Stórgóð kjúklingabaka.

Við erum búin að bíða eftir þessu kvöldi alla vikuna. Það er eplakaka í ofninum og við ætlum að eyða kvöldinu í sjónvarpsófanum. Á meðan við bíðum eftir að X-factor byrji ætla ég að gefa uppskriftina af kvöldmatnum.

Í kvöld dró ég fram gamlan uppáhaldsrétt sem mér þykir vera frábær föstudagsmatur. Þessi baka kemur verulega á óvart og ekki láta hvítkálið fæla ykkur frá henni. Bakan er æðislega góð og krakkarnir eru ekki síður hrifin af henni en við Öggi.

Stórgóð kjúklingabaka

Bökudeig

  • 3 dl hveiti
  • 125 gr smjör
  • 2-3 msk kallt vatn

Fylling

  • 1 grillaður kjúklingur
  • 1 laukur
  • 3 dl niðurskorið hvítkál
  • 1 tsk salt
  • 1 poki taco-kryddblanda
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1 dl rjómi
  • smjör eða olía til að steikja lauk og hvítkál í
  • 150 gr rifinn ostur

Vinnið saman hráefnin í bökubotninn og látið standa í kæli um stund. Skerið lauk og hvítkál í sentimetersstóra bita og steikið þar til það verður mjúkt. Skerið kjúklinginn niður og bætið á pönnuna ásamt kryddum, sýrðum rjóma og rjóma. Hrærið í og látið sjóða við vægan hita um stund.

Þrýstið bökudeiginu í formið og forbakið í ca 10 mínútur við 200°. Hellið kjúklingahrærunni í og stráið ostinum yfir. Bakið við 225° í ca 25 mínútur. Berið fram með góðu salati. Í kvöld var ég með iceberg (skerið kálið niður og látið það liggja í ísköldu vatni, kálið verður brakandi stökkt og gott), rauða papriku, mangó, avókadó, gúrku, rauðlauk, fetaost og mulið nachos. Sjúklega gott.

Hindberjabaka með hvítu súkkulaði og möndluflögum

Í tilefni þess að þessi færsla er sú hundraðasta hér á blogginu ákvað ég að líta yfir farinn veg og benda á þrjár uppskriftir sem eru í uppáhaldi hjá mér.

Súkkulaði- og bananabakan kemur fyrst upp í hugann enda er það baka sem mig langar stöðugt í. Hún er með vanillukremi, bönunum, súkkulaðikremi og rjóma og það hljóta allir að átta sig á hversu dásamleg hún er.

Sá réttur sem ég tilnefni næst er kjúklingasúpan með ferskjunum. Ég hreinlega elska þessa súpu og gæti borðað hana í öll mál.

Ég er að átta mig á hversu erfitt mér þykir að velja þrjár uppskriftir. Ég á enn eftir að minnast á mexíkósku kjúklingabökuna, bananabrauðið og Silviukökuna. Ég get þó ekki sleppt því að telja upp brauðið sem ég hef bakað svo oft að það er ótrúlegt að við skulum ekki vera komin með leið á því. Þó að múslíið sem ég gaf uppskrift af í Fréttablaðinu sé komið í harða samkeppni við brauðið á morgnanna þá ætla ég að gefa brauðinu vinninginn, þar sem það hefur fylgt okkur svo lengi.

Ögga fannst við hæfi að fagna hundruðustu bloggfærslunni og mér leist stórvel á hugmyndina. Það fór svo að ég bauð fjölskyldunni upp á heita hindberjaböku með hvítu súkkulaði og möndluflögum og vanilluís með kvöldkaffinu við mikinn fögnuð viðstaddra. Við gætum vel vanist þessu á hverju kvöldi og ég deili uppskriftinni með ykkur af mikilli gleði.

Það vildi svo heppilega til að mamma leit við í miðjum fagnaðarlátum og ég náði að bjóða henni upp á nýbakaða hindberjabökuna og ís. Hún kom færandi hendi sem okkur þótti sérlega skemmtilegt á þessu bloggfærslu-afmæli. Í pakkanum leyndist æðislega fallegur glaðingur frá Le Creuset.

