Brownies með saltri karamellusósu

Brownies með saltri karamellusósu

Í lok janúar pantaði ég mér áskrift að Bon Appétit blaðinu. Síðan þá hef ég brunað spennt heim úr vinnunni í von um að blaðið biði mín og það var ekki fyrr en í síðustu viku sem það loksins datt inn um lúguna hjá okkur. Ég var eiginlega búin að gefa upp vonina.

Brownies með saltri karamellusósu

Blaðið reyndist biðarinnar virði og ég hef nú þegar prófað tvær uppskriftir sem hafa báðar slegið í gegn hjá okkur. Þessar brownies með saltri karamellusósu er önnur uppskriftanna og hamingjan hjálpi mér hvað þær voru góðar. Ég bar þær fram í matarboði sem eftirrétt á skírdag og þær einfaldlega fullkomnuðu máltíðina. Klárlega bestu brownies sem ég hef á ævi minni smakkað og ég get ekki beðið eftir tækifæri til að bjóða upp á þær aftur.

Brownies með saltri karamellusósu

Það má gera brownie-kökuna deginum áður. Setjið þá plast yfir hana og geymið við stofuhita. Karamellusósuna má gera með viku fyrirvara. Setjið hana í lokaðar umbúðir og kælið. Hitið hana upp áður en hún er borin fram.

Brownies með saltri karamellusósu (uppskrift úr Bon Appétit)

 • 1 msk kakó
 • ½ bolli (115 g) ósaltað smjör
 • 85 g ósætt súkkulaði (með sem hæsta kakóinnihaldi, helst yfir 80%), hakkað
 • 55 g suðusúkkulaði, hakkað
 • 2/3 bolli hveiti
 • 1 msk instant espresso kaffiduft
 • 1/4 tsk gróft salt
 • 2 stór egg
 • 1 bolli sykur
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/3 bolli grófhakkað suðusúkkulaði

Hitið ofninn í 175°. Smyrjið kökuform sem er 20×20 cm og stráið kakó yfir það. Hellið því kakói frá sem ekki festist.

Bræðið smjör, ósætt súkkulaði og suðusúkkulaði saman í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði og hrærið blöndunni saman í slétt krem. Leggið til hliðar.

Hrærið hveiti, espressó dufti, grófu salti og 1 msk kakó saman í skál. Leggið til hliðar.

Hrærið egg og sykur saman í hrærivél (eða með handþeytara) á hröðustu stillingu þar til blandan verður ljós og þykk, um 2 mínútur. Hrærið vanilludropunum saman við. Hrærið súkkulaðiblöndunni varlega saman við og þar á eftir þurrefnunum. Passið að ofhræra ekki deigið heldur einungis hræra það saman þar til blandan er kekkjalaus. Hrærið 1/3 bolla af grófhökkuðu suðusúkkulaði saman við og setjið deigið í kökuformið.

Bakið þar til prjóni stungið í deigið kemur með mjúkri mylsnu upp, eða í 20-25 mínútur. Takið kökuna úr ofninum og látið kólna í forminu.

Sölt karamellusósa

 • 1/2 bolli sykur
 • 2 msk vatn
 • 2 msk ósaltað smjör, skorið í litla bita
 • 2 msk rjómi
 • sjávarsalt

Setjið sykur og vatn í lítinn pott og hitið á miðlungsháum hita (ég var með stillingu 5 af 9) þar til byrjar að sjóða. Hrærið í pottinum þar til sykurinn leysist upp. Þegar byrjar að sjóða í pottinum þá er hitinn hækkaður örlítið (ég hækkaði hann í stillingu 6) og hætt að hræra í pottinum. Veltið pottinum annað slagið og burstið niður með hliðunum með blautum pensli. Látið sjóða þar til sykurinn er orðinn fallega gylltur á litinn, það tekur 5-8 mínútur. Takið pottinn af hitanum og hrærið smjöri og rjóma saman við (blandan mun bullsjóða við þetta). Hrærið í pottinum þar til blandan er slétt. Látið karamellusósuna kólna aðeins í pottinum.

Skerið brownies-kökuna í bita, hellið volgri karamellusósunni yfir og stráið sjávarsalti yfir karamellusósuna.

