Ofnbakaður lax í pestórjómasósu

Ég sá frosinn lax í Ikea um daginn og varð forvitin að smakka hann. Þegar ég kom heim fór laxinn í frystinn og allur áhugi fyrir því að elda hann hvarf eins og dögg fyrir sólu. Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að frosinn lax úr Ikea gæti verið spennandi og satt að segja var hann bara fyrir mér þarna í frystinum.

Ég ákvað að fyrst ég er á annað borð að hreinsa úr skápunum að elda laxinn til að losna við hann. Ég átti líka rjómapela í frystinum sem ég vildi líka losna við. Pestó og sýrðan rjóma átti ég í ískápnum. Það varð lygilega góður réttur úr þessum fáu hráefnum og Gunnar sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem honum þykir lax svona góður.

Ofnbakaður lax í pestórjómasósu

  • 1 dl rjómi
  • 2 ½ dl sýrður rjómi
  • 1 teningur fiskikraftur
  • 2 msk rautt pestó
  • pipar og salt
  • Lax

Hitið ofninn í 180°. Leggið laxinn í eldfast mót.  Setjið rjóma, sýrðan rjóma, fiskkraft og rautt pestó í pott og hitið að suðu. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur og smakkið til með salti og pipar. Hellið sósunni yfir laxinn og setjið í ofninn í 25 mínútur.

Steiktur fiskur í parmesanraspi

Helgin leið hraðar en nokkurn tímann áður og áður en við vissum af var kominn mánudagur. Í kvöld nutum við góðs af því að hafa ekki eldað sunnudagsmatinn í gær og borðuðum indverskan kjúklingarétt með heimabökuðum nanbrauðum. Uppskriftin kom úr einni af nýju bókunum frá tengdó sem heitir Fredag. Við létum nafnið á bókinni ekki á okkur fá og brutum eflaust allar reglur með því að elda úr henni á mánudegi. Það virtist ekki koma að sök því rétturinn var stórgóður þó að mér hafi þótt hann fullsterkur, börnunum til mikillar furðu.

Síðasta mánudag var allt með hefðbundnari sniði og við borðuðum steikan fisk í parmesanraspi. Hann var alveg meiriháttar góður. Ég bar hann fram með soðnum kartöflum, hvítlaukssósu og hrásalati en það er líka mjög gott að bera hann fram með fersku salati og ofnbökuðum kartöflubátum.

Steiktur fiskur með parmesanraspi (uppskrift frá Vinotek)

  • 600-700 gr beinhreinsuð og roðlaus ýsu- eða þorskflök
  • 1 ½ bolli rifinn parmesanostur
  • 1 bolli brauðrasp. Best er að nota til helminga venjulegt brauðrasp og rasp úr grófu brauði (ristið brauðið, látið kolna og myljið í matvinnsluvél)
  • 2 egg
  • mjólk
  • hveiti
  • sítrónupipar

Skerið fiskinn í passlega bita. Pískið eggjunum og smá mjólk saman. Blandið saman 1 bolla af parmesan og brauðraspinu.

Veltið fiskbitunum upp úr hveitinu, síðan eggjablöndunni og að lokum parmesanraspinu. Hitið olíu og smjör saman á pönnu (passið að hafa hana ekki of heita) og steikið fiskinn á hvorri hlið þar til hann er kominn með fallegan lit. Kryddið með sítrónupipar og leggið í eldfast mót. Stráið afgangnum af parmesanostinum yfir og setjið í 170° heitan ofn í nokkrar mínútur eða þar til að osturinn byrjar að bráðna.

Bresk fiskibaka að hætti Gordon Ramsey

Ég fór á bókamarkaðinn í Borgartúninu um daginn og keypti mér matreiðslubók eftir Gordon Ramsey, Eldað um veröld víða. Bókin kostaði rétt undir þúsund krónum og mér sýnist hún hafa verið hin bestu kaup. Það eru margar girnilegar uppskriftir í henni sem verður gaman að prófa.

Á meðan ég beið eftir að Öggi lyki sínum vinnudegi ákvað ég að drepa tímann í einni af fallegustu búðum bæjarins, Pipar og salt. Ég gæti eytt heilu dögunum þar og kem aldrei tómhent þaðan út. Í gær sá ég eldhúsvog sem mér fannst ég þurfa að eignast. Þeir sem hafa séð gömlu eldhúsvogina mína furða sig á að mér takist yfir höfuð að baka. Hún er  eldgömul og ónákvæm og ofan á allt þá skemmdist skálin fyrir rúmu ári síðan. Nýja vogin þykir mér hátæknileg, hún er stafræn og hægt að stilla á milli gramma og punda. Ég er í skýjunum yfir þessum kaupum.

