Látið hrygginn standa í 5-7 mínútur áður en hann er skorinn.

Sveppasósa

Skerið 1 box af sveppum gróflega og 1/4 – 1/2 lauk fínlega niður og steikið við miðlungshita upp úr vænni klípu af smjöri og smá ólívuolíu. Leyfið að malla í góða stund. Hellið ca 3 dl af rjóma eða matreiðslurjóma yfir og bætið  1/2 niðurskornum piparosti í pottinn. Látið sjóða við vægan hita á meðan piparosturinn bráðnar. Smakkið til með grænmetiskrafti (1/2 – 1 teningur) og kryddið með smá cayanne pipar.

Sambal oelek

Ég veit ekki hvað ég hef fengið marga tölvupósta og fyrirspurnir um sambal oelek og ákvað því að svara þeim hér í sér færslu. Mér þykir þetta chilimauk svo gott og nota það mikið í eldamennsku. Það virðist þó sem þetta sé nokkuð nýtt hér á Íslandi og því margir sem þekkja ekki til þess.

Þegar ég bjó í Svíþjóð vandist ég á að nota sambal oelek í matargerð. Þegar við fluttum heim fann ég það hins vegar ekki í búðunum hér heima og lagði það þá í vana minn að byrgja mig upp í Svíþjóðarferðum mínum.

Það er ekki langt síðan ég byrjaði að sjá þetta í hillunum í Bónus, mér til mikillar gleði. Nú er ég ekki með á hreinu í hvaða fleiri verslunum sambal oelek fæst en það kemur frá Santa Maria og hlýtur því að fást víðar en í Bónus. Ég skal hafa augun opin og láta vita ef ég sé þetta á fleiri stöðum.

 

Kjúklingur með karamelluhúðaðri papriku í mangó chutney sósu

Ég er á hraðferð því við erum að fara með Gunnar í klippingu. Ég er með smá hnút í maganum yfir þessu því hann er búinn að hafa svo mikið fyrir því að safna síða hárinu sínu. Hann er þó alveg ákveðinn og við erum spennt að sjá útkomuna.

Áður en við förum verð ég þó að segja frá nýrri  prófaði kjúklingauppskrift sem ég prófaði í gærkvöldi sem var æðisleg og klárlega nýr uppáhaldsréttur. Sósan er himnesk og við skildum ekki dropa eftir. Ef ykkur vantar hugmynd að kvöldmat fyrir kvöldið þá mæli ég hiklaust með að þið prófið.

Kjúklingur með karamelluhúðaðri papriku í mangó chutney sósu

 • kjúklingabringur (ég var með 900 gr)
 • 1 rauð paprika
 • 4 tsk sykur
 • 3 dl rjómi
 • 1 tsk karrý
 • 1,5 tsk sambal oelek
 • 1 dl mangó chutney
 • 2 hvítlauksrif

Hitið ofninn í 220°. Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Saltið og piprið og leggið í eldfast mót. Skerið paprikuna niður  og steikið upp úr sykri (setjið sykurinn og paprikuna á hreina pönnu og steikið þar til paprikan er mjúk). Setjið yfir kjúklinginn.

Þeytið rjómann. Bætið karrý, sambal oelek, mangó chutney og hökkuðum hvítlauk saman við þeytta rjómann og blandið vel saman með sleikju. Setjið blönduna yfir kjúklinginn og bakið í ofni í ca 25-30 mínútur.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.