Marineraðar eplasneiðar

Marineraðar eplasneiðar

Ég hef aldrei verið mikið fyrir epli, ja nema þau séu í kökum. Þá elska ég þau. Ég elska eplakökur svo ég tali nú ekki um heit eplapæ með vanilluís. Oh, hvað ég væri til í svoleiðis núna…

Marineraðar eplasneiðar

Það gerðist hins vegar um daginn að ég sá spennandi mareningu fyrir epli á Pinterest. Það sem vakti áhuga minn var sítrónusafinn í marineringunni því ég hef alltaf verið veik fyrir sítrónum. Ég ákvað því að prófa, skar eplin niður og setti í mareneringu fyrir kvöldmat og yfir sjónvarpinu um kvöldið dró ég þau svo fram. Það var ekki aftur snúið, fjölskyldan kolféll fyrir þessum marineruðu eplum og meira að segja ég líka. Hver hefði trúað því?

Marineraðar eplasneiðar

Ég hef varla gert annað síðan en að skera niður og marinera epli. Krakkarnir eru vitlausir í þetta. Ég nota Fuji eplin sem eru seld tvö saman í plastöskjum (hræðilega óumhverfisvænt allt saman en það er nú önnur saga). Þau eru safarík og fersk eins og þau koma af kúnni en eftir að hafa legið í marineringunni í ískápnum verða þau ómótstæðileg. Nánast eins og sælgæti. Prófið!

Marineraðar eplasneiðar

Marineraðar eplasneiðar

 • 2 fuji epli
 • 1 sítróna
 • 1 appelsína

Skerið eplin í þunnar sneiðar. Kreistið safana úr sítrónunni og appelsínunni og blandið þeim saman í skál. Leggjið eplasneiðarnar í skálina og reynið að láta þær allar liggja í safanum. Geymið í ísskáp í 30 mínútur til 2 klst.

Beikon- og cheddarvöfflur

Beikon- og cheddarvöfflur

Ég  furða mig oft á því hvað ég á morgunþreytta fjölskyldu því það virðist sama hvað ég sef lengi um helgar, ég er alltaf fyrst á fætur. Og ég elska það.

Það er eitthvað við það að koma fram í þögnina á morgnana, sjá morgunsólina skína inn um eldhúsgluggann, kveikja á útvarpinu og dunda sér við að gera morgunmat á meðan fjölskyldan sefur. Þegar þau koma fram er ég yfirleitt búin að ná að leggja á borð og við getum sest niður saman.

Beikon- og cheddarvöfflur

Þegar ég gerði þessar cheddar- og beikonvöfflur þá var ég svo spennt að smakka þær að ég beið ekki eftir að neinn kæmi fram. Ég réði ekki við mig og áður en ég vissi af var ég búin að borða tvær vöfflur með pönnukökusýrópi án þess að átta mig á því að ég hafði gleymt hrærðu eggjunum sem ég ætlaði að hafa með þeim.

Þegar ég var búin gekk ég frá disknum mínum, lagði hreinan á borðið og lét sem þetta hafði aldrei gerst. Hver ætti svo sem að sjá að það vantaði tvær vöfflur á diskinn? Enginn.

Beikon- og cheddarvöfflur

Beikon- og cheddarvöfflur (uppskrift frá Shutterbean)

 • 2 bollar hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 •  ½ tsk salt
 • nýmalaður pipar
 • 1 bolli rifinn cheddar ostur
 •  ½ bolli steikt beikonkurl
 • 2 stór egg
 • 1  ½ bolli mjólk
 • 2 msk grænmetisolía (vegetable oil)
 • hlynsíróp/pönnukökusíróp til að bera fram með vöfflunum

Hitið vöfflujárn. Hrærið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti. Setjið ost og beikon saman við og blandið vel.

Hrærið saman í annari skál eggjum, mjólk og olíu. Setjið þurrefnin saman við og hrærið þar til allt hefur blandast. Passið að ofhræra ekki deigið.

Setjið feiti á heitt vöffujárnið. Setjið um  ½ bolla af deigi á vöffujárnið og bakið í 3-5 mínútur eða þar til vafflan er gyllt á litinn og osturinn er bráðnaður. Endurtakið þar til deigið er búið. Berið vöfflurnar fram heitar með hlynsírópi.

Tælenskt kjúklingaenchiladas

Tælenskt kjúklingaenchiladas

Ég er ekki með neinn móral yfir að hafa boðið upp á sítrónukökuna á mánudaginn en ef einhverjum hefur blöskrað óhollustan þá bæti  ég upp fyrir það núna með þessum súperhollu en jafnframt stórkostlega góðu enchiladas.