Eftir að við komum heim eldaði ég breska fiskiböku upp úr Gordon Ramsey bókinni. Eftir á að hyggja þá hefði ég varla getað valið verri dag til að elda hana. Við komum seint heim og allir voru orðnir sársvangir. Ofan á allt var Malín með vinkonum sínum á leiðinni í félagsmiðstöðina með glæsilega sælgætisköku sem þær höfðu bakað.

Eins og mér þykir gaman að dunda mér í eldhúsinu þá þykir mér ekkert gaman að elda í svona stressi. Ég held þó að öllum hafi þótt biðin vel þess virði því bakan var stórgóð og fór vel í mannskapinn.

Bresk fiskibaka

  • 1 laukur, afhýddur og skorin í fjórðunga
  • 3-4 negulnaglar
  • 1 lárviðarlauf
  • 250 ml rjómi
  • 250 ml mjólk
  • 400 gr þétt, hvít fiskflök (ég notaði þorsk)
  • 400 gr reykt ýsa
  • 30 gr smjör
  • 2 blaðlaukar, þvegnir og skornir í þunnar sneiðar
  • 30 gr hveiti
  • maldonsalt og svartur pipar
  • lófafylli af saxaðri steinselju
  • 300 gr hrár skelflettar rækjur (ég var ekki með þær)

Þekja

  • 750 gr afhýddar kartöflur
  • 75 gr smjör í bitum
  • 50 ml heit mjólk
  • 2 eggjarauður
  • 75-100 gr rifinn cheddar ostur

Stingið negulnöglum í laukinn og setjið í pott ásamt rjóma, mjólk og lárviðarlaufi. Látið suðuna koma upp og bætið þá hvíta fiskinum og reyktu ýsunni í pottinn. Sjóðið í 3-4 mínútur, fiskurinn þarf ekki að vera soðinn í gegn. Hellið úr pottinum í sigti og geymið vökvann.

Bræðið smjör í potti og steikið blaðlaukinn þar til hann mýkist, um 4-6 mínútur. Bætið hveitinu saman við og hrærið í 2 mínútur. Hellið vökvanum af fiskinum rólega út í og hrærið vel á milli. Látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur og hrærið öðru hverju í pottinum. Kryddið með salti og pipar og bætið steinselju saman við.

Skerið afhýddar kartöflur í bita og setjið í pott með saltvatni. Sjóðið þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn. Hellið vatninu frá og stappið kartöflurnar. Hrærið smjöri og mjólk vel saman við og látið stöppuna kólna aðeins. Hrærið eggjarauðum saman við  og kryddið með salti og pipar.

Hitið ofninn í 180°. Skerið fiskinn niður í munnbitastærð og blandið bitunum, ásamt rækjunum, saman við blaðlaukssósuna. Setjið fiskinn og sósuna í eldfast mót og breiðið kartöflustöppunni yfir. Gerið rákir með gaffli yfir kartöflumúsina og stráið rifnum cheddar osti yfir. Bakið í 25-30 mínútur eða þar til sósan í bökunni bullsýður og osturinn er kominn með fallegan lit.

Pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi

Í kvöld dró ég fram Jamie Oliver ársbókina eina ferðina enn. Ég held að bókin fari að detta í sundur því hún fær engan frið fyrir mér. Hún er mér traustur félagi í eldhúsinu og það er gott að geta dregið hana fram til að fá hugmyndir.

Í kvöld varð pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi fyrir valinu. Okkur þótti rétturinn feiknagóður og krakkarnir gáfu honum bestu einkunn. Ekki skemmdi fyrir að rétturinn var bæði einfaldur og tók stuttan tíma að útbúa.

Pönnusteiktur þorskur

  • 900 gr þorskur
  • 5 kúfaðar matskeiðar af hveiti
  • 2 egg
  • 150 gr brauðrasp
  • 1-2 pressuð hvítlauksrif
  • nokkrir stönglar af fersku rósmarín
  • Sítróna, skorin í báta

Sætir kartöflubátar

  • 2 stórar eða 4-5 litlar sætar kartöflur
  • 1-1,5 tsk reykt paprika
  • salt
  • pipar
  • ólívuolía

Basilikumajónes

  • 4 basilikustönglar
  • maldonsalt
  • 2 kúfaðar matskeiðar majónes (ég nota Hellmans Light)
  • safi af 1/2 sítrónu

Hitið ofninn í 200°. Skrúbbið eða afhýðið sætu kartöflurnar og skerið þær á lengdina í 8 báta. Leggið bátana í eldfast mót og veltið þeim upp úr ólivuolíu og kryddunum. Bakið í ofninum í 35-40 mínútur.

