Ísbaka með bourbon karamellu.

Ísbaka með bourbon karamellu

Við höfum undanfarin ár boðið gestum hingað til okkar um áramót í kalkún. Ég geri alltaf tvenna eftirrétti fyrir þetta síðasta kvöld ársins. Annar eftirrétturinn er alltaf marensrúlla með ástaraldin, sem allir elska og má alls ekki sleppa,  en hinn eftirrétturinn er breytilegur og mér þykir alltaf gaman að velja hann og  prófa nýtt.

Ísbaka með bourbon karamellu

Í ár varð þessi ísbaka með bourbon karamellukremi fyrir valinu. Uppskriftin kemur frá engri annarri en Nigellu og eins og flestar uppskriftir sem ég hef gert frá henni var hún óendanlega góð. Börnin litu ekki við henni eftir að þau heyrðu að það væri kaffi í ísnum og whiskey í karamellusósunni en við fullorðna fólkið gátum ekki hætt að borða hana og fögnuðum því að hafa bökuna fyrir okkur.

Það er ekki vínbragð af karamellunni heldur gefur bourbonið henni einungis góðan keim. Ísinn er keyptur og ég valdi að nota cappucino-karamelluís Fabrikkunnar (fæst m.a. í Bónus) sem okkur fannst mjög góður.

Þessi ísbaka var stórkostlega góð og við höfum ekki getað hætt að hugsa um hana. Ég mun klárlega endurtaka leikinn við fyrsta mögulega tækifæri. Eins og svo oft áður fannst mér mikill kostur að geta útbúið hana með góðum fyrirvara og því er hún frábær eftirréttur fyrir matarboð.

Ísbaka með bourbon karamellu

Ísbaka með bourbon karamellu

Skel:

  • 375 g digestive kex
  • 75 g mjúkt smjör
  • 50 g dökkt súkkulaði
  • 50 g rjómasúkkulaði

Fylling:

  • 1 líter kaffiís

Toppur:

  • 300 g síróp (Lyle´s golden syrup)
  • 100 g ljós muscovado sykur (ég notaði 35 g ljósan púðursykur og 65 g venjulegan púðursykur)
  • 75 g smjör
  • 1/4 tsk maldon salt
  • 2 msk bourbon (ég notaði 1 msk)
  • 125 ml rjómi

Setjið hráefnin í skelina í matvinnsluvél og vinnið saman. Þrýstið deginu í botn og meðfram hliðum á bökumóti. Reynið að hafa hliðarnar háar, helst aðeins upp fyrir kanntinn á mótinu. Frystið í um klukkutíma til að botninn verði alveg harður.

Ísbaka með bourbon karamellu

Látið ísinn mýkjast í ískáp þar til hægt er að breiða honum í skelina. Passið að mýkja hann ekki of mikið, hann á ekki að bráðna. Breiðið ísnum í harða skelina. Setjið plastfilmu yfir og frystið.

Ísbaka með bourbon karamelluÍsbaka með bourbon karamellu

Setjið smjör, síróp, salt og sykur í pott og látið bráðna yfir miðlungshita. Hækkið hitann og sjóðið í 5 mínútur. Takið pottinn af hitanum, bætið  bourbon í hann (það mun krauma í blöndunni við þetta). Bætið rjómanum í pottinn og hrærið öllu vel saman.

Látið karamelluna kólna áður en hún er sett yfir ísinn. Þegar karamellan hefur kólnað er henni hellt yfir ísinn þannig að hún hylji hann og að því loknu er bakan sett aftur í frystinn. Þegar karamellan er frosin er plastfilma sett yfir og geymt þannig í frystinum þar til bakan er borin fram.

18 athugasemdir á “Ísbaka með bourbon karamellu.

  1. Þessi lítur guðdómlega vel út…og ég er viss um að hún smakkast álíka vel 😉 Hlakka til að finna mér tilefni til að prufa hana!

    Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allan innblásturinn í eldunar/baksturmálum á árinu 🙂

  2. Sæl Svava – hvernig nærðu bökunni svona fullkomlega úr forminu og án þess að hún molni? Er þetta einhversskonar smelluform og er botninn ennþá undir bökunni?
    Gleðilegt ár og takk fyrir þessa frábæru síðu 🙂

    1. Sæl Auður og gleðilegt ár 🙂
      Það er ekkert mál að ná bökunni úr forminu því botninn er laus í því. Ég einfaldlega ýti undir botninn og þá verða hliðarnar á forminu eftir.
      Bestu kveðjur, Svava.

  3. Ég þarf bara að sjá bourbon í titlinum og ég er seld! Ég hef aldrei prófað að setja bourbon í karamellu en ég er handviss um að það sé eitthvað stórfenglegt. Þetta er komið á „verð-að-prófa-listann“. 🙂

  4. Hversu stórt form ertu með? Ég fór í Pipar og Salt áðan og keypti 28 cm form sem var það stærsta sem þær áttu. Er það sama stærð og þú notar?
    Heitir Whiskey-ið Bourbon sem þú notar í þetta?

Skildu eftir svar við Kolla Hætta við svar