Tælenskt kjúklingaenchiladas

Það er gerist ekki oft að ég fæ æði fyrir heilsuréttum (sem þessi er svo sannarlega á minn mælikvarða) en þessar kjúklingavefjur hafa átt hug minn allan síðan ég eldaði þær. Mér þóttu þær stórkostlega góðar og ég var í skýjunum yfir að ná að lauma einni vefju frá til þess að eiga í nesti daginn eftir. Og þar var ég sniðug því það var barist um síðustu bitana.

Tælenskt kjúklingaenchiladas

Þessar vefjur eru klárlega nýtt uppáhald hjá okkur og verða eldaðar aftur við fyrsta tækifæri. Ég mæli með að þið prófið þær strax um helgina. Þið eigið ekki eftir að sjá eftir því!

Tælensk kjúklingaenchiladas (uppskrift frá How Sweet It Is)

 • 8 mjúkar tortillukökur
 • 2 kjúklingabringur, soðnar og tættar
 • 1 msk olía
 • 1/2 laukur, hakkaður
 • 1/3 bolli rifnar gulrætur
 • 1/2 bolli rifið hvítkál
 • 4 pressuð hvítlauksrif
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 tsk pipar
 • 4 vorlaukar
 • 1/3 bolli hakkaðar salthnetur + meira sem skraut
 • 1/4 bolli hakkað ferskt kóriander + meira sem skraut
 • 2  ½ bolli létt kókosmjólk
 • 1/3 bolli + 1/2 bolli sweet chili sauce

Hitið ofninn í 175°.

Hitið olíu á pönnu yfir miðlungshita og setjið lauk, hvítkál, gulrætur, hvítlauk og 1/4 tsk salt á pönnuna. Hrærið annað slagið í pönnunni og látið malla þar til grænmetið er orðið mjúkt, 6-8 mínútur. Passið að hafa ekki of háan hita.

Bætið kjúklingnum (það er gott að tæta hann með því að skera soðnar bringurnar í grófa bita, setja þær í skál og hræra þær með handþeytara), vorlaukum, salthnetum, kóriander, salti og pipar á pönnuna. Blandið öllu vel sama og látið malla saman í 1-2 mínútur. Bætið 3/4 bolla af kókosmjólk og 1/3 bolla af sweet chili sósu á pönnuna og látið allt blandast vel saman. Takið pönnuna af hitanum og leggið til hliðar.

Smyrjið eldfast mót sem er 22 x 33 cm. Hrærið saman það sem eftir var af kókosmjólkinni og sweet chili sósunni. Hellið um 1/2 bolla af sósublöndunni í botninn á eldfasta mótinu. Skiptið fyllingunni (sem er á pönnunni) jafnt á tortillukökurnar, rúllið þeim þétt upp og leggið í eldfasta mótið. Hellið afgangnum af sósublöndunni yfir og passið að láta blönduna fara yfir allar tortilluvefjurnar.

Bakið í 20 mínútur. Takið úr ofninum og stráið fersku kóriander og hökkuðum salthnetum yfir. Sósan í botninum á mótinu er of góð til að láta fara til spillis, setjið skeið í mótið og ausið sósunni yfir vefjurnar. Namm!

Starbucks sítrónukaka

Starbucks sítrónukaka

Ég veit að ég ætti að vera snjöll og byrja vikuna á færslu með einhverri æðislegri hollustu en ég bara ræð ekki við mig. Ég get ekki hætt að hugsa um þessa fersku, mjúku sítrónuköku sem ég bakaði um daginn. Hún var himnesk og mig er búið að langa í hana á hverjum degi síðan. Ég set samt hendina á hjartað og lofa að hún var ekki í kvöldmat hjá okkur í kvöld. Það var fiskur og þið viljið ekki fá uppskriftina að honum. Ég lofa. Það sem þið eigið frekar eftir að vilja er uppskriftina að þessari dásamlegu köku því hún gerir lífið aðeins betra.

Starbucks sítrónukaka

Þegar ég er erlendis þá má ég ekki sjá Starbucks stað án þess að vilja rjúka þangað inn. Ég lít þó ekki við kaffinu heldur er það sítrónuformkakan þeirra sem hrópar á mig. Ég man eftir því eins og það hafi gerst í gær þegar ég smakkaði hana fyrst. Mér fannst hún svo stórkostlega góð. Síðan þá hef ég verið veik fyrir henni og næ mér í sneið við hvert tækifæri sem gefst.

Starbucks sítrónukaka

Ég rakst á uppskriftina að kökunni á netráfi mínu eitt kvöldið og hjartað tók auka slag þegar ég sá hana. Ég veit ekki af hverju ég hef ekki leitað að uppskriftinni áður en þarna bara var hún, Starbucks sítrónuformkakan.