Takið fram 3 skálar. Setjið hveiti í fyrstu skálina og kryddið með salti og pipar (ég notaði Jamie Oliver saltið með sítrónu og timjan, mjög gott). Hrærið eggin og setjið í aðra skálina. Í þriðju skálina setjið þið brauðraspinn. Veltið nú þorskbitunum fyrst upp úr hveitiblöndunni, síðan hrærðu eggjunum og að lokum brauðraspinum.

Hitið ólívuolíuna við miðlungshita á pönnu og bætið hvítlauknum og rósmaríngreinunum í olíuna. Þetta er gert til að bragðbæta olíuna. Þegar hvítlaukurinn byrjar að krauma er þorsknum bætt á pönnuna. Steikið þorskinn í nokkrar mínútur á hvorri hlið, þar til hann fær fallegan lit.

Fjarlægið stöngulin frá basilikulaufunum og leggið laufin í mortel ásamt maldonsalti. Notið mortelið til að mauka laufin. Bætið majónesi og sítrónusafa út í og blandið vel.

Gratineraður fiskur á hrísgrjónabeði

Dagurinn er búinn að vera viðburðaríkur hjá smáfuglum heimilisins. Klukkan níu í morgun voru bræðurnir mættir í útvarpsviðtal fyrir bæði Leynifélagið og morgunútvarp Rásar 2 vegna Reykjavíkurmaraþonsins. Þeim var boðið að koma í viðtal því Gunnar ætlar að hlaupa 10 km til styrktar Neistans, félagi hjartveikra barna. Hann ákvað það fyrir ári síðan en ég held að það hafi enginn tekið hann alvarlega þá, í það minnsta ekki við.

Gunnar talaði reglulega um maraþonið í vetur og í byrjun sumars sagði hann að nú væri ekki lengur til setunnar boðið, hann yrði að fara að æfa sig. Mér fannst hugmyndin svo galin að ég reyndi hvað ég gat að tala hann af þessu, benti honum á að þetta væri svo löng vegalengd, að hann væri ekki vanur að hlaupa og ætti enga hlaupaskó en hann sagðist alveg getað hlupið þetta í gúmítúttunum sínum. Gunnar gaf sig ekki og það fór svo að Öggi fór með honum út að hlaupa og hlupu þeir 7 km. Við vorum alveg orðlaus yfir dugnaðinum og fórum með hann daginn eftir og keyptum hlaupaskó.  Síðan þá hefur Gunnar hlupið reglulega í sumar og tók þátt í Ármannshlaupinu í júlí þar sem hann náði mjög góðum árangi og hljóp 10 km á 54.28.

Nú styttist óðum í Reykjavíkurmaraþonið og ég verð að viðurkenna að ég verð fegin þegar það verður yfirstaðið. Ég er nefnilega hræðileg íþróttamamma, fer alveg á taugum og ímynda mér allt það versta sem getur komið fyrir. Ef einhvern langar að heita á þennan flotta strák minn og styrkja gott málefni þá er hægt að gera það hér.

En úr maraþoni í kvöldmatinn. Það er alltaf jafn gott að fá fisk í byrjun vikunnar og í dag kom Öggi við í fiskbúðinni á leiðinni heim og keypti glæsilegan þorsk. Ég gerði þennan fiskrétt úr þorskinum sem rann vel ofan í fjölskylduna.

Gratineraður fiskur á hrísgrjónabeði

  • hrísgrjón (ég sauð 1 1/2 bolla fyrir okkur átvöglin)
  • þorskur eða ýsa (ég var með 1 kg)
  • töfrakrydd (má sleppa)
  • 2,5 dl rjómi
  • 3 msk majónes
  • 2 tsk dijon sinnep
  • 2 tsk karrý
  • 50-100 gr ferskrifinn parmesan
  • rauð paprika
  • 1/2 blaðlaukur
  • 200 gr rifinn ostur

Hitið ofninn í 180°. Sjóðið hrísgrjón og leggið í botninn á eldföstu móti. Skerið fiskinn í sneiðar, leggið yfir hrísgrjónin og kryddið með salti, pipar og því sem þykir gott (ég notaði töfrakrydd frá Pottagöldrum). Hrærið saman rjóma, majónesi, sinnepi, karrý og parmesan. Smakkið til og saltið og piprið. Hellið sósunni yfir fiskinn og stráið fínskorinni papriku og blaðlauk yfir. Setjið að lokum rifinn ost yfir og bakið í ca 30 mínútur.