Hindberjabaka með hvítu súkkulaði og möndluflögum

  • 1 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 125 gr smjör
  • 4-5 dl frosin hindber (eða önnur ber)
  • 1 msk kartöflumjör
  • 3 msk sykur
  • 100 gr hvítt súkkulaði
  • 50 gr möndluflögur

Hitið ofninn í 200°. Blandið sykri og hveiti í skál og bætið smjörinu í teningum saman við. Klípið saman í grófan mulning og þrýstið í botninn á bökuformi. Blandið hindberjunum saman við kartöflumjölið og sykurinn og setjið blönduna yfir bökubotninn. Rífið hvítt súkkulaði og stráið yfir berin. Dreifið möndluflögum yfir og bakið í miðjum ofni í 20-25 mínútur, eða þar til bakan hefur fengið fallegan lit.

Berið fram með ís eða rjóma.

 

Rabarbarapæ i uppáhaldi

Ég get ekki sleppt því að setja inn uppskriftina af rabarbarapæinu sem ég er svo hrifin af. Ég gaf uppskriftina í Fréttablaðinu um helgina og er ekki að ýkja þegar ég segi að þetta rabarabarapæ er í algjöru uppáhaldi hjá mér.

Ég hef verið svo heppin að hafa fengið rabarbara síðustu ár frá vinkonu minni. Rabarbarann hef ég skorið niður og fryst í 500 gr. einingum. Þetta hefur verið mér mikill fjársjóður í frystinum og ég veit ekki hversu oft ég hef skellt í þetta rabarbarapæ þegar gesti ber að garði.

Mér þykir pæið best heitt og ef ég býð upp á það í eftirrétt þá hef ég úbúið það áður en gestirnir koma en baka það ekki fyrr en rétt áður en ég ætla að bera það fram. Ég ber pæið oftast fram með vanilluís og þykir kaldur ísinn fara æðislega vel með heitu rabarbarapæinu.

Rabarbarapæ

  • 500 gr rabarbari (ég nota hann frosinn og læt hann ekki þiðna áður)
  • 2 msk kartöflumjöl
  • 0,5 – 0,75 dl kanilsykur

Deig

  • 3,5 dl hveiti
  • 1 dl kókosmjöl
  • 1 dl sykur
  • 150 gr smjör eða smjörlíki

Hitið ofninn í 200°. ­Skerið ­rabarbarann í 1/2 cm ­þykkar sneiðar og leggið í botninn á eldföstu móti. Stráið kartöflumjöli og kanilsykri yfir.
Blandið hveiti, sykri og kókosmjöli í skál. Skerið smjörið í litla bita og bætið í skálina. ­Blandið smjörinu saman við þurr­efnin með höndunum þar til það myndast litlir kögglar og gróf mylsna. Dreifið deiginu yfir rabarbarann og bakið í miðjum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.

Tacobaka

Þessi vika hefur verið fullbókuð og mikið púsl að láta allt ganga upp. Það hefur gefist lítill tími í eldhúsinu og ég er búin að vera með hvern hraðréttinn á fætur öðrum alla vikuna. Ég er því búin að hlakka mikið til þess að eiga rólegt föstudagskvöld með fjölskyldunni og góðum mat.

Þessi tacobaka hefur verið reglulega á borðum hjá okkur í gegnum tíðina. Ég hef gert hana bæði fyrir matarboð og saumaklúbba og hef gefið mörgum uppskriftina að henni. Okkur þykir hún mjög góð og passa vel á föstudagskvöldum.

Mér þykir gott að bera bökuna fram með salati, nachos, salsa, sýrðum rjóma og guacamole eða avókadóhræru. Avókadóhræran er einföld og fljótleg og verður því oftar en ekki fyrir valinu. Ég einfaldlega stappa avókadó og blanda saman við pressað hvítlauksrif, sítrónusafa, cayanne pipar og smá sýrðum rjóma.

Botn

  • 4 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 50 gr smjör
  • 1 1/2 dl mjólk

Fylling

  • 500 gr nautahakk
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 msk tómatpuré
  • 2 msk chillisósa
  • 1 msk sojasósa
  • 2 tsk chilipipar (krydd)
  • 2 tsk cummin
  • 2 tsk kóriander (krydd)
  • 2 tsk karrý
  • 1-2 tsk salt
  • 2 dl vatn

Ofanlag

  • 3 tómatar
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 4 msk majónes
  • 150 gr rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°. Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti í skál. Látið smjörið ná stofuhita, skerið það í bita og blandið því við þurrefnin. Bætið mjólkinni saman við og hrærið öllu saman í deig. Þrýstið deiginu í bökuform eða smelluform. Það þarf ekki að forbaka botninn.

Hakkið lauk og steikið ásamt nautahakki og fínt hökkuðum hvítlauk. Steikið þar til nautahakkið er ekki lengur rautt. Bætið tómatpuré, chilisósu og sojasósu á pönnuna ásamt kryddunum og vatni. Látið sjóða við vægan hita þar til vatnið er næstum horfið, ca 10-15 mínútur. Smakkið til og kryddið meira ef þarf. Setjið nautahakkið yfir botninn.

Skerið tómatana í bita og dreifið yfir nautahakkið.

Hrærið saman sýrðum rjóma, majónesi og rifnum osti og breiðið yfir tómatana.

Bakið í miðjum ofni í ca 15 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn og fengið fallegan lit.

Berið fram með góðu salati, nachos, sýrðum rjóma, salsa eða guacamole.

 

 

 

Súkkulaði- og bananabaka með rjóma

Í dag er síðasti dagurinn í sumarfríi og á morgun tekur vinnan við. Ég get ekki annað en farið sátt og glöð til vinnu eftir frábært sumarfrí. Við erum búin að fara til London, þræða alla Vestfirðina, hitta vini, halda og fara í nokkur matarboð, fara margar ferðir í núðlusúpur á Skólavörðustíginn, prjóna, lesa Hungurleikana með strákunum og gera svo margt skemmtilegt. Ég var búin að gera lista fyrir sumarfrí yfir hluti sem ég ætlaði að gera, m.a. að baka Franskar makkarónukökur og fara út að hlaupa að minnsta kosti annan hvern dag, en það gleymdist alveg.

Í gær fengum við Ernu, Óla og fjölskyldu í mat. Það telst varla til tíðinda því það líður varla sá dagur að við hittumst ekki, enda nágrannar og við Erna búnar að vera það síðan við vorum fimm ára. Við buðum þeim upp á Orange Chicken í aðalrétt en í eftirrétt gerði ég þessa dásamlegu súkkulaði- og bananaböku með rjóma.

Ég keypti mér nýlega bökuform með lausum botni og var spennt að nota það. Það var því engin spurning um að gera böku í eftirrétt. Þegar kom að því að velja uppskrift mundi ég eftir að hafa séð uppskrift að þessari böku og langað að prófa hana. Vandamálið var hins vegar að ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvar ég hefði séð hana. En þrjóskan getur launað sig og eftir hálftíma leit fann ég uppskriftina. Því verður ekki neitað að leitin var vel þess virði því bakan var æðislega góð, svo gott að ég laumaðist í síðustu sneiðina um miðnætti því ég gat ekki hætt að hugsa um hana. Ég ætla að baka bökuna aftur við allra fyrsta tækifæri og hlakka til að leyfa fleirum að njóta.

Uppskriftin kemur frá Love & olive oil og eina breytingin sem ég gerði var að skipta vanilludropum út fyrir vanillusykur. Ég geri það nánast alltaf þegar ég baka því ég er ekki hrifin af dropabragði og finnst vanillusykurinn gefa svo mikið betra bragð.

Botninn

  • 1 bolli hveiti
  • 115 gr ósaltað kallt smjör
  • 1/4 tsk salt
  • 1/4 bolli kakó
  • 1/4 bolli sykur
  • 1/4 bolli vatn

Skerið smjörið í litla teninga og setjið í skál ásamt hveiti, salti, kakaói og sykri. Hnoðið saman í mulning og bætið þá vatninu við í smáum skömmtum. Notið bara eins mikið af vatni og þarf til að deigið haldist saman. Fletjið deigið út og leggði í bökuform (mitt form er 22 cm).  Þrýstið deiginu vel í botninn og upp á kantinn og leggið síðan álpappír yfir (þrýstið honum að deiginu). Setjið deigið í ískápinn í 10 mínútur eða á meðan þið hitið ofninn í 175°.  Til að deigið lyfti sér ekki í ofninum er gott að leggja baunir eða hrísgrjón ofan á álpappírinn. Bakið í 20 mínútur, takið þá álpappírinn af (og baunirnar eða grjónin) og bakið áfram í 10-15 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna alveg.

Vanillu- og súkkulaðikrem

  • 3/4 bolli sykur
  • 1/3 bolli hveiti
  • 1/4 tsk salt
  • 2 bollar nýmjólk
  • 3 eggjarauður
  • 1 msk ósaltað smjör
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/4 bolli suðusúkkulaði, saxað

Blandið saman sykri, hveiti, salti og 1 bolla af nýmjólkinni í potti. Hrærið vel saman og látið suðuna koma upp yfir miðlungs hita. Hrærið stöðugt þar til blandan verður slétt og þykk, það tekur um 2 mínútur, og takið þá pottinn af hitanum og látið kólna aðeins.

Hrærið saman eggjarauðum og 1 bolla af nýmjólk í skál. Bætið þykkri mjólkurblöndunni úr pottinum saman við í 4 skömmtum og hrærið vel á milli. Setjið blönduna aftur í pottinn og látið suðuna koma aftur upp. Hrærið stöðugt í pottinum. Þegar suðan kemur upp er hitinn lækkaður og látið sjóða í ca 1 mínútur eða þar til blandan minnir á þykkan búðing. Takið pottinn af hitanum og hrærið strax smjöri og vanillusykri saman við. Setjið helminginn af blöndunni í skál og leggið til hliðar. Bætið söxuðu suðusúkkulaði saman við þann helming sem eftir er í pottinum og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og blandan orðin slétt. Látið báðar fyllingarnar kólna aðeins.

Ofanálag og samsetning

  • 2 bananar, skornir í sneiðar
  • 1 bolli rjómi
  • 3 msk sykur
  • 1/2 tsk vanillusykur

Breiðið vanillufyllingunni yfir bökubotninn. Raðið einu lagi af niðurskornum banönum yfir og breiðið súkkulaðifyllingunni yfir bananana. Setjið í ískáp og leyfið að kólna alveg. Rétt áður en bakan er borin fram er rjóminn léttþeyttur, sykri og vanillusykri bætt út í og þeytt áfram þar til rjóminn er tilbúinn. Alls ekki þeyta hann of mikið. Breiðið rjómann yfir bökuna og skreytið með dökku súkulaði.

Mexíkósk kjúklingabaka

Ég ákvað fyrir viku að gera þessa böku í kvöld og er búin að hlakka til í allan dag.  Okkur finnst hún æðislega góð og það er ekki hægt annað en að elska hana. Hún er einföld, fljótgerð og fullkominn endir á vinnuvikunni.  Þið bara verðið að prófa.

Botn

  • 3 dl hveiti
  • 100 gr smjör
  • 2 msk vatn

Fylling

  • 3 kjúklingabringur
  • 1 laukur, hakkaður
  • nokkrir niðurskornir sveppir
  • 1 rauð paprika, skorin smátt
  • 150 gr. rjómaostur
  • 1/2 dós chunky salsa
  • 3 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 225°. Blandið hráefninu í botninn saman þannig að það myndi deigklump, fletjið hann út og fyllið út í bökumót (ég nota oft bara venjulegt kökuform). Forbakið í ca 10 mínútur.

Bræðið smjör á pönnu og mýkið laukinn, sveppina og paprikuna við miðlungsháan hita. Á meðan passar vel að skera kjúklingabringurnar í lekkera bita. Þegar grænmetið er tilbúið er það tekið af pönnunni og kjúklingabitarnir steiktir upp úr smjöri. Bætið grænmetinu aftur á pönnuna ásamt rjómaostinum og salsasósunni og leyfið að malla saman um stund.

Setjið fyllinguna í forbakaðan botninn og stráið rifnum osti yfir. Bakið þar til osturinn er bráðnaður og kominn með fallegan lit.

Berið fram með góðu salati, nachos, sýrðum rjóma og guacamole.