Starbucks sítrónukaka

Ég þori ekki að lofa að þetta sé sama kakan en þessi var svo góð að mér er í raun alveg sama. Þessi heimabakaða Starbuckskaka uppfyllir alla mínar sítrónukökulanganir og ríflega það.

Starbucks sítrónukaka

 • 1 ½ bolli hveiti
 •  ½ tsk lyftiduft
 •  ½ tsk matarsódi
 •  ½ tsk salt
 • 3 egg
 • 1 bolli sykur
 • 2 msk mjúkt smjör
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 tsk sítrónudropar
 • 1/3 bolli sítrónusafi
 •  ½ bolli bragðdauf olía (ekki ólívuolía)
 • hýði af 1 sítrónu

Glassúr

 • 1 bolli flórsykur
 • 2 msk nýmjólk
 •  ½ tsk sítrónudropar

Kakan:

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform vel.

Blandið hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál.

Hrærið saman í annari skál eggjum, sykri, smjöri, vanilludropum, sítrónudropum og sítrónusafa þar til hefur blandast vel. Hrærið blöndunni saman við þurrefnin og hrærið þar til deigið verður mjúkt. Bætið olíu og sítrónuhýði saman við og blandið vel. Setjið deigið í smurt formkökuform og bakið í 45 mínútur eða þar til prjóni sem er stungið í kökuna kemur hreinn upp.

Glassúr:

Hrærið öllu saman og hellið yfir kökuna.

 

Amerískar pönnukökur

Amerískar pönnukökur

Ó, hvað ég elska helgarnar.  Ég elska að koma heim eftir vinnu á föstudögum með blóm til að setja í vasa, elska að gera föstudagspizzu með krökkunum, elska sjónvarpskvöldin okkar með fullum skálum af nammi, elska að fara upp í hreint rúm á föstudagskvöldum og ég elska langa helgarmorgunverði.

Amerískar pönnukökur

Ég myndi vilja byrja allar helgar á svona morgunverði. Amerískar pönnukökur með hlynsýrópi og smjöri (ójá, ég set bæði á pönnukökuna. Ég meina, af hverju að velja bara annað þegar bæði er best?), stökkt beikon og hrærð egg með salti, pipar og herbs de provence-kryddblöndu sem tengdó keypti handa mér á markaði í Frakklandi (ég veit, hún dekrar við mig). Á meðan enginn sér set ég smá meira hlynsíróp þannig að það leki yfir allt. Með þessu hef ég ískaldan ávaxtasafa með klökum.

Ein ábending, gerið vel af pönnukökunum svo það verði afgangur eftir morgunverðinn og hafið stærðina á þeim þannig að hægt sé að stinga þeim í brauðristina. Ég stafla þeim á disk og set plast yfir. Um kvöldið eru þær alltaf búnar. Krakkarnir elska að geta stungið sér pönnuköku í brauðristina yfir daginn og smurt með smjöri og osti.

Amerískar pönnukökur

Amerískar pönnukökur (uppskrift fyrir 4)

 • 3/4 bolli mjólk
 • 2 msk hvítvínsedik
 • 1 bolli hveiti
 • 2 msk sykur
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk salt
 • 1 egg
 • 2 msk brætt smjör
 • 1 tsk vanilludropar

Blandið mjólk og hvítvínsediki saman í skál og látið standa í 10 mínútur. Hafið engar áhyggjur af hvítvínsedikinu, þið eigið ekki eftir að finna bragð af því.

Blandið þurrefnum saman í skál. Blandið mjókur/ediksblöndunni, eggjum og smjöri saman í annarri skál og hrærið blöndunni síðan saman við þurrefnin. Hrærið þar til blandan er að mestu laus við kekkji en passið að ofhræra ekki deigið.

Látið deigið standa í 10 mínútur (ath. að það er þykkt, ekki þynna það). Eftir 10 mínútur verða komnar bólur í deigið, ekki hræra í því. Takið varlega ca 1/4 bolla af deigið og setjið á heita pönnu sem hefur verið brætt smá smjör á. Steikið þar til loftbólur myndast  og snúið pönnukökunni þá við og steikið á hinni hliðinni.