Gratíneraður fiskur með púrrulauk og blómkáli

Á flugvellinum í London keypti ég mér tímarit til að hafa í vélinni á leiðinni heim. Ég var svo heppin að það var til eintak af Jamie Oliver ársblaðinu, þ.e. blaðinu sem hann gefur út með bestu uppskriftum ársins úr Jamie Oliver blöðunum. Ég las hverja einustu uppskrift í blaðinu og eftir flugferðina gat ég ekki beðið eftir að komast heim í eldhúsið. Þar sem það er mánudagur í dag fannst mér tilvalið að byrja á að elda fiskiuppskrift úr blaðinu og valdi gratíneraðan fisk með púrrulauk og blómkáli.

Þessi réttur vakti mikla lukku hjá krökkunum. Malín bað mig um að elda hann fljótlega aftur og eftir matinn þakkaði Gunnar fyrir þennan frábæra mat. Við Öggi vorum sammála þeim og fannst hann báðum mjög góður. Ég breytti uppskriftinni lítillega og gef hana hér með mínum breytingum.

Gratíneraður fiskur með púrrulauk og blómkáli

  • 900 gr ýsa eða þorskur
  • ólívuolía
  • 50 gr smjör
  • 100 gr hveiti
  • 600 ml mjólk
  • 350 gr nýrifinn cheddar
  • 50 gr nýrifinn parmesan
  • 200 gr blómkál
  • 1-2 púrrulaukar
  • brauðraspur

Hitið ofninn í 180°. Kryddið fiskinn með salti og pipar og steikið á pönnu við háan hita í 1-2 mínútur (fiskurinn á ekki að verða fulleldaður). Takið fiskinn af hitanum og leggið til hliðar.

Skerið púrrulaukinn í grófar sneiðar og blómkálið í bita. Sjóðið saman í ca 5-7 mínútur og hellið síðan vatninu af.

Bræðið smjörið á pönnu eða í stórum potti. Bætið hveitinu saman við og hrærið vel saman. Leyfið þessu að sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur og hrærið í á meðan. Bætið mjólkinni rólega saman við og hrærið stöðugt þangað til blandan er orðin að þykkri, sléttri sósu. Kryddið vel (ég notaði salt, pipar og Krydd lífsins frá Pottagöldrum) og hrærið helmingnum af báðum ostunum saman við. Bætið grænmetinu í og hrærið vel. Hrærið að lokum fiskinum út í. Setjið blönduna í eldfast mót, dreifið restinni af ostunum yfir og að lokum handfylli af brauðraspi. Bakið í ca 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn og kominn með fallegan lit.

Krakkarnir mæla með að rétturinn sé borinn fram með tómatsósu.

Matur hjá mömmu

Mamma hefur alltaf verið mikil áhugamanneskja um mat og er dugleg prófa nýja rétti. Hún er snillingur í eldhúsinu og það er alltaf gaman að fara í mat til hennar. Í kvöld bauð hún okkur lax og ég fékk hana til að gefa uppskriftina til að setja hingað inn. Ég mæli með því að þið prófið þennan rétt því hann er algjört æði.

  • 2 laxaflök (1,6 – 2 kg)
  • safi úr 2-3 sítrónum
  • paprikuduft
  • salt
  • pipar
  • 1 stór krukka sweet mango chutney
  • 1 lítil krukka mango chutney
  • 300 gr grófsaxaðar pistasíuhnetukjarna

Leggið flökin á álpappír og kreistið sítrónurnar yfir þau. Kryddið með paprikudufti, salti og pipar. Hrærið saman sweet mango chutney og mango chutney og smyrjið því á flökin. Að síðustu er hnetukjörnum dreift yfir. Bakið í 200 gr. heitum ofni í 15-20 mínútur (eftir stærð laxaflakanna). Stillið ofninn á grill síðustu 2-3 mínúturnar og fylgist vel með því að hneturnar brenni ekki. Einnig má elda laxinn á útigrilli.

Steinseljukartöflur

  • 2-3 msk smjör
  • 1 kg forsoðnar kartöflur
  • salt
  • pipar
  • 2 bollar söxuð steinselja

Bræðið smjör á pönnu og setjið kartöflurnar á pönnuna. Kryddið með salti og pipar. Blandið steinseljunni saman við rétt áður en kartöflurnar eru bornar fram.

Með þessu var borið fram einfalt salat; spínat, klettasalatsblanda, fræhreinsuð agúrka og fetaostur.

Í eftirrétt var boðið upp á ávaxtasalat með vanilluvispi. Það var fullkominn endir á æðislegri máltíð.