Satay kjúklingasalat

Það er svo margt sem mig dreymir um að eignast fyrir heimilið. Listinn breytist með tíð og tíma en sumir hlutir eru fastir á honum. Það eru hlutirnir sem ég ætti að kaupa. Ég veit samt innst inni að ég á ekki eftir að gera það því mér þykja þeir eru flestir svo asnalega dýrir. En að dreyma kostar ekkert og ef ég safna þeim hér saman þá fegra þeir síðuna mína og þá á ég þá svolítið.

dagg

Vasinn Dagg frá Svenskt tenn þykir mér fallegasti vasi sem ég hef á ævi minni séð. Hann kostar formúgu og ég veit ekki til þess að hann fáist annars staðar en í Svíþjóð. Ég veit að ég á aldrei eftir að eignast hann því ég myndi seint kaupa mér blómavasa á 50 þúsund og hvað þá nenna að ferja hann hingað heim. En ó, hvað hann er samt fallegur.

musselmaletcollage

Musselmalet matarstellið frá Royal Copenhagen. Svo dásamlega fallegt og klassískt og dýrt.

Satay kjúklingasalat

Kubus kertastjakinn hefur staðið lengi á óskalistanum en valkvíðinn stoppar mig. Svartur eða hvítur? Ég get ekki ákveðið það.

vipp

Vipp baðvörurnar færu vel á baðherberginu hjá mér. Stundum ákveð ég að láta vaða og kaupa þær en átta mig síðan á því að það er kannski hálf galið að kaupa klósettbursta á 29 þúsund. Svo ég hætti við.

Day lampi

Curves lampinn frá DAY home. Ómæ hvað ég elska hann. Ég vona að hann eigi eftir að standa á stofuskenknum hjá mér einhvern daginn.

Bestlite-BL3-Black-300x300

Bestlite gólflampinn má líka flytja inn. Ég ætla þá alltaf að sitja við hann og prjóna eða lesa. Lífið verður örlítið fallegra við það.

louse poulsen

Og á meðan ég er að láta mig dreyma um ljós þá má Collage ljósið frá Louise Poulsen alveg hanga yfir borðstofuborðinu mínu. Ég heyrði einhvern tímann að það að horfa á það eigi að vera eins og að liggja á skógarbotni og horfa í gegnum tréin upp í himininn. Mér fannst það rómantískt og ljósið verða enn fallegra fyrir vikið.

GlobalKnives

Það sem hefur staðið lengi til að eignast og ég skil ekki af hverju ég hef ekki látið verða af eru fleiri Global-hnífar. Ég á einn og nota hann í allt sem ég geri í eldhúsinu. Á innkaupalistanum standa brauðhnífurinn og grænmetishnífurinn.

Satay kjúklingasalat

Nú finn ég að ég er að komast á flug og ætla því að láta staðar numið áður en þetta endar í vitleysu. Það sem er hins vegar laust við alla vitleysu er kjúklingasalatið sem ég gerði um síðustu helgi. Það er í algjöru uppáhaldi hjá krökkunum og fyrir ári síðan boðuðu þau til fjölskyldufundar þar sem þau óskuðu eftir að við værum alltaf með það á laugardagskvöldum. Ég lét það eftir þeim í margar vikur því það virðist sama hvað við borðum þetta oft, við fáum ekki leið á því. Mig grunar að margir eigi uppskriftina en ég ætla samt að birta hana sem hugmynd að góðri byrjun á helginni. Þetta er alltaf jafn gott og svo dásamlega einfalt.

Satay kjúklingasalat

Satay kjúklingasalat með kúskús

 • kjúklingabringur
 • Satay sósa ( mér þykir frá Thai choice langbest)
 • kúskús (án bragðefna eða með sólþurrkuðm tómötum)
 • spínat (eða annað gott salat)
 • rauðlaukur
 • rauð paprika
 • kirsuberjatómatar
 • avokadó
 • salthnetur
 • fetaostur

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Hellið satay sósunni yfir og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Sjóðið kúskús eftir leiðbeiningum á pakka. Mér þykir gott að setja hálfan grænmetis- eða kjúklingatening í vatnið.

Skerið papriku og rauðlauk í strimla, kirsuberjatómata í tvennt og avokadó í sneiðar.

Setjið spínat í botninn á fati. Dreifið úr kúskúsinu yfir og setjið kjúklinginn yfir kúskúsið ásamt hluta af sósunni (geymið restina af sósunni). Stráið papriku, rauðlauk, kirsuberjatómötum, avokadó og fetaosti ásamt smá af olíunni yfir. Dreifið að lokum salthnetum yfir. Setjið það sem var eftir af satay sósunni í skál og berið